Víkverji brá sér nýlega á suðrænar slóðir, sem í sjálfu sér er ekki í frásögur færandi. Hins vegar varð atvik á heimleiðinni sem Víkverji ætlar að segja frá.

Víkverji brá sér nýlega á suðrænar slóðir, sem í sjálfu sér er ekki í frásögur færandi. Hins vegar varð atvik á heimleiðinni sem Víkverji ætlar að segja frá. Í upphafi ferðar bauð flugfreyja farþega velkomna um borð og þakkaði þeim í ferðalok fyrir hönd Sumarferðir og fleiri ferðaskrifstofa í nefnifalli. Víkverji verður bara að viðurkenna það að svona beygingarleysisambögur fara í taugarnar á honum. Víkverja finnst fólk of almennt hætt að beygja nafnorð og láta nefnifallið flakka í alls konar samböndum.

Nú streymir bókaflóðið fram og kennir þar margra grasa. Ánægjulegt finnst Víkverja að sjá, hversu hraustleg sundtök ljóðsins eru, en einnig sér hann skáldsögur sem rista bæði hratt og örugglega fram úr hinum. Bækur eru Víkverja alltaf gleðiefni. En einn er sá fylgifiskur bókaflóðsins, sem fer illa í Víkverja; það er auglýsingaskrum útgefenda. Í mörgum tilfellum er eins og aldrei hafi verið skrifuð bók á Íslandi. Það er kannski von að menn kalli og berji bumbur, þegar stríðið er jafn stutt og hart og jólabókavertíðin okkar, en ósköp finnst Víkverja þetta oflof hvimleitt og margir teygðir á eyrunum án þess að vaxa um þumlung sem rithöfundar.

Víkverji þurfti að bregða sér bæjarleið á dögunum og fór akandi. Eins og jafnan tók hann með sér góðgæti til þess að hlusta á á leiðinni og að þessu sinni var komið að Góða dátanum Svejk. Hér eiga upphrópanirnar við: Hvílík snilld! Hvílík skemmtun! Sagan tekur einar 16 klukkustundir í flutningi, en þar er hverri sekúndu vel varið. Þarna fara saman snilldarleg saga Jaroslavs Hasek, frábær þýðing Karls Ísfeld, sem fyrst kom út 1942-43, og stórkostlegur lestur Gísla Halldórssonar í ríkisútvarpinu 1979, sem einn og sér hljómar hápunktur í eyra. Svo oft hefur Víkverji hlustað á Svejk, að nú eru spólurnar orðnar lasnar og því ljóst að Víkverji verður að endurnýja dátann áður en hann kallar hann næst fram á sviðið.