Hvar er Valli? Ef grannt er skoðað má finna tvö íslensk húsdýr á myndinni, en þau voru fengin sem staðgenglar Sprengjuhallarmannanna Atla Bollasonar og Sigurðar Tómasar Guðmundssonar, sem áttu ekki heimangengt.
Hvar er Valli? Ef grannt er skoðað má finna tvö íslensk húsdýr á myndinni, en þau voru fengin sem staðgenglar Sprengjuhallarmannanna Atla Bollasonar og Sigurðar Tómasar Guðmundssonar, sem áttu ekki heimangengt. — Morgunblaðið/Golli
Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson jbk@mbl.is „SPRENGJUHÖLLIN og Motion Boys eru náttúrlega svakalega vinsælar um þessar mundir,“ segir Elís Pétursson, bassaleikari Jeff Who?

Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson

jbk@mbl.is

„SPRENGJUHÖLLIN og Motion Boys eru náttúrlega svakalega vinsælar um þessar mundir,“ segir Elís Pétursson, bassaleikari Jeff Who? þegar hann er spurður að því hvers vegna fólk ætti að skella sér á tónleika hljómsveitanna þriggja á NASA í kvöld. „Það er ekkert oft sem svona hljómsveitir koma saman að spila. Oftast er einhver þrepaskipting; lítið, minna og stærra band, en þarna eru þrjár stórar sveitir saman. Upphaflega ætluðum við að hafa þetta á Organ, en við sáum fljótlega að við myndum sprengja staðinn utan af okkur.“

Elís segir hljómsveitirnar þrjár vera miklar vinasveitir og að sumir meðlimir þeirra tengist fjölskylduböndum, aðrir hafi verið saman í bekk í grunn- eða menntaskóla og enn aðrir hafi verið vinir frá barnæsku. Því hafi það legið í augum uppi að halda þessa tónleika.

„Svo var líka einhver í Sprengjuhöllinni sem henti því fram að íslensku poppi ætti að koma í okkar hendur þannig að popphugtakið fengi aftur eitthvert vægi – annað en sveitaballapoppið. Poppið hefur ekki fengið uppreisn æru, nema í þessu sveitaballapoppi. Okkur finnst við hafa það til brunns að bera að vera metnaðarfyllri en það í poppinu,“ segir Elís og bætir því við að þeir félagar muni eflaust „flippa“ eitthvað á tónleikunum í kvöld - gestum til ánægju.

Í tilefni af tónleikunum hittust meðlimir sveitanna í ónefndu hesthúsi á höfuðborgarsvæðinu í fyrrakvöld og fóru yfir stöðuna. Svo heppilega vildi til að ljósmyndari Morgunblaðsins var á staðnum og náði hann þessari mynd af þeim félögum. Elís segist nýbúinn að ná hestalyktinni úr fötunum. „Það tókst með svitalyktareyði og smárakspíra – það er allt sem þarf.“

Tónleikarnir hefjast kl. 23 og miðaverð er 1.500 kr. Miðasala fer fram á midi.is og í verslunum Skífunnar og BT á landsbyggðinni.