Benni! Fjórar! „Ég hef enga trú á því að það sé einhver óprúttinn aðili heima hjá sér að dást að Eddum sem hann fékk ekki,“ segir Ragnar.
Benni! Fjórar! „Ég hef enga trú á því að það sé einhver óprúttinn aðili heima hjá sér að dást að Eddum sem hann fékk ekki,“ segir Ragnar. — Morgunblaðið/Eggert
Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson jbk@mbl.

Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson

jbk@mbl.is

„VIÐ fengum ansi margar Eddur, bæði fyrir Foreldra og Næturvaktina , og þeim var dreift bróðurlega á milli aðstandenda þannig að leikstjórinn færi ekki heim með allt dótið,“ segir Ragnar Bragason leikstjóri, sem sópaði til sín verðlaunum á Eddunni síðastliðið sunnudagskvöld. „Ég sat eftir með tvær Eddur á borðinu í lok athafnarinnar. Þessar styttur eru þungar og það er erfitt að halda á þeim þegar maður er að spjalla við fólk, eins og ég gerði eftir athöfnina, þannig að ég skildi þær bara eftir á borðinu. Svo þegar tók að líða á gleðskapinn og ég fór að huga að heimferð var búið að taka til í salnum, og stytturnar horfnar. Þær hafa ekki komið í leitirnar síðan,“ segir Ragnar, sem virðist þó hafa litlar áhyggjur af málinu. „Þær leynast einhvers staðar, ég hef enga trú á því að það sé einhver óprúttinn aðili heima hjá sér að dást að Eddum sem hann fékk ekki,“ segir leikstjórinn og hlær að tilhugsuninni.

Missir ekki svefn

Eins og sjónvarpsáhorfendur tóku eflaust eftir skaut Ragnar nokkrum léttum skotum að Benedikt Erlingssyni, leikara, leikstjóra og leikskáldi, sem hlaut „aðeins“ þrenn verðlaun á síðustu Grímuhátíð, en Ragnar fékk fjórar Eddur á sunnudaginn.

„Það gæti verið að Benni hafi fengið einhvern til að kippa þessu með sér,“ segir hann í léttum dúr.

Aðspurður segist Ragnar þó vissulega sakna verðlaunanna. „Það væri nú skemmtilegra að hafa þær,“ segir hann, en bætir því þó við að hann bjóði engin fundarlaun. „Ég höfða frekar til samvisku manna, ef Eddurnar hafa slæðst heim með einhverjum. Menn geta bara komið þeim niður í Kvikmyndamiðstöð eða heim til mín. En stytturnar sem slíkar eru ekki verðlaun, heldur meira hugmyndafræðilegt atriði. Þannig að ég missi ekkert svefn yfir þessu.“