EIGENDUR eignarhaldsfélagsins Runna ehf. hafa skipt með sér hlut sínum í Teymi í fimm eignarhaldsfélög. Viðskiptin fóru fram á verðinu 6,62 á hlut en um var að ræða tæplega 256,8 milljónir hluta sem skiptu um hendur í gær.

EIGENDUR eignarhaldsfélagsins Runna ehf. hafa skipt með sér hlut sínum í Teymi í fimm eignarhaldsfélög. Viðskiptin fóru fram á verðinu 6,62 á hlut en um var að ræða tæplega 256,8 milljónir hluta sem skiptu um hendur í gær.

Markaðsvirði bréfanna sem voru flutt í önnur félög er því nærri 1,7 milljörðum króna.

Runnar áttu fyrir viðskiptin um 9,6% hlut í Teymi, sem skipt var á Runna ehf. annars vegar og fjögur óstofnuð félög hins vegar. Fyrir skiptinguna var Runnur í eigu fimm félaga, MogS, Sólstafa ehf., Bygg Invest, Primus og Saxhóls.

Runnur er nú í eigu MogS ehf., sem aftur er í eigu Magnúsar Ármann, Þorsteins M. Jónssonar og Kevin G. Stanford. Runnur á eftir viðskiptin 2,4% hlut í Teymi.

Eignarhaldsfélagið Runnur 2, sem er í eigu Sólstafa (Þorsteins M. Jónssonar) á nú 2,4% í Teymi. Eignarhaldsfélögin Runnur 3, Runnur 4 og Runnur 5 eiga nú hvert um sig 1,6% í Teymi. Eitt þeirra er í eigu Bygg Invest (Byggingarfélags Gylfa og Gunnars), annað er í eigu Primus ehf. (Hannes Smárason) og það þriðja er í eigu Saxhóls (Nóatúnsfjölskyldan).

Viðskipti þessu tengd áttu sér einnig stað með hlutabréf í 365 hf. Runnur ehf. seldi 7,8% eignarhlut í 365 hf. og á nú 2,6%. Viðskiptin fóru fram á genginu 2,49 og námu því röskum 664,5 milljónum króna. Runnur 2, keypti 2,6% af þeim hlut.