Gunnar Harðarson fæddist í Reykjavík 1954. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1974, BA-gráðu í heimspeki, bókmenntum og íslensku frá Háskóla Íslands 1978, maitrise-gráðu frá Háskólanum í Montpellier 1979 og doktorsgráðu frá Parísarháskóla 1984.

Gunnar Harðarson fæddist í Reykjavík 1954. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1974, BA-gráðu í heimspeki, bókmenntum og íslensku frá Háskóla Íslands 1978, maitrise-gráðu frá Háskólanum í Montpellier 1979 og doktorsgráðu frá Parísarháskóla 1984. Hann er dósent í heimspeki við Háskóla Íslands. Gunnar er kvæntur Guðbjörgu Benjamínsdóttur ráðgjafa og eiga þau þrjú börn.

Hei mspekistofnun Háskólans efnir til málþings á laugardag um heimspeki í skólum.

Málþingið er haldið í stofu 101 í Lögbergi og stendur yfir frá 10 til 16.

Gunnar Harðarson er einn af skipuleggjendum þingsins:

Efla hugsun og rökræður

„Hugmyndin er að ræða stöðu, hlutverk og möguleika heimspekinnar á hinum ýmsu skólastigum. Til málþingsins höfum við fengið áhugaverðan hóp fólks sem bæði hefur kennt heimspeki og rannsakað heimspekikennslu á grunn- og framhaldsskólastigi,“ segir Gunnar. „Við beinum sjónum okkar einkum að því hvert framlag heimspekinnar getur orðið til almenns þroska einstaklingsins innan skólakerfisins, það hlutverk sem heimspekin getur leikið í að efla leitandi og skapandi hugsun, rökræður í jafningjahópi og virka þátttöku í lýðræðislegu samfélagi.“

Samræðufélag og menntastefna

Fyrsta erindi málþingsins flytur Hreinn Pálsson þar sem hann ræðir um hvernig heimspekilegt samræðufélag myndast meðal nemenda. Næstur mun Geir Sigurðsson fjalla um erindi barnaheimspekinnar við íslenskan samtíma og Ólafur Páll Jónsson ræðir um skóla og menntastefnu.

Framsækni og siðferðisþroski

„Eftir hádegishlé flytur Brynhildur Sigurðardóttir erindið Heimspekival í unglingaskóla , Jóhann Björnsson fjallar um verkefnið Siðferðilegt sjálfræði sem unnið var við Réttarholtsskóla, og loks ætlar Róbert Jack að fjalla um ýmsar tilraunir sem hann hefur gert í heimspeki á framhaldsskólastigi,“ segir Gunnar. „Í þriðju lotu málþingsins fjallar svo Ármann Halldórsson um heimspeki og framsækin kennslufræði, og Kristín H. Sætran flytur erindið Tími heimspekinnar í framhaldsskólanum .“

Finna má nánari upplýsingar um dagskrá málþingsins á viðburðadagatali Háskóla Íslands á slóðinni http://www.hi.is.

Málþingið er öllum opið og aðgangur ókeypis.