„ÉG get sagt hvað sem ég vil á mínu eigin máli en bara það sem ég kann á öðrum tungumálum,“ segir Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, í samtali við Morgunblaðið í tilefni af því að hún afhendir í dag ný íslenskuverðlaun...

„ÉG get sagt hvað sem ég vil á mínu eigin máli en bara það sem ég kann á öðrum tungumálum,“ segir Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, í samtali við Morgunblaðið í tilefni af því að hún afhendir í dag ný íslenskuverðlaun menntaráðs Reykjavíkur. Hún vitnar í þessum orðum til finnska rithöfundarins Antti Tuuri.

Vigdís bendir á að nokkurs misskilnings gæti varðandi tvítyngi á Íslandi, ekki síst í sambandi við tveggja mála stefnu hjá íslenskum fyrirtækjum og er ósátt við aukna notkun ensku innan stórra íslenskra fyrirtækja:

„Mér finnst að fyrirtækin eigi ekki að senda þau skilaboð út í þjóðfélagið að þau iðki þetta. Þetta er aðför að íslenskunni. [...] Þarna er aftur þessi misskilningur um tvítyngi. Tvítyngi þýðir að alast upp við tvö tungumál og ráða við bæði. En þetta er tveggja mála stefna hjá þessum fyrirtækjum, ekki tvítyngi. Það hryggir mig þegar verið er að senda þessi skilaboð út í þjóðfélagið, að það eigi að setja annað tungumál fullgilt við hliðina á okkar máli.“ | Miðopna