Gjörónýt Bifreiðin sem er af gerðinni BMW skemmdist mikið og ótrúlegt að ökumaður og farþegi hafi sloppið.
Gjörónýt Bifreiðin sem er af gerðinni BMW skemmdist mikið og ótrúlegt að ökumaður og farþegi hafi sloppið. — Morgunblaðið/Frikki
Eftir Andra Karl andri@mbl.

Eftir Andra Karl

andri@mbl.is

AÐSTÆÐUR voru skelfilegar, að sögn lögreglumanns sem mætti á vettvang við bensínstöð Skeljungs við gatnamót Kleppsvegar og Sæbrautar í Reykjavík aðfaranótt fimmtudags eftir að ökumaður fólksbifreiðar missti stjórn á bíl sínum. Ökumaðurinn og farþegi mega heita heppnir að vera enn á lífi eftir slysið.

Eins og sést á meðfylgjandi korti missti maðurinn stjórn á bílnum í beygju inn á Kleppsveg af Sæbraut. Talið er að hann hafi jafnvel verið á ofsahraða er hann keyrði á umferðarskilti og stólpa áður en bifreiðin hringsnerist á plani bensínstöðvarinnar, með tilheyrandi skemmdum á bensíndælum, húsnæði og bílnum. Talið er að bifreiðinni hafi verið ekið stjórnlaust yfir 200 metra áður en hún stöðvaðist. Mennirnir voru fluttir á slysadeild Landspítala en slösuðust ekki alvarlega. Ökumaður er talinn hafa verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna.

Gríðarlega óábyrgt

Fleiri ökumenn eru grunaðir um að hafa farið út í umferðina þrátt fyrir að teljast óökufærir. Einn reyndi að stinga lögreglu af við vettvang umrædds slyss en eltingarleikurinn endaði á Dalbraut. Ökumaður ók bifreið sinni út af Gufunesvegi í Grafarvogi og akstur annars var stöðvaður, einnig í Grafarvogi. Sá er grunaður um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna og var án réttinda.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, segir vandamálið viðvarandi. „Þetta er náttúrlega gríðarlega óábyrg hegðun og ekki hægt að lýsa því með nokkrum orðum hvað þetta er mikið hættuspil. Ég tel að tölurnar frá Rannsóknarnefnd umferðarslysa sýni það býsna vel enda tugir banaslysa á undanförnum árum sem rekja má til ölvunaraksturs eða aksturs undir áhrifum fíkniefna.“ Lögreglustjórinn segir fólk úr öllum stigum þjóðfélagsins hegða sér á þennan hátt.

Treysta á ábendingar

„ÉG TEL að það sé ekki vanþörf á að efna til umræðu um það sem þarna er í gangi,“ segir Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, um þá fjölmörgu ökumenn sem teknir eru undir áhrifum vímugjafa á hverjum sólarhring. Aðfaranótt fimmtudags lá við stórslysi þegar ökumaður undir áhrifum áfengis og vímuefna missti stjórn á bifreið sinni sem hafnaði á bílaplani bensínstöðvar Skeljungs við gatnamót Kleppsvegar og Sæbrautar.

Stefán segir að þó að margir ökumenn hafi verið stöðvaðir undanfarið af þessum sökum sé vandamálið viðvarandi og sífellt sé verið að reyna að koma í veg fyrir það. „Refsingar fyrir ölvunarakstur og akstur undir áhrifum fíkniefna eru býsna þungar. Fyrir ítrekuð brot fá menn fangelsisdóm og það er nokkuð algengt að menn sitji inni fyrir slík brot.“ Í mörgum tilvikum treysti lögreglan á ábendingar borgaranna sem hefur gefist vel. Stefán telur þó að allir verði að líta í eigin barm. „Síðan þurfa menn að vera duglegir við að láta lögregluna vita ef þá grunar að ökumenn séu undir áhrifum.“