— Morgunblaðið/Sverrir
Eftir Arnór Gísla Ólafsson arnorg@mbl.

Eftir Arnór Gísla Ólafsson

arnorg@mbl.is

DANSKIR fjölmiðlar gera því skóna að FL Group kunni hugsanlega að selja liðlega fjórðungshlut sinn í Royal Unibrew vegna þess að félagið hafi tapað gríðarlega miklu á skráðum eignum sínum á undanförnum vikum; í frétt á viðskiptavef Berlingske Tidende er fullyrt að FL Group hafi tapað meira en tveimur milljörðum danskra króna eða á þriðja tug milljarða íslenskra króna eftir þriðja fjórðung, þ.e. eftir 1. október. Í frétt Berlingske Tidende segir að „fjárfestingasérfræðingur í stórum dönskum banka“ hafi reiknað út að FL Group hafi tapað 25 milljörðum íslenskra króna á eignum sínum til viðbótar við þá liðlega 27 milljarða sem félagið tapaði á þriðja fjórðungi. Þannig hafi verðmæti eignarhluts FL Group í Glitni minnkað um 8% frá 1. október, verðmæti Commerzbank hafi minnkað um 5% og Finnair um 8%: Auk þess hafi FL Group tapað um 15% á eign sinni í „íslensku tryggingafélagi“ frá 1. október en þar mun vafalaust vera átt við Tryggingamiðstöðina.

Halldór Kristmannsson, framkvæmdastjóri samskiptasviðs FL Group, tekur fram að hann hafi ekki séð umrædda grein en segir ljóst að tölurnar sem þar séu nefndar séu ekki réttar. Hann segir það þó ekkert launungarmál að miklar lækkanir hafi almennt orðið á skráðum félögum og þá einnig hjá félögum sem FL Group eigi í. Hann minnir á að yfir 90% af eignum FL Group séu í skráðum eignum, að TM meðtöldu, og því sé auðvelt fyrir markaðinn að fylgjast með breytingum á verðmæti eignasafns FL Group.

Í hnotskurn
» FL Group tapaði 32 milljörðum fyrir og 27,2 milljörðum eftir skatta á þriðja fjórðungi ársins.
» Ljóst er að verðmæti skráðra eigna félagsins hefur minnkað umtalsvert á fjórða og síðasta fjórðungi ársins.