Ragna Ingólfsdóttir
Ragna Ingólfsdóttir
ÞRÁTT fyrir öruggan sigur í einliðaleik á alþjóðlega Iceland Express-mótinu í badminton hér á landi um síðustu helgi féll Ragna Ingólfsdóttir um sex sæti á heimslista Alþjóðabadmintonsambandsins í einliðaleik kvenna sem gefinn var út í gærmorgun.

ÞRÁTT fyrir öruggan sigur í einliðaleik á alþjóðlega Iceland Express-mótinu í badminton hér á landi um síðustu helgi féll Ragna Ingólfsdóttir um sex sæti á heimslista Alþjóðabadmintonsambandsins í einliðaleik kvenna sem gefinn var út í gærmorgun. Hún er nú í 49. sæti en var í 43. sæti fyrir viku. Að sögn Önna Lilju Sigurðardóttur hjá Badmintonsambandi Íslands er ástæðan sú að Iceland Express-mótið hefur verið fært niður um styrkleikaflokk hjá Alþjóðabadmintonsambandinu frá síðasta ári. „Ragna fékk 2.500 stig fyrir sigurinn um síðustu helgi en í fyrra fékk hún 3.000 stig fyrir sigur á sama móti. Það má segja að það muni þeim 500 stigum sem hún tapar á milli ára að hún fellur um sex sæti á milli vikna,“ sagði Anna Lilja í samtali við Morgunblaðið í gær. Ragna hefði fengið 3.000 stig fyrir sigurinn á Opna ungverska mótinu helgina á undan Iceland Express-mótinu. Ungverska mótið hefði verið sterkara mót að mati Alþjóðabadmintonsambandsins.

Anna Lilja sagði ennfremur að Alþjóðabadmintonsambandið hefði fjölgað flokkum mótanna en jafnframt breytt stigagjöfinni fyrir tæpu ári og því væri Iceland Express-mótið nú í fyrsta sinn í lægri flokki. Þrátt fyrir að Ragna hefði fallið um sex sæti, niður í 49. sæti heimslistans, ætti hún enn góða möguleika á að tryggja sér farseðilinn á Ólympíuleikana á næsta ári héldi hún núverandi stöðu sinni.