Ólína og Blíða „Mæðgurnar“ mæta tvisvar í viku á æfingu hjá Björgunarfélagi Ísafjarðar og fara mánaðarlega í æfingabúðir til Reykjavíkur.
Ólína og Blíða „Mæðgurnar“ mæta tvisvar í viku á æfingu hjá Björgunarfélagi Ísafjarðar og fara mánaðarlega í æfingabúðir til Reykjavíkur. — Morgunblaðið/Halldór Sveinbjörnsson
Eftir Jóhönnu Ingvarsdóttur join@mbl.

Eftir Jóhönnu Ingvarsdóttur

join@mbl.is

Uppskrift að uppáhaldshelgi hjá mér er náttúrlega góð hvíldarhelgi þar sem innifalinn er góður göngutúr og ein leitaræfing með hundinum auk þess sem spennandi uppákoma í menningarlífinu, til dæmis menningardagskrá eða skemmtilegir tónleikar, eitthvað sem tekur ekki alltof langan tíma, væri mjög ákjósanleg viðbót og andlegt helgarfóður fyrir mig,“ segir þjóðfræðingurinn Ólína Þorvarðardóttir, einn af stofnendum og núverandi formaður Vestfjarðaakademíunnar, sem ætlar í samstarfi við afmælisnefnd Guðmundar Inga Kristjánssonar að efna til skáldskaparþings undir yfirskriftinni „Vestfirsku skáldin“ í Holti í Önundarfirði nk. sunnudag.

Í minningu vestfirskra skálda

Boðið verður upp á umfjöllun í tali og tónum um vestfirsk skáld frá ýmsum tímum. Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðingur flytur erindi um Guðmund Inga. Andrea Harðardóttir fjallar um Jón úr Vör og Jakobínu Sigurðardóttur. Fluttur verður fyrirlestur Jónu Símoníu Bjarnadóttur um Steingerði Guðmundsdóttur, leikskáldið sem týndist í bókmenntasögunni. Bjargey Ingibjörg Gunnlaugsdóttir syngur lög af vestfirskum uppruna. Ólína kveður stemmur við vestfirskar vísur og þulur og fjallar um vestfirsku skáldin. Hrafnhildur Hafberg les upp úr verkum Guðmundar G. Hagalín og Viðar Konráðsson kemur fram í hlutverki Grasa-Guddu úr leikritinu Skugga-Sveini.

Dagskráin er helguð minningu skáldsins Guðmundar Inga Kristjánssonar frá Kirkjubóli í Bjarnadal í Önundarfirði, sem hefði átt aldarafmæli á þessu ári. Til sýnis og sölu verður afmælisdagabók með ljóðum skáldsins sem út er að koma, en bókina samdi Guðmundur Ingi á árunum 1927-32 og orti ljóð við hvern dag ársins.

„Þau eru orðin æði mörg vestfirsku skáldin sem komið hafa við bókmenntasöguna frá upphafi enda er dagskránni m.a. ætlað að minna á þær gersemar sem við Vestfirðingar eigum í íslenskri bókmenntasögu,“ segir Ólína.

Göfugur félagsskapur

Vestfjarðaakademían var stofnuð fyrir tveimur árum í anda Reykjavíkurakademíunnar. Hún er, að sögn Ólínu, göfugur félagsskapur fólks sem fært er um að sinna rannsóknum og fræðastörfum og hefur metnað til eflingar háskóla- og þekkingarsamfélaginu á Vestfjörðum með því að standa fyrir fyrirlestrum og akademísku starfi.

Formaðurinn Ólína gerir sér vonir um að Vestfirðingar taki nú við sér og fjölmenni á menningarhátíðina í Holti. Dagskráin er opin öllum á meðan húsrúm leyfir og kaffiveitingar verða í boði.

Ólína sagði skilið við borgarlífið árið 2001 þegar hún fluttist vestur á Ísafjörð og segist nú svo gott sem hafa skotið þar rótum. „Ég vissi svo sem áður að hér væri gott að búa því ég bjó fyrir vestan sem unglingur og hér á ég allt mitt tengdafólk.“

Ólína starfar nú sem verkefnastjóri hjá Stofnun fræðasetra Háskóla Íslands þar sem hún sinnir stjórnsýsluverkefnum, kennslu og rannsóknum. „Allt annað sem ég tek mér fyrir hendur má segja að falli undir hattinn „áhugamál“ hjá mér. Ég ásamt öðrum áhugamönnum um framsækna frétta- og fjölmiðlun á Vestfjörðum stofnaði til dæmis nýlega vefmiðilinn www.skutull.is til mótvægis við bæjarmálgagnið Bæjarins bestu. Við nýja miðilinn vinna menn alfarið í sjálfboðavinnu.

Svo er nóg að gera í þjálfun björgunarhundsins Blíðu, sem ég fékk til mín sem hvolp fyrir rúmum tveimur árum. Blíða er atorkumikil tík af dalmatíukyni sem þarfnast töluverðrar vinnu. Hún þarf í sína daglegu göngutúra og björgunaræfingar fara svo fram tvisvar í viku auk þess sem við „mæðgurnar“ mætum í æfingabúðir til Reykjavíkur mánaðarlega yfir vetrartímann ásamt öðrum björgunarhundum og eigendum þeirra,“ segir Ólína.

En hvernig stóð á því að Ólína fór í hundana?

„Ég átti hund í fjórtán ár hér á árum áður, en hef ekki staðið í markvissri hundaþjálfun fyrr en nú. Auk þess finnst mér meiri tilgangur í því að þjálfa upp hund til björgunarstarfa en til sýningastarfa því ég vil að hundurinn minn geti gert gagn. Ég gekk því í Björgunarfélag Ísafjarðar, sem er deild innan Landsbjargar, þegar ég hóf hundaþjálfunina. Ég hafði stundað hestamennsku í fjörutíu ár, en lét hrossin frá mér með miklum trega fyrir þremur árum þar sem mér fannst ég ekki hafa nógu góðan tíma til að sinna þeim. Ári síðar var ég komin í hundana.“

Ólína mælir með...

Göngutúrinn: Það er náttúrlega göngutúr um friðland Hornstranda á fallegum júlídegi.

Sundlaugin: Vesturbæjarlaugin í Reykjavík. Þangað fer ég alltaf þegar ég kem til Reykjavíkur.

Besti tími dagsins: Milli klukkan tíu að kvöldi til tvö að nóttu á fallegu vorkvöldi. Þá langar mann að vaka og þá er maður fullur af orku.

Best að borða: Íslenskt lambalæri à la mamma og amma.

Uppáhaldsveitingastaður: Ég hef alltaf haldið tryggð við Hornið í Reykjavík. Það er bara kósí staður.

Fallegasti staður á landinu: Það er án efa Hornvíkin og annar valkostur væri Álftafjarðarbotn á fallegum degi.

Skáldskaparþingið „Vestfirsku skáldin“ hefst kl. 16.00 á sunnudaginn í Holti í Önundarfirði.