— Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gengið hægt um gleðinnar dyr Nú þegar halla fer á seinnihluta nóvembermánaðar fer landinn að búast í jólaham ef marka má aukna ös í verslunarmiðstöðvum og auglýsingaflóð sem berst í formi bæklinga inn á sérhvert heimili.

Gengið hægt um gleðinnar dyr

Nú þegar halla fer á seinnihluta nóvembermánaðar fer landinn að búast í jólaham ef marka má aukna ös í verslunarmiðstöðvum og auglýsingaflóð sem berst í formi bæklinga inn á sérhvert heimili. Aldrei er þó of oft kveðin sú góða vísa að ganga hægt um gleðinnar dyr því mannssálin fær sjálfsagt mun meira út úr því að njóta tímans, sem nú fer í hönd, en að eyða um efni fram og heilsa svo nýju ári með himinháa kreditkortareikninga í handraðanum.

Jólastemning í Borgarnesi

Það væri til dæmis ekki úr vegi að renna sér upp í Borgarnes því Borgnesingar ætla að taka sig saman um að búa til jólastemningu með því að baða bæinn jólaljósum í einu vetfangi kl. 16 í dag með tilheyrandi uppákomum úti um allan bæ. Ljóðasýning barna verður opnuð í Safnahúsinu, kórar flakka um bæinn, danshópur sýnir listir sínar og víða verður hægt að gæða sér á piparkökum. Jólalagaspinning verður í íþróttamiðstöðinni á morgun og létt guðsþjónusta í kirkjunni á sunnudag.

Handverk, basarar og söngur

Nálgast má fallegt handverk á jólabasar Hrafnistu í Reykjavík á morgun kl. 13-17 og á sama tíma verður hægt að gæða sér á vöfflukaffi Ættingjabandsins.

Handverk, sem unnið er úr náttúrulegum efnivið af börnum, foreldrum og kennurum verður líka til sýnis og sölu í Waldorf-skólanum í Lækjarbotnum kl. 12-17. Þar verður líka ýmislegt annað á boðstólum, svo sem brúðuleikhús, ævintýrahellir, kaffisala, veiðitjörn og súpuleikhús. Í Bókasafni Hafnarfjarðar við Strandgötu ætlar barnakór leikskóla Hörðuvalla að syngja kl. 11 á morgun auk þess sem upplestur verður úr jólabókum fyrir yngri börnin. Önnur dagskrá verður svo í bókasafninu frá kl. 13 fyrir eldri börn.

Flóamarkaður í Mosó

Ef að líkum lætur verður hægt að finna margt nýtilegt fyrir lítið fé á flóamarkaði í Kjarnanum í Mosfellsbæ kl. 13 til 18 í dag. Það eru þær Reykjakotssystur sem standa fyrir markaðnum, þar sem verður m.a. hægt að finna barnaföt, bækur, skíði, barnavagn og tískufatnað auk hinna umtöluðu uppskriftabóka þeirra systra.

Tjúttað á öllum aldri

Fyrir þá sem eru í tjúttstuðinu er vert að nefna að í kvöld á degi íslenskrar tungu verða haldnir heljarinnar popptónleikar á NASA þar sem spútniksveitirnar Sprengjuhöllin, Jeff Who? og Motion Boys troða upp. Og í Iðnó má væntanlega hreyfa sig annað kvöld við seiðandi tóna tangóhljómsveitarinnar Silencio, sem stofnuð var í Evrópu árið 2001 og varð fljótt ein eftirsóttasta tangóhljómsveit álfunnar.

Harmonikuunnendur í Reykjavík ætla líka að skemmta sér um helgina því í tilefni 30 ára afmælis Félags harmonikuunnenda í Reykjavík verður efnt til harmonikutónleika með hinum þrítuga norska harmonikusnillingi Emil Johansen í Grafarvogskirkju í kvöld og afmælisárshátíð félagsins verður svo haldin í Breiðfirðingabúð annað kvöld í samvinnu við Þjóðdansafélag Reykjavíkur.