Bjartey Sigurðardóttir
Bjartey Sigurðardóttir
Bjartey Sigurðardóttir skrifar um gildi móðurmálsins: "Þegar lesið er fyrir börn byggir það upp orðaforða þeirra og málfræðiþekkingu ..."

Ástkæra, ylhýra málið,

og allri rödd fegra,

blíð, sem að barni kvað móðir

á brjósti svanhvítu,

móðurmálið mitt góða,

hið mjúka og ríka,

orð áttu enn eins og forðum

mér yndið að veita.

(Jónas Hallgrímsson.)

Á DEGI íslenskrar tungu er við hæfi að hugleiða gildi móðurmálsins fyrir nám og þar með tengsl málþroska við námshæfileika. Á síðustu árum hefur athygli sérfræðinga beinst æ meir að vægi málþroska hvað varðar nám. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á fylgni málþroska við námsárangur. Í þessu felst að gera má ráð fyrir að börn sem eru með góðan málþroska nái góðum námsárangri, en þau sem eru með slakan málþroska eigi eftir að glíma við námsörðugleika. (Nation, 2005; Snowling, 1999).

Málið er eitt öflugasta verkfæri hugsunarinnar og undirstaða alls náms. Til þess að börn nái góðum námsárangri er því mikilvægt að þau nái góðum tökum á móðurmáli sínu. Fyrir leikmenn getur verið erfitt að koma auga á börn með slakan málþroska, einkum ef ekki er um framburðarfrávik að ræða. Þessir málerfiðleikar koma gjarnan upp á yfirborðið þegar námsefni þyngist og meira fer að reyna á málskilning nemenda. Slakur málþroski kemur því oft fram sem slakur lesskilningur. Nemandi sem á í erfiðleikum með að skilja hugtök í texta á oftast einnig í erfiðleikum með að nálgast upplýsingar úr textanum, t.d. að ná fram aðalatriðum, draga ályktanir og lesa á milli línanna. Það virðist sem þessum nemendum sé „bókmálið“ fjarlægt og illskiljanlegt. Lesskilningserfiðleikar geta komið fram í öllu bóklegu námi og nægir að benda á, að þegar á yngri stigum grunnskólans byggist stærðfræði að stórum hluta á því að geta lesið og túlkað texta.

Frá eins og hálfs árs aldri geta flest börn lært að meðaltali eitt nýtt orð fyrir hverjar tvær stundir sem þau eru vakandi. Til að þessi ótrúlegi námshæfileiki barna nýtist sem best þarf barnið að búa í frjóu málumhverfi. En hvað geta foreldrar gert til að skapa slíkt umhverfi og örva þannig sem best málþroska barna sinna? Þessari spurningu mætti svara í löngu máli. Ég ætla hins vegar að benda á einfalda og árangursríka leið sem flestir foreldrar ættu að geta nýtt sér. Hér á ég við það að lesa daglega upphátt fyrir börn sín, þegar frá unga aldri.

Þegar lesið er fyrir börn byggir það upp orðaforða þeirra og málfræðiþekkingu, auk þess sem tilfinning fyrir uppbyggingu texta og mismunandi stílbrigðum eykst. Á þennan hátt læra börnin smám saman að skilja og umgangast „bókmálið“, í fyrstu sem þiggjendur en síðar gerir það þeim kleift að vinna úr því á skapandi hátt.

Þeir foreldrar sem vilja veg barna sinna sem bestan í námi og starfi ættu því að gera það að reglu að lesa daglega fyrir þau, þegar frá unga aldri. Þar með gefa þeir börnum sínum ómetanlegt veganesti, auk þess sem slíkar samverustundir hafa ótvírætt tilfinningalegt gildi fyrir foreldra og börn.

Heimildir:

Nation, K. (2005). Children´s Reading Comprehension Difficulties. The Science of Reading: A Handbook. Ritstýrt af Snowling, M. og Hulme, C. Oxford: Blackwell.

Snowling, M.J. og Stackhouse, J. (1999). Dyslexia, Speech and Language: A practitioner's Handbook. London: Whurr.

Höfundur er talmeinafræðingur og sérkennari.