<strong>Jónasarsýning opnuð</strong> Sigurður Líndal, Halldór Blöndal og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Jónasarsýning opnuð Sigurður Líndal, Halldór Blöndal og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. — Morgunblaðið/Halldór Kolbeins
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ingveldi Geirsdóttur ingveldur@mbl.is Í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli Jónasar Hallgrímssonar var sett á laggirnar nefnd á vegum menntamálaráðurneytisins til að skipuleggja viðburði á afmælisárinu.

Eftir Ingveldi Geirsdóttur

ingveldur@mbl.is

Í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli Jónasar Hallgrímssonar var sett á laggirnar nefnd á vegum menntamálaráðurneytisins til að skipuleggja viðburði á afmælisárinu. „Ég og menntamálaráðherra áttum tal saman fyrir tveimur árum og þá kom upp að senn yrðu 200 ár frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar og okkur fannst báðum óhjákvæmilegt að minnast þess með veglegum hætti, enda Jónas einu sinni Jónas.

Nefndin var síðan sett á laggirnar stuttu síðar, að haustlagi,“ segir Halldór Blöndal, fyrrverandi alþingismaður, sem veitir nefndinni formennsku en aðrir nefndarmenn eru Margrét Eggertsdóttir, Páll Valsson, Sigrún Björk Jakobsdóttir, Jón G. Friðjónsson og Sveinn Einarsson sem hefur umsjón með dagskrá afmælisársins.

„Hlutverk nefndarinnar var að hvetja fyrirtæki, stofnanir og söfn til að gera eitthvað á afmælisárinu,“ segir Halldór og bætir við að aðalhlutverk nefndarinnar hafi ekki verið að standa fyrir uppákomum eða verkefnum heldur ýta við öðrum og úthluta fjárupphæðum til verkefna.

„Við höfðum nokkurt fé til umráða, 50 milljónir króna, sem við deildum á milli verkefna eftir því sem við töldum skynsamlegt og höfðum ráð á.“

Margt minnisstætt

Fyrsta verkefni nefndarinnar var að koma upp heimasíðunni jonashallgrimsson.is en þar má finna almennar upplýsingar um Jónas og allt sem hann varðar. Auk þess hefur nefndin styrkt Valdimar Leifsson til gerðar kvikmyndar um ævi Jónasar en sú mynd kemur fyrir sjónir almennings bráðlega.

„Eftir heimasíðuna tókum við ákvörðun um að það yrði nauðsynlegt að hafa sýningu um Jónas; manninn, náttúrufræðinginn og skáldið. Samið var við Björn G. Björnsson að hann skyldi sjá um framkvæmd þeirrar sýningar og hefur honum farist það mjög vel. Fyrsta sýningin var á Akureyri, síðan var ein í Kaupmannahöfn og í gær var opnuð sýningin „Ferðalok“ í Þjóðmenningarhúsinu. Sýningin er mjög falleg svo ég hygg að menn geri ekki annað skynsamlegra en að eiga dagstund þar og fræðast um Jónas. Á henni getum við séð ýmislegt sem er með því helgasta sem við Íslendingar eigum; eigin handrit Jónasar, teikningar eftir hann og náttúrugripasafn. Þarna er ýmislegt að koma fyrir sjónir Íslendinga í fyrsta skipti,“ segir Halldór.

Jónasar hefur einnig verið minnst utan landsteinanna en í Kaupmannahöfn fór fram mikil Íslendingahátíð til minningar um Jónas í byrjun september og á Íslendingadeginum í Gimli í Kanada í ágúst var Jónasar sérstaklega minnst með veglegri dagskrá.

„Við erum mjög ánægð þegar við lítum til baka, því það hefur komið í ljós, eins og við þóttumst vita, að Íslendingar vildu gera nafni Jónasar sóma. Það hafa margir gert af miklum dugnaði og margt sem hefur komið fram er mjög minnisstætt,“ segir Halldór en honum er m.a. ofarlega í huga sýningin „Skyldi' þetta vera ég sjálfur!“ sem var haldin í Ketilhúsinu á Akureyri í september. Þar sýndu ungir listamenn verk sem öll voru innblásin af Jónasi.

Skjambi meður skollanef

Halldór telur að Íslendingum þyki vænna um Jónas en nokkurn annan þjóðþekktan Íslending. „Það verða allar þjóðir að eiga sér fortíð til þess að bera virðingu fyrir sjálfri sér. Við eigum fornsögurnar og við eigum Jónas. Forfeður okkar áttu Hallgrím Pétursson sem nýtur ekki sömu stöðu upp á síðkastið og áður fyrr. Jónas Hallgrímsson er kannski sá sem okkur þykir vænst um enda varð allt svo fallegt og innilegt sem hann kom að. Skáldskapur hans og sögur höfða jafnt til barna og fullorðinna.“

Halldór jánkar því þegar hann er spurður hvort hann sé mikill Jónasaraðdáandi. „Ég held mikið upp á Jónas og stundum festist ég í einhverjum hans ljóða. Ég er núna í augnablikinu með eitt kvæði í höfði mér,“ segir hagyrðingurinn Halldór og brestur í vísu eftir þjóðskáldið:

Skjambi meður skollanef,

skrítilegi frændi minn,

hefðirðu líka rófu af ref

Robbur keypti belginn þinn.

Þar sem háir hólar

Í kvöld stendur menntamálaráðuneytið í samvinnu við afmælisnefndina fyrir mikilli hátíðarsamkomu í Þjóðleikhúsinu undir yfirskriftinni Þar sem háir hólar. Í dagskrá hátíðarsamkomunnar verða flutt verk Jónasar í bundnu máli og lausu, tónlist tengd kvæðum hans flutt og minning hans heiðruð með ýmsum hætti.

Menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, flytur ávarp og afhendir verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Samkoman er öllum opin og ókeypis aðgangur á meðan húsrúm leyfir. Sýnt verður beint frá Þjóðleikhúsinu í Ríkissjónvarpinu.