Vill breiða samstöðu Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, ræðir myndun nýrrar stjórnar við fréttamenn í Kaupmannahöfn.
Vill breiða samstöðu Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, ræðir myndun nýrrar stjórnar við fréttamenn í Kaupmannahöfn. — Reuters
ANDERS Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, hyggst ræða við leiðtoga allra flokkanna á danska þinginu um nýjan stjórnarsáttmála Venstre og Íhaldsflokksins.

ANDERS Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, hyggst ræða við leiðtoga allra flokkanna á danska þinginu um nýjan stjórnarsáttmála Venstre og Íhaldsflokksins. Fogh hefur þegar rætt við formenn Danska þjóðarflokksins og Nýs bandalags, sem vilja styðja stjórnina, en á mánudag fá forystumenn hinna flokkanna tækifæri til að ræða við hann um stjórnarsáttmálann og úrlausnarefni næsta árs, að því er fram kom á fréttavef danska ríkisútvarpsins.

Fogh vonast eftir breiðri samstöðu um umbótatillögur stjórnarinnar, m.a. í skattamálum, loftslags- og orkumálum og stefnuna í atvinnumálum. Að sögn fréttavefjar danska ríkisútvarpsins leggur forsætisráðherrann þó mesta áherslu á að flokkarnir nái sem fyrst samkomulagi um hvað gera eigi í máli íraskra borgara sem hefur verið synjað um hæli í Danmörku.

Að sögn fréttavefjar danska blaðsins Politiken hyggst Fogh síðan hefja víðtækari viðræður um langtímastefnu í málefnum innflytjenda og hælisleitenda.

Forsætisráðherrann stefnir að því að kynna nýjan stjórnarsáttmála og ráðherralið stjórnarinnar fyrir lok næstu viku. Leiðtogar Danska þjóðarflokksins og Nýs bandalags hafa hvatt stjórnina til að semja nýjan sáttmála án þess að leita eftir samþykki flokkanna tveggja við öll atriði hans.