Aukakíló Á sama tíma og þyngd sparast með léttari byggingarefnum hrannast aukakílóin upp.
Aukakíló Á sama tíma og þyngd sparast með léttari byggingarefnum hrannast aukakílóin upp. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Hálfgerður offituvandi hrjáir bílaframleiðendur að því leyti að bílar hafa þyngst og þyngst a.m.k. undanfarinn áratug. Og það þrátt fyrir tækni- og verkfræðilegar framfarir í bílsmíði.

Hálfgerður offituvandi hrjáir bílaframleiðendur að því leyti að bílar hafa þyngst og þyngst a.m.k. undanfarinn áratug. Og það þrátt fyrir tækni- og verkfræðilegar framfarir í bílsmíði. Nemur þyngdaraukningin 1,5% á ári hverju síðustu 10 árin, að sögn sérfræðings um bílaframleiðslu. Garel Rhys, prófessor við viðskiptaháskólann í Cardiff, hefur rannsakað fyrirbærið og segir markaðsöfl útskýra þyngdaraukninguna. Kemur niðurstaðan á óvart þar sem á sama tímabili hafa málmar til bílsmíði orðið léttari. Stál sem notað er nú til dags er t.a.m. léttara en fyrir áratug þótt stinnara sé. Af hálfu bílafyrirtækja gætir þeirrar tilhneigingar að kenna um opinberum reglugerðum sem skyldi þá til að setja í bíla tiltölulega þungan öryggisbúnað. Við BBC-útvarpið segir Rhys prófessor ástæðurnar fleiri. Um leið og þyngd hafi sparast með léttari byggingarefnum sáu hönnuðir og framleiðendur það sem tækifæri til að auka búnað í bílunum.

Brotthvarf frá straumfræðilegri skilvirkni

Nefnir hann að þá hafi t.d. komið til sögunnar sjö hátalarar í einum og sama bílnum. Framleiðendur hafa aukið á ýmiss konar rafeindabúnað í bílum – frá gervihnattaleiðsögubúnaði og margslungnum loftræstibúnaði yfir í rafdrifnar sóllúgur og dyr sem lokast við að smella á takka. Allt hefur það verið gert til að auka bílasölu og bæta afkomuna. Afleiðingin hefur meðal annars verið sú, að sögn Rhys, að bílar hafa þróast frá því að vera straumlínulagaðir upp í að vera þunglamalegri. Hörð samkeppni um markaðshlutdeild eigi sinn þátt í því. Viðleitnin til að framleiða bíl öðruvísi útlits en keppinautarnir hafi leitt til brotthvarfs frá straumfræðilegri skilvirkni. Niðurstaðan af viðbótarþyngdinni er aukin eldsneytisnotkun og þar með hlutfallsleg aukning á gróðurhúsalofti í útblæstri bifreiða. Á sama tíma hafa framfarir við bílsmíði leitt til þess að helmingi minni orku þarf til að smíða bíl nú en fyrir fjórum árum. Sem þykir markvert þar sem orkan sem fer í bílsmíðina er um 10% þeirrar orku sem bíllinn þarf á æviskeiði sínu.