Frelsarinn Kristján Ingimarsson vakti mikla athygli á síðasta ári þegar hann setti upp einleikinn Mike Attack í Borgarleikhúsinu.
Frelsarinn Kristján Ingimarsson vakti mikla athygli á síðasta ári þegar hann setti upp einleikinn Mike Attack í Borgarleikhúsinu. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson jbk@mbl.

Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson

jbk@mbl.is

„ÉG get alveg lofað þér því að þetta er engin venjuleg sýning, þetta er ekki það sem fólk á að venjast,“ segir Kristján Ingimarsson, höfundur Frelsarans , leiksýningar sem sett verður upp í Reykjavík og á Akureyri í næstu viku. Um er að ræða danskt/íslenskt samstarfsverkefni sem Neander, leikhópur Kristjáns, frumsýndi í Danmörku í mars við mjög góðar undirtektir.

Það sem fyrst vekur athygli við sýninguna er að hún er án orða, sem Kristján segir ekki vera neitt tiltökumál. „Ég er að ferðast með þessa sýningu í mjög alþjóðlegu umhverfi þannig að hið myndræna og líkamlega passar vel við það umhverfi. Þá þarf ekki að texta neitt, eða breyta neinu eftir löndum,“ segir hann, en bætir því við að þó sé eitt orð í sýningunni. „Aðalpersónuna langar að segja margt, en hann segir bara eitt lítið orð. Það er mjög mikilvægt orð sem inniheldur kjarnann í sýningunni,“ segir Kristján sem fer einmitt með aðalhlutverkið í verkinu.

Sviðsmyndin eins og A4 blað

Aðspurður segir Kristján að hinum ýmsu listformum sé blandað saman í Frelsaranum .

„Það er til dæmis verið að blanda saman leiklist, dansi, bardagaíþróttum, fimleikum og tónlist. Svo er þetta verk undir miklum áhrifum frá japönsku Manga teiknimyndasögunum,“ segir hann. „Síðan er sviðsmyndin í laginu eins og A4 blað, sem er hin flata jörð sem reisist upp í hamförum. Við erum persónur á þessu hvíta blaði sem er óskrifað í byrjun verksins, en svo fyllum við það út. Við getum líka lyft þessum fleti upp í 90 gráður með fjórum stórum stimplum þannig að vinkillinn breytist, það er að segja hvernig áhorfendur sjá persónurnar – svipað og gerist oft í Manga-sögunum.“

Hvað söguþráðinn varðar segir Kristján hann að stórum hluta byggðan á Opinberunarbókinni.

„Þegar frelsarinn birtist er komið að því sem kalla má heimsendi, ef farið er eftir Biblíunni. Þar á undan fara sjö hamfarir, og það er það sem gerist í þessari sögu, þegar frelsarinn birtist. Til dæmis lyftist jörðin og reynir að losa sig við okkur,“ segir Kristján. „Opinberunarbókin er mjög myndræn, en um leið blóðug þannig að sýningin er í anda hennar, án þess þó að verða alveg jafn blóðug og Biblían,“ segir hann og hlær.

Sýningar á Frelsaranum verða í Þjóðleikhúsinu 22. nóvember og hjá Leikfélagi Akureyrar 24. og 25. nóvember. Miðasala er hafin á midi.is.