Waja Í síðustu viku samdi fyrirtækið við stjórnvöld í Íran um sölu á 5.000 Waja–bílum sem notaðir verða sem leigubílar í höfuðborginni Teheran.
Waja Í síðustu viku samdi fyrirtækið við stjórnvöld í Íran um sölu á 5.000 Waja–bílum sem notaðir verða sem leigubílar í höfuðborginni Teheran.
Bílafyrirtækið Proton í Malasíu áformar samstarf við fyrirtæki í Íran og Tyrklandi um smíði „íslamskra bíla“ sem markaðssettir verða um heim allan. Í þeim verður sérstakur áttaviti er vísar til hinnar helgu borgar Mekka.

Bílafyrirtækið Proton í Malasíu áformar samstarf við fyrirtæki í Íran og Tyrklandi um smíði „íslamskra bíla“ sem markaðssettir verða um heim allan. Í þeim verður sérstakur áttaviti er vísar til hinnar helgu borgar Mekka. Frumkvæðið að smíðinni er frá Írönum komið. Auk áttavitans sem auðvelda mun ökumanni og farþegum bænagjörð verður í bílnum sérstök geymsla fyrir Kóraninn og höfuðslæður, segir Syed Zainal Abidin, forstjóri Proton, við fréttastofuna Bernama.

Hann segir bílinn hugsaðan til útflutnings, og geta allt eins verið smíðaðan í Malasíu, Íran eða Tyrklandi. Proton freistar þess mjög að auka útflutning á bílum sínum vegna stöðugt þverrandi hlutdeildar á heimamarkaði.

Proton er ríkisfyrirtæki og naut þess lengi að starfa í vernduðu umhverfi. Innfluttir bílar voru tollaðir hátt og því ekki á færi almennings sem neyddist til að kaupa Proton-bíla.

Tollar hafa lækkað smám saman vegna milliríkjasamninga og því árar ekki eins vel nú og áður fyrir malasísku bílsmiðjurnar. Landsmenn kaupa innflutta bíla í auknum mæli þar sem ný módel hefur þótt skorta í framleiðslulínu Protons og bílar þess ekki þótt gæðamiklir.

Fyrir fimm árum var hlutdeild Proton í bílamarkaðinum í Malasíu 60% en hafði lækkað niður í 23% í fyrra. Í þágu útrásar og til að bæta stöðu sína heima fyrir hefur Proton m.a. átt í viðræðum um samstarf við Volkswagen og General Motors Corp.

Tap varð á rekstri Proton á nýliðnu fjárhagsári upp á sem svarar sjö milljörðum króna. Í síðustu viku samdi fyrirtækið við stjórnvöld í Íran um sölu á 5.000 Waja-bílum sem notaðir verða sem leigubílar í höfuðborginni Teheran.