Á MORGUN verða 200 ár liðin frá fæðingu Jónasar og því hafa hátíðahöldin á degi íslenskrar tungu yfir sér veglegri blæ en oft áður. Hér verða talin upp brot af þeim viðburðum sem í boði eru. Blysför í Hljómskálagarðinn * Gangan hefst stundvíslega kl.

Á MORGUN verða 200 ár liðin frá fæðingu Jónasar og því hafa hátíðahöldin á degi íslenskrar tungu yfir sér veglegri blæ en oft áður. Hér verða talin upp brot af þeim viðburðum sem í boði eru.

Blysför í Hljómskálagarðinn

* Gangan hefst stundvíslega kl. 18 og gengið verður frá aðalbyggingu Háskóla Íslands í Hljómskálagarðinn þar sem blysförinni lýkur við styttu Einars Jónssonar af þjóðskáldinu. Pétur Gunnarsson, formaður Rithöfundasambandsins, flytur ávarp.

*Um hádegisbil opnar forseti Íslands minningarstofu um Jónas að Hrauni í Öxnadal. Kristjana Arngrímsdóttir og Kristján E. Hjartarson flytja lög við ljóð Jónasar.

*Unnur Guðjónsdóttir les upp ljóð Jónasar í Þjóðminjasafni Íslands kl. 12.

*Borgarbókasafnið stendur fyrir bókmenntagöngu í miðbænum tileinkaðri Jónasi á morgun, laugardag. Lagt verður af stað frá Grófarsafni kl. 14.

*Við Kennaraháskóla Íslands er boðið til hátíðarsamkomu í Hylnum frá kl. 12.05 til 12.45. Stúdentar flytja tónlist, Soffía Jakobsdóttir leikkona flytur ljóð Jónasar og Ingunn Snædal ljóðskáld les eigin ljóð. Einnig verður verðlaunaafhending í ljóðasamkeppninni Ljóð á tungu – ljóð um tungu.

*Íslenskuskor Háskóla Íslands og Mímir standa fyrir hátíðardagskrá. Meðal annars verður kynnt nýtt námskeið sem mun mennta íslenskunema í að kenna útlendingum íslensku. Dagskráin stendur frá kl. 16 til 18.30 í stofu 201 í Árnagarði.

*Í Háskólanum á Akureyri flytur Finnur Friðriksson aðjunkt erindið: Íslenskt mál: Fljótum við sofandi að feigðarósi? Í stofu K201 á Sólborg kl. 15.

*Í Skálholti fer fram málþing um nýja Biblíuþýðingu er hefst kl. 18.

*Ég bið að heilsa: Landið, skáldskapurinn og konan í ljóðum Jónasar Hallgrímssonar, er yfirskrift á fyrirlestri Helgu Kress í Ketilhúsinu á Akureyri kl. 17:15.

*Stóra upplestrarkeppnin hefst formlega í grunnskólum landsins. Nemendur í 10. bekk Hvolsskóla á Hvolsvelli lesa Brennu-Njáls sögu í samstarfi við Sögusetrið á Hvolsvelli. Lesturinn hefst kl. 7:30 og lesa nemendur úr sögunni til skiptis fram á kvöld.

*Menntaráð Reykjavíkurborgar afhendir í fyrsta sinn íslenskuverðlaun fyrir reykvísk skólabörn.

*Ljóðabókin Í sumardal er komin út. Bókin er til komin vegna þess að nokkur skáld langaði til að heiðra minningu Jónasar á afmælisárinu. Skáldin eru: Aðalbjörg Jónsdóttir, Bergþóra Jónsdóttir, Heiður Gestsdóttir, Inga Guðmundsdóttir, Ólöf Stefanía Eyjólfsdóttir, Ragna Guðvarðardóttir, Sigurbjörg Björgvinsdóttir og Sigurlaug Guðmundsdóttir.

*Á vegum menningarfélagsins Hrauns í Öxnadal kemur út ný ævisaga sem Böðvar Guðmundsson rithöfundur hefur skrifað og nefnir Jónas Hallgrímsson: Ævimynd . Verður eintak af bókinni afhent öllum nemendum í tíunda bekk í grunnskóla að gjöf.

*Tónleikarnir Jónas Hallgrímsson í 200 ár fara fram í Laugarborg í Eyjafirði í kvöld kl. 20.30.

Flytjendur eru Fífilbrekkuhópurinn.

Jónas erlendis

*Í Jónshúsi í Kaupmannahöfn verður Jónasarkvöld og flytur Böðvar Guðmundsson stutt erindi um skáldið. Kynnt verður bók með nýjum dönskum þýðingum Sørens Sørensens á ljóðum Jónasar.

*Sendiráð Íslands í Moskvu stendur fyrir dagskrá í háskólanum í Moskvu sem er helguð degi íslenskrar tungu og lesið verður úr þýðingum á íslenskum bókum og íslensk tónlist leikin.