ÍSLENSKA Skylmingasambandið ætlar að sækja um styrk í sjóð á vegum rússneska auðkýfingsins Alisher Uzmanov. Uzmanov er formaður rússneska skylmingasambandsins og einnig Evrópusambandsins.

ÍSLENSKA Skylmingasambandið ætlar að sækja um styrk í sjóð á vegum rússneska auðkýfingsins Alisher Uzmanov. Uzmanov er formaður rússneska skylmingasambandsins og einnig Evrópusambandsins. „Já, við erum að vinna í því að sækja um styrk til hans vegna reksturs,“ sagði Guðjón Ingi Gestsson, formaður Skylmingasambandsins, í samtali við Morgunblaðið í gær.

Til stendur að stofna Skylmingamiðstöð Norðurlanda hér á landi í hinni nýju og glæsilegu aðstöðu sem komin er í Baldurshaga. „Við sækjum um styrkinn til að sjá um reksturinn og til að halda þjálfaranámskeið fyrir erlenda þjálfara hér á landi. Ég og Nikolay [Mateev skylmingaþjálfari] hittum hann stuttlega á dögunum og hann tók mjög vel í þessar hugmyndir okkar og við höfum verið í sambandi við aðstoðarmann hans vegna þessa,“ sagði Guðjón Ingi. Hann sagðist vonast til að hitta á Uzmanov um aðra helgi þegar Alþjóðasambandið fundar í Madríd á Spáni.

Uzmanov hefur mörg járn í eldinum og var meðal annars nokkuð áberandi í enskum fjölmiðlum á árinu þegar hann keypti stóran hlut í enska knattspyrnuliðinu Arsenal af David Dein.

Guðjón Ingi sagði ekki enn ljóst hvenær skylmingamiðstöðin yrði formlega opnuð, „en það styttist í það,“ sagði hann.