Asfhaq Pervez Kiani
Asfhaq Pervez Kiani
Eftir Davíð Loga Sigurðsson david@mbl.is RÍKISSAKSÓKNARINN í Pakistan segir að Pervez Musharraf forseti ætli að hætta sem æðsti yfirmaður hersins fyrir 1. desember nk.

Eftir Davíð Loga Sigurðsson

david@mbl.is

RÍKISSAKSÓKNARINN í Pakistan segir að Pervez Musharraf forseti ætli að hætta sem æðsti yfirmaður hersins fyrir 1. desember nk. Áður hefur Musharraf heitið því að víkja um leið og hæstiréttur Pakistans hefur staðfest kjör hans sem forseta til næstu fimm ára, en gert er ráð fyrir að það gerist innan fárra daga.

Musharraf skipaði í gær nýja bráðabirgðaríkisstjórn en hún á að sögn embættismanna að fara með völdin í Pakistan þangað til búið er að halda þingkosningar í janúar. Á sama tíma lýstu tveir helstu leiðtogar stjórnarandstöðunnar, Benazir Bhutto og Nawaz Sharif, því yfir að þau hefðu hafið formlegar viðræður um kosningabandalag. Bhutto sneri aftur til Pakistans í lok síðasta mánaðar eftir útlegð og var þá talið að hún og Musharraf hefðu gert samkomulag sín í millum. Eftir að Musharraf setti neyðarlög hefur Bhutto hins vegar sagt að ekki komi til greina að deila völdum með Musharraf. Hann verði að víkja.

Ein skýring stjórnmálakreppunnar í Pakistan er sú að Musharraf hefur allt frá 1999, er herinn rændi völdum, gegnt embætti æðsta yfirmanns hersins um leið og hann hefur verið forseti. Geri Musharraf nú loksins alvöru úr því að víkja sem yfirmaður hersins er talið líklegt að við hlutverkinu taki Ashfaq Pervez Kiani hershöfðingi.

Vestrænir hermálasérfræðingar segja Kiani afskaplega hæfan mann sem lítinn áhuga hafi á því að blanda sér í stjórnmál Pakistans, ólíkt Musharraf. Kiani ólst upp við bág kjör en tilheyrir þó áhrifamikilli ætt í Punjab-héraði. Hann var ekki í innsta hring valdakjarnans í hernum sem studdi gjörðir Musharrafs 1999, er hann tók völdin í Pakistan, en hefur undanfarin ár verið honum handgenginn. Kiani hefur verið við nám í herskóla Bandaríkjahers í Fort Leavenworth í Kansas og þekkir til í Pentagon. Athygli vekur svo að Kiani er sagður hafa ágætis tengsl við Bhutto, en margir í hernum hafa ímugust á henni. Hann átti sæti í ríkisstjórn Bhutto sem ráðgjafi í hermálum snemma á tíunda áratugnum og hann sinnti hlutverki milligöngumanns í samningaviðræðum hennar og Musharrafs nú í haust.