Tækniframfarir Vöruflutningamenn í Frakklandi segja útblástur flutningabíla á gróðurhúsalofti hafa minnkað verulega vegna tækniframfara.
Tækniframfarir Vöruflutningamenn í Frakklandi segja útblástur flutningabíla á gróðurhúsalofti hafa minnkað verulega vegna tækniframfara. — Reuters
Franskir vörubílstjórar hafa átt frumkvæði að aðgerðum til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofts stórra vöruflutningabíla. Fallast þeir m.a. á minnkun hámarkshraða þeirra í 80 km/klst.

Franskir vörubílstjórar hafa átt frumkvæði að aðgerðum til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofts stórra vöruflutningabíla. Fallast þeir m.a. á minnkun hámarkshraða þeirra í 80 km/klst. Þykja þeir hafa sýnt gott fordæmi en víðtæk umræða um umhverfismál hefur farið fram í Frakklandi undanfarna mánuði að frumkvæði Nicolas Sarkozy forseta.

Vörubílstjórarnir hafa samþykkt að minnka hámarkshraða flutningabíla úr 90 km í 80, en það gerðu þeir að eigin frumkvæði nokkru fyrir lokafund umhverfisráðstefnu forsetans sem kvað á um ýmsar aðgerðir í samgöngumálum í þágu umhverfisverndar.

Áætlað er að það eitt og sér að hægja á flutningabílunum minnki gróðurhúsaloft í útblæstri þeirra um tvær milljónir tonna á ári. Til viðbótar minni hraða verður flutningabílum jafnframt bannaður framúrakstur á hraðbrautum og tvíbreiðum vegum, sem stuðla mun enn frekar að minni hraða.

Á móti verður þeim gert kleift að aka viðstöðulaust gegnum vegatollstöðvar.

6,7% af heildarúblæstri

Vöruflutningamenn segja útblástur flutningabíla á gróðurhúsalofti hafa minnkað um 80% frá árinu 1990, aðallega vegna tækniframfara. Ekki verði gengið öllu lengra í þeim efnum og því þurfi að koma til skipulagsbreytingar og breytt hegðan í umferðinni til að minnka útblásturinn frekar.

Um fjórðungur losunar gróðurhúsalofts í Frakklandi er rakinn til samgangna í lofti, á láði og legi. Af þeim fjórðungi skrifast rúmlega fjórðungur, 120 milljónir tonna, á vöruflutningabílana eina og sér, eða 6,7% heildarlosunar Frakka.

Flutningabílarnir eru aðeins nokkur hundruð þúsund talsins en til samanburðar losa milljónir fólksbíla um 14% heildarinnar. Flutningamenn hafa sjálfir lagt til aðgerðir til að minnka losunina um 12 milljónir tonna til viðbótar, eða 10% þess sem Frakkar hafa skuldbundið sig til að minnka losun sína á ári fyrir 2020.

Skilvirkast segja þeir vera að þróa og stórauka notkun lífræns eldsneytis, það muni strax skila um 6,2 milljóna tonna minnkun. Einnig megi minnka olíunotkun með minni hraða sem að framan greinir og minnka þannig útblásturinn um 2,0 milljónir tonna.

Þessu til viðbótar leggja samtök flutningabílstjóra til að flutningabílum í umferðinni verði fækkað með því að þróa aukna flutninga á sjó og fljótum og járnbrautum sem tvinnaðir verði við bílaflutninga.

Forsenda þess að takist að draga úr losun gróðurhúsalofts er að flutningabílum á vegum landsins fjölgi ekki. Síðustu 25 ár hefur þeim fjölgað um 2% á ári hverju. Öllu frekari fjölgun gæti gert viðleitni vörubílstjóranna og áform um minnkandi losun flutningabílaflotans að engu.