[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Steingrím Sigurgeirsson sts@mbl.is Tveir miklir karakterar sem hafa sett svip sinn á Bordeaux um áratugaskeið eru þeir Jean-Michel Cazes og André Lurton.

Eftir Steingrím Sigurgeirsson

sts@mbl.is

Tveir miklir karakterar sem hafa sett svip sinn á Bordeaux um áratugaskeið eru þeir Jean-Michel Cazes og André Lurton. Cazes er eigandi hins fræga Chateau Lynch-Bages í Pauillac og byggði upp veldi AXA í Bordeaux og víðar sem inniheldur m.a. vínhúsin Pichon-Longueville, Pibran og Suduiraut ásamt t.d. Quinta de Noval í Porto. Það rak hann allt til ársins 2002 er hann lét af störfum og fór að einbeita sér alfarið að fjölskylduhúsunum Lynch-Bages og Ormes de Pez í samvinnu við soninn Jean-Charles og systurina Sylvie.

Bjargvætturinn Lurton

André Lurton hins vegar á ættir að rekja til ættaróðalsins Chateau Bonnet í Grezillac á Entre-Deux-Mers-svæðinu. Lurton, sem nú er á níræðisaldri, er þekktastur fyrir að hafa bjargað dýrmætasta svæði Graves frá því að hverfa af vínkortinu. Hann hóf að fjárfesta þar á sjöunda áratugnum og keypti m.a. vínhúsin Rochemorin og Louviere í norðurhluta Graves.

Vínrækt átti undir högg að sækja þar á þessum tíma, ekki síst vegna útþenslu Bordeaux-borgar, en svæðið er í syðri útjaðri borgarinnar. Höfðu borgaryfirvöld uppi áform um að reisa nýtt úthverfi á þessum slóðum. Lurton efndi til andófs gegn þessum áformum og vakti herferð hans það mikla athygli að ekki var einungis fallið frá áformunum heldur svæðið skilgreint sem sérstakt víngerðarsvæði í franska „appellation“-kerfinu undir nafninu Pessac-Léognan. Þar er að finna mörg af frægustu vínhúsum Bordeaux s.s. Haut-Brion, Smith-Haut-Lafitte, Haut-Bailly, Pape Clément og Domaine de Chevalier.

En hví þessi inngangur? Jú þessir ágætu menn framleiða ekki einungis rándýr gæðavín fyrir fáa útvalda heldur einnig ódýr gæðavín fyrir fjöldann.

Byrjum á André Lurton.

Divinus de Chateau Bonnet 2006 er athyglisvert vín úr Sauvignon Blanc-þrúgunni frá Bordeaux. Þótt Bonnet sé á svæði sem getur af sér „einföld“ vín miðað við risana eru vínin frá þessu húsi ávallt góð kaup. Í nefi skarpur og spennandi ávöxtur með grænum og hvítum berjum, blómum, aspas og nýslegnu grasi. Ferskt og sýrumikið, ekki langt en gott eins langt og það nær. 1.550 krónur. 86/100

Chateau Bonnet Reserve 2005 er kórrétt og aðgengilegt rauðvín. Sólber, rifsber, vottur af dökku kaffi og jafnvel súkkulaði. Milliþungt, góð uppbygging með þægilegum tannínum. 1.390 krónur. 86/100

Chateau de Barbe Blanche 2005 er rauðvín frá héraðinu Lussac-St-Emilion í Bordeaux í Frakklandi og er húsið í eigu Lurtons. Vínið sló í gegn í íslensku smökkuninni um Gyllta glasið um daginn og það kemur ekki á óvart þegar vínið er smakkað. Hér sést svo sannarlega að 2005-árgangurinn í Bordeaux, sem hefur verið talinn besti árgangur síðustu áratuga, stendur undir nafni. Djúpur, þroskaður en aðgengilegur ávöxtur. Eiginlega tilbúið nú þegar þótt vel megi geyma það í einhver ár. Ég held að það megi fullyrða að þetta séu bestu Bordeaux-kaupin í ríkinu í dag. Mikið fyrir lítið. 1.790 krónur 90/100

Og þá eru það vínin frá Cazes og kannski ákveðin þversögn í ljósi inngangsins hér að framan að hvítvínið Michel Lynch Reserve 2006 skuli vera frá Graves-svæðinu. Það hefur einkenni mun dýrari vína og gæti alveg þóst vera vín frá Pessac-Leognan í blindsmakki. Hitabeltisávextir, sítrus, mangó og töluverð sæt eik. Sauvignon Blanc ríkjandi. Þykkt og ferskt í senn með góðri lengd. Frábær kaup. 1.490 krónur. 88/100

Rauðvínið Michel Lynch Reserve 2005 er framleitt úr þrúgum af Médoc-skaganum. Það hefur verulega dýpt fyrir verð með dökkum rauðum berjum, sólberjum og kirsuberjum, eik og ágætu tannísku biti. 1.490 krónur. 87/100

Þótt Reserve-vínin séu ekki dýr eru til enn ódýrari í línunni. Hið rauða Michel Lynch 2005 er vissulega einfaldara en engu að síður gott með sólberjum, grænni papriku og kryddi. 1.270 krónur. 85/100

Hvítvínið Michel Lynch 2006 er ferskt með grösugri límónuangan. Greinilegur Sauvignon Blanc. Milliþyngd og -lengd. 1.270 krónur. 85/100

Michel Lynch-línan er afar þétt og kannski engin furða þegar haft er í huga að víngerðarteymið frá Chateau Lynch Bages hefur yfirumsjón með henni undir vökulum augum Jean-Michels Cazes.