Stór skörð Eiður Smári Guðjohnsen biður Ívar Ingimarsson afsökunar á því að hafa skotið hann niður í leik Íslands og Lettlands í haust. Þeir verða hvorugur með á Parken, Eiður tekur sér frí og Ívar er hættur með landsliðinu.
Stór skörð Eiður Smári Guðjohnsen biður Ívar Ingimarsson afsökunar á því að hafa skotið hann niður í leik Íslands og Lettlands í haust. Þeir verða hvorugur með á Parken, Eiður tekur sér frí og Ívar er hættur með landsliðinu. — Morgunblaðið/Golli
Eftir Guðmund Hilmarsson gummih@mbl.

Eftir Guðmund Hilmarsson

gummih@mbl.is

,,Það er af persónulegum ástæðum sem ég gef ekki kost á mér í þennan leik og ég vil ekki fara frekar út í þá ástæðu,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið seint í gærkvöld en hann gefur ekki kost á sér í leikinn við Dani á Parken næstkomandi miðvikudag sem er lokaleikurinn í riðlakeppni Evrópumótsins.

,,Þetta hefur ekkert með ráðningu á landsliðsþjálfara að gera. Ég átti mjög gott spjall við Ólaf í dag (í gær) og fannst hann taka vel á mínum málum og skilja ástæðu mína,“ sagði Eiður Smári.

Hefur þú þá leikið þinn síðasta leik fyrir Íslands hönd?

,,Alls ekki. Ég hef ekki lokað neinum dyrum. Að þessu sinni liggja persónulegar ástæður að baki því að ég verð ekki með í leiknum við Dani og ég vil árétta að þetta hefur ekkert með þjálfarann að gera. Ég vona bara að strákunum gangi sem allra best á Parken,“ sagði Eiður Smári, sem hefði leikið sinn 50. landsleik á Parken. Þess má geta að Ísland hefur ekki fagnað sigri í landsleik án Eiðs Smára í tæp sjö ár.