Sigríður Finnsdóttir Tate fæddist á Hvilft í Önundarfirði 17. janúar 1918 og ólst þar upp ásamt 10 systkinum og einum fósturbróður. Hún lést í Newport News í Virginia í Bandaríkjunum 10. nóvember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Finnur Finnsson, bóndi á Hvilft í Önundarfirði f. 29.12. 1876, d. 14.8. 1956, og Guðlaug Jakobína Sveinsdóttir húsfreyja á Hvilft, f. 28.2. 1885, d. 20.2. 1981.

Systkini Sigríðar voru Sveinbjörn hagfræðingur, látinn; Ragnheiður kennari, látin; Hjálmar fyrrv. forstjóri Áburðarverksmiðjunnar, látinn; Jakob lyfjafræðinemi, lést ungur árið 1941; Sveinn lögfræðingur, látinn; Jóhann tannlæknir, látinn; María hjúkrunarfræðingur; Málfríður hjúkrunarfræðingur; Kristín sjúkraþjálfari, látin; Gunnlaugur, bóndi og fyrrverandi alþingismaður, og fósturbróðir, Leifur K. Guðjónsson skrifstofumaður, látinn.

Sigríður giftist 17. september 1947 David Bramblett Tate verkfræðingi, f. 20. júlí 1925, d. 16. maí 1997. Synir þeirra eru David Bramblett yngri, f. 20. mars 1949, maki Carol W. Tate, f. 15. apríl 1949; Thomas Robert, f. 18. maí 1951; og Richard Finnur, f. 28. maí 1953, maki Angela Tate, f. 25. október 1963. Barnabörn Sigríðar og Davids eru tíu og barnabarnabörnin sjö.

Sigríður gekk í barnaskólann á Flateyri og varð síðan gagnfræðingur frá Menntaskólanum á Akureyri 1937. Hún innritaðist síðan í Hjúkrunarkvennaskóla Íslands og útskrifaðist þaðan sem hjúkrunarfræðingur 1942. Hún hélt til framhaldsnáms og starfa í Bandaríkjunum 1943 en sneri aftur heim 1946 og hóf störf við Landspítalann. Hún kynntist þá verðandi manni sínum David, siglingafræðingi í flugher Bandaríkjanna. Sigríður fluttist eftir það til Bandaríkjanna og þau giftust þar 1947. David lauk skömmu síðar verkfræðinámi og varð seinna á starfsferlinum framkvæmdastjóri hjá Westinghouse samsteypunni. Fjölskyldan bjó víða sakir starfa Davids en síðari árin lengst af á svæðinu við Washington D.C. Sigríður helgaði sig framan af fjölskyldunni eingöngu en eftir að synirnir voru komnir á legg leitaði fyrirtæki er annaðist umsjón með fasteignum starfskrafta hennar og starfaði hún þar um hríð. Hún var á meðan krafta naut við mjög virkur sjálfboðaliði í störfum, sem lutu að heilsugæslu. Eftir lát manns síns dvaldist hún lengst af í Newport News.

Minningarathöfn um Sigríði verður í Newport News í dag.

Þessi orð eru rituð með trega. Föðursystir mín, Sigríður Finnsdóttir Tate, Sigga frænka, er látin. Þótt búsett væri í Bandaríkjunum mestan hluta ævinnar reyndist hún mér eins og öðrum okkur systkinabörnum sínum hér tryggur og góður vinur. Hún var ung hjúkrunarkona, þegar ég fékk mænuveikina sem barn 1946. Sigga hjúkraði mér af alúð en fólk, sem slíkt gerði þá lagði sig í persónulega hættu vegna þess að bóluefni gegn mænuveiki var ekki tilkomið.

Sigga giftist síðan til Bandaríkjanna en lét sér áfram annt um velferð mína. Þegar ég var tvívegis á sjúkrahúsi í lengri tíma í Boston var Sigga óþreytandi í að skrifa og senda mér glaðning. Og það sama gerði hún, þegar ég síðar meir var við framhaldsnám í Bandaríkjunum. Sambandið efldist og varð enn nánara þau 33 ár, sem ég starfaði í Montreal í Kanada, því þótt ár liðu á milli þess að við sæjumst þá vorum við í tíðu símasambandi. Fann ég það mjög hversu fróð hún var sem og víðfeðmi áhugasviðs hennar. Hún setti alltaf fram skoðanir sínar með mikilli hógværð og jafnvel í spurningarstíl en undir niðri leyndist leiftrandi kímnigáfa.

David Bramblett Tate, maður Siggu, var mjög hæfur verkfræðingur og framkvæmdastjóri hjá Westinghouse samsteypunni. Var honum falið að stjórna byggingu kjarnorkuvera víða, m.a. í Svíþjóð. Sigga var honum í því sem öðru stoð og stytta og skapaði fallegt heimili hvar sem þau bjuggu þar sem hún tók á móti þeim fjölda, er sótti þau heim, af alúð og mikilli gestrisni.

Sigga undi sér best sem móðir og amma. Þau David eignuðust þrjá væna syni, David Bramblett yngri, Thomas Robert og Richard Finn. Samband hennar og sonanna og síðar tengdadætranna var mjög náið og hélst til hinsta dags þrátt fyrir að Thomas og Richard settust að í öðrum hlutum Bandaríkjanna. Tengsl hennar við barnabörnin voru einstök. Hún var þeirra „amma“ og hvert þeirra átti sér tryggan stað í hug hennar og hjarta enda dáðu þau hana öll og leituðu mikið til hennar.

Tryggð Siggu við ættjörð sína og fjölskylduna þar var mikil og órofin. Lagði hún sér mikið far um að kynna landið fyrir afkomendum sínum. Synir hennar dvöldust í æsku á Hvilft og eftir lát manns síns bauð hún öllum afkomendum sínum með mökum í ferð til og um Ísland. Eru enda mörg náin bönd milli ættingja sín hvorum megin hafsins.

Þegar ég hugsa um Siggu finnst mér lýsingin á Auði djúpúðgu eiga svo vel við. Reisn yfir þeim báðum, báðar hösluðu sér völl fjarri ættjörðinni, báðar sýndu fádæma kjark, dugnað, visku, mikla umhyggju og ábyrgðartilfinningu, og báðar náðu þær sínum markmiðum án þess að styggja aðra.

Við hjónin vottum frændum mínum, mökum þeirra og fjölskyldum einlæga samúð og þökkum innilega fyrir þessa einstöku konu. Blessuð sé minning hennar.

Gunnar Finnsson.