Kjarval Kápu Undir Hraundranga prýðir málverk Kjarvals, Listaskáldið góða (1945-1952).
Kjarval Kápu Undir Hraundranga prýðir málverk Kjarvals, Listaskáldið góða (1945-1952).
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fá íslensk skáld hafa verið rannsökuð jafn ítarlega og Jónas Hallgrímsson. Um fá ljóð hefur meira verið skrifað en Jónasar. Frægar eru deilur um einstök ljóð eins og „Alsnjóa“. Hver er merking þess? Hver er hjartavörðurinn?

Fá íslensk skáld hafa verið rannsökuð jafn ítarlega og Jónas Hallgrímsson. Um fá ljóð hefur meira verið skrifað en Jónasar. Frægar eru deilur um einstök ljóð eins og „Alsnjóa“. Hver er merking þess? Hver er hjartavörðurinn?

Um þessar mundir kemur út bók með úrvali ritgerða um Jónas Hallgrímsson í ritstjórn Sveins Yngva Egilssonar. Bókin heitir Undir Hraundranga og skiptist í fjóra hluta og fyrir hverjum þeirra fer tilvitnun í verk Jónasar eins og segir í inngangi: „Í fyrsta hluta eru yfirlitsritgerðir eða skrif um ævi og örlög hans. Í öðrum hluta eru ritgerðir sem hafa vísindi og trú að umfjöllunarefni. Ritgerðirnar í þriðja hluta fjalla einkum um Jónas í ljósi sögu og samhengis. Í fjórða og síðasta hluta eru ritgerðir um verk hans og viðtökur þeirra.“

Elsta ritgerðin eru minningarorð Konráðs Gíslasonar um Jónas í Fjölni 1847, en þau voru jafnframt það fyrsta sem um Jónas var ritað í samfelldu máli. Yngsta ritgerðin er eftir Svein Yngva Egilsson og birtist í Skírni á síðasta ári. Bókin spannar því svo að segja allan þann tíma sem skrif um Jónas hafa verið stunduð.

Eins og ritstjóri bókarinnar rekur í inngangi sínum voru merkilegar ritgerðir samdar um Jónas þegar á 19. öldinni en í safninu eru þó ráðandi skrif um hann frá seinni tímum. Og það vekur athygli að mikil gróska hefur hlaupið í rannsóknir á Jónasi síðustu ár og áratugi. Það var mikil stemning fyrir Jónasi á níunda áratugnum sem skilaði glæsilegri heildarútgáfu Svarts á hvítu á verkum hans 1989. Hugsanlega hefur þessi útgáfa haft eitthvað með það að gera að á tíunda áratugnum voru skrif um Jónas mjög mikil.

Sveinn Yngvi bendir á að árið 1999 hafi komið út nokkur rit um Jónas sem hafi staðfest að til væri orðið ákveðið rannsóknarsvið sem kalla mætti Jónasarfræði. Á meðal fræðimanna sem fengust við Jónas á þessum árum voru Svava Jakobsdóttir, Matthías Johannessen, Páll Valsson, Dagný Kristjánsdóttir og Helga Kress, en öll eiga þau greinar í bókinni.

Og meira af Jónasi. Fyrir stuttu kom út safn tuttugu ljóða skáldsins í danskri þýðingu Sørens Sørensen ljóðskálds. Bókin heitir Landet var fagert og Matthías Johannessen ritaði ítarlegan formála. Aftast í bókinni eru svo skýringar við einstök ljóð.

Meðal ljóða sem Sørensen þýðir er „Gunnarshólmi“ en fyrsta erindið hljómar svona á dönskunni:

Og der lå sol på landets sommerveje,

og tindens sølvblå is på Eyjafjeld

tog aftenrødens gyldne glød i eje.

Þröstur Helgason (throstur@mbl.is)