HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á fimmtugsaldri í 2½ árs fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn sex ungum stúlkum, sem voru á aldrinum 4-13 ára þegar brotin voru framin.

HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á fimmtugsaldri í 2½ árs fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn sex ungum stúlkum, sem voru á aldrinum 4-13 ára þegar brotin voru framin. Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða öllum stúlkunum nema einni bætur, samtals 2,9 milljónir króna, auk 2,3 milljóna króna í málskostnað.

Maðurinn var ákærður í júní í sumar fyrir kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum, sem allar eru fæddar árið 1992. Með bréfi 14. mars 2006 hafði Barnavernd Reykjavíkur farið þess á leit við lögreglu að fram færi lögreglurannsókn vegna gruns um að ein stúlkan hefði orðið fyrir kynferðisbroti. Var vísað til þess að móðir stúlkunnar hefði komið til viðtals hjá Barnavernd Reykjavíkur 21. febrúar 2006 vegna dóttur sinnar og tilkynnt að stúlkan hefði ef til vill orðið fyrir ósæmilegu athæfi af hálfu manns sem væri frændi vinkonu hennar.

Eftir ákæruna í júní var í september gefin út önnur ákæra þar sem manninum var gefið að sök að hafa á árunum 1988-1994 brotið margsinnis gegn stúlku sem fædd er 1984, og einnig annarri stúlku, sem fædd er 1987, árið 1993 eða 1994. Þessar stúlkur voru systkinabörn mannsins.

Við rannsókn málsins var sími ákærða hleraður að fengnum dómsúrskurði og kom þá í ljós að ákærði átti í símasamskiptum við fjórar stúlknanna.

Maðurinn neitaði að mestu sök en dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að brot hans væru alvarleg. Var hann sakfelldur fyrir misjafnlega gróf kynferðisbrot gagnvart sex ungum stúlkum. Séu brotin trúnaðarbrot og beinist að stúlkum sem honum var beint og óbeint treyst fyrir. Þá hafi sumar stúlkurnar verið á viðkvæmu þroskaskeiði er brotin áttu sér stað. Sé háttsemi ákærða sérlega ámælisverð þar sem tvær stúlknanna voru einungis börn þegar atvikin áttu sér stað. Ákærði er fæddur í ágúst 1966 og hafði ekki áður sætt refsingu svo kunnugt væri.

Dómurinn var fjölskipaður, héraðsdómurunum Símoni Sigvaldasyni dómsformanni, Sigrúnu Guðmundsdóttur og Sigurði H. Stefánssyni.

Verjandi ákærða var Guðrún Sesselja Arnardóttir hdl. og sækjandi Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari hjá embætti ríkissaksóknara.