„ÞETTA er mikið áfall fyrir okkur en sem betur fer er fótboltinn þannig að það kemur alltaf maður í manns stað,“ sagði Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari í knattspyrnu, við Morgunblaðið um brotthvarf Eiðs Smára Guðjohnsen úr...

„ÞETTA er mikið áfall fyrir okkur en sem betur fer er fótboltinn þannig að það kemur alltaf maður í manns stað,“ sagði Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari í knattspyrnu, við Morgunblaðið um brotthvarf Eiðs Smára Guðjohnsen úr landsliðshópnum fyrir leikinn gegn Dönum næsta miðvikudag.

Eftir Víði Sigurðsson

vs@mbl.is

Eiður Smári tilkynnti í gær að hann gæfi ekki kost á sér í leikinn af persónulegum ástæðum og Ólafur sagði að það hefði komið sér í opna skjöldu.

„Já, ég hafði engan pata af þessu og hafði verið í sambandi við Eið áður en ég valdi hópinn, og eftir það. En hann tilgreindi persónulegar ástæður sem ég virði og þetta er aðeins bundið þessum eina leik. Hann er ekki að draga í land með landsliðinu.

Að sjálfsögðu breytir þetta að einhverju leyti mínum áætlunum fyrir leikinn, enda er Eiður frábær fótboltamaður og við ætluðum okkur að nýta hæfileika hans á ákveðinn hátt. En við þurfum að finna annan í það hlutverk,“ sagði Ólafur.

Hann sagði að nýr fyrirliði yrði kynntur til sögunnar þegar hópurinn kæmi saman í Kaupmannahöfn á laugardaginn en þeir Hermann Hreiðarsson og Brynjar Björn Gunnarsson hafa gegnt fyrirliðastöðunni í forföllum Eiðs fyrr á þessu ári.

Eiður Smári hefði náð stórum áfanga með landsliðinu í Kaupmannahöfn en það hefði orðið hans 50. A-landsleikur.

Langar til að skoða Eyjólf

Ólafur valdi Eyjólf Héðinsson, miðjumann frá sænska úrvalsdeildarfélaginu GAIS, í stað Eiðs Smára. Eyjólfur er 22 ára og fór til GAIS frá Fylki í ársbyrjun og var fastamaður í sænska liðinu á nýliðnu tímabili. Hann spilaði 20 leiki í úrvalsdeildinni og skoraði eitt mark. Eyjólfur hefur ekki áður verið valinn í A-landsliðshópinn en hann á að baki 19 leiki með yngri landsliðum Íslands, þar af fjóra með 21-árs landsliðinu.

„Ég fylgdist með Eyjólfi þegar hann lék með Fylki og kynntist honum fyrst sem ungum strák í ÍR þegar ég þjálfaði þar á sínum tíma. Eyjólfur er harðduglegur og góður fótboltamaður og mig langar að sjá hvaða framförum hann hefur tekið í Svíþjóð og hvort hann hefur bætt sig á þeim sviðum sem hann þurfti,“ sagði Ólafur en Eyjólfur er fjórði nýliðinn í 20 manna hópi hans.