Árni Bergur Eiríksson fæddist í Reykjavík 26. janúar 1945. Hann andaðist að heimili sínu í Reykjavík 5. nóvember síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Lucinda Sigríður Jóhannsdóttir Möller, f. 12. ágúst 1921, d. 22. nóvember 1965 og Eiríkur Sigurbergsson viðskiptafræðingur, f. 5. september 1903, d. 30. mars 1968. Systir Árna er Jóhanna Þorbjörg, f. 14. júní 1940, gift Richard Hull, búsett í Bandaríkjunum og eiga þau einn son, Clyde Eirík Hull.

Árni kvæntist 19. nóvember 1966 Sigríði Eygló Antonsdóttur, f. 1. janúar 1945. Foreldrar hennar voru Anton Bjarnason, málarameistari og Sigurrós Lárusdóttir, sem bæði eru látin. Árni og Eygló eignuðust tvær dætur, Lucindu Sigríði, f. 15. mars 1967 og Eyrúnu Rós, f. 11. júní 1975. Árni og Eygló skildu árið 1985. Sonur Árna er Eyþór Árni, f. 3. ágúst 1992. Móðir hans er Elín Ásta Birgisdóttir.

Árni ólst upp í Reykjavík og bjó þar allan sinn aldur. Hann lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands vorið 1965 og starfaði eftir það í mörg ár hjá embætti Tollstjórans í Reykjavík. Árni keypti og rak verksmiðjuna VILKÓ um árabil en seldi verksmiðjuna síðar til Blönduóss. Þá átti Árni og rak Fransk-íslenska verslunarfélagið, fyrst með föður sínum en eftir andlát hans rak hann félagið einn. Árni starfaði um langt árabil í Sjálfstæðisflokknum og var formaður Félags sjálfstæðismanna í Langholts-, Voga- og Heimahverfi um skeið. Síðustu 20 árin átti Árni við heilsuleysi að stríða.

Útför Árna verður gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Kær vinur okkar er fallinn frá eftir langvarandi veikindi 62 ára að aldri. Það þykir ekki hár aldur nú á dögum. En eigi má sköpum renna.

Þegar við þremenningarnir urðum skólabræður í Verslunarskólanum ákváðum við að læra saman undir próf og það gerðum við í fjögur ár þar til verslunarprófi var náð. Þessi samvera og samband tryggði ævarandi vináttubönd okkar í milli. Áður höfðu Stefán og Árni kynnst í Vogahverfi en Sveinbjörn og Árni höfðu verið sessunautar í sjö ára bekk í Laugarnesskóla og árið áður í svokallaðri tímakennslu.

Að loknu verslunarprófi hélt Árni út í lífið, starfaði með föður sínum að rekstri fjölskyldufyrirtækis þeirra og síðar hjá tollgæslunni og enn síðar rak hann verksmiðjuna VILKÓ.

Árni var sjálfstæðismaður fram í fingurgóma. Hann starfaði um árabil fyrir Sjálfstæðisflokkinn og var meðal annars formaður Félags sjálfstæðismanna í Langholti, Vogum og Heimum.

Árni missti foreldra sína ungur og setti það mark á hann framan af. Hann hafði þó alltaf sjálfstæði og kjark til að koma sér áfram í lífinu.

Hann kvæntist ungur Sigríði Eygló Antonsdóttur og eignuðust þau tvær dætur Lucindu Sigríði og Eyrúnu Rós. Leiðir Árna og Eyglóar skildu eftir um 20 ára hjónaband. Árni eignaðist síðar soninn Eyþór Árna. Börn hans voru honum mjög hjartfólgin.

Fyrir rúmum 20 árum kom fram heilsubrestur sem hann átti eftir að glíma við það sem eftir var ævinnar. Engu að síður gafst hann aldrei upp. Hann tók þátt í undirbúningi prófkjara Sjálfstæðisflokksins eins og heilsan leyfði. Hann átti sér drauma um að komast á ný til slíkrar heilsu að hann gæti starfað við fyrirtæki sitt, Fransk-íslenska verslunarfélagið. Hann kannaði margvíslega möguleika á útflutningi á matvörum til Frakklands en m.a. heilsan varnaði honum slíkt. Engu að síður var hann að huga að slíku þegar hann andaðist.

Í sumar ferðaðist hann til Bandaríkjanna ásamt börnum sínum til að sitja brúðkaup systursonar síns og var það í síðasta sinn sem systir hans, Jóhanna, og hennar fjölskylda hittu Árna. Þetta ferðalag var honum mikils virði.

Árni var okkur félögunum mikill og góður vinur. Féll þar ekki skuggi á öll árin. Við færum börnum hans og öðrum í fjölskyldu hans okkar dýpstu samúð og biðjum góðan guð að vernda þau.

Stefán Skarphéðinsson,

Sveinbjörn Óskarsson.

Fallinn er frá góðvinur minn til margra áratuga, Árni Bergur Eiríksson, hávaxið glæsimenni með meiri elegansa en guð almennt gefur. Þótt hann hin síðari ár hefði verið farinn heilsu og nokkuð bugaður af andstreymi lífsins var sálin jafnan leiftrandi og hugmyndirnar streymdu látlaust fram – hvort sem var á veraldlegum eða andlegum nótum – það þurfti bara að koma þessu öllu í framkvæmd. Árni var að eðli og upplagi heimsmaður, vel að sér og mjög skynugur á strauma og stefnur sinnar tíðar óháð því hvort í hlut áttu menn eða hugmyndir. En lánið lék einhvern veginn ekki við hann, samt var velgengnin nánast handan við hornið. Á honum sannaðist að sitthvað er gæfa og gjörvileiki. Þótt vinum hans væri ljóst að hátimbruð bisnessáformin næðu ekki fram að ganga var eiginlega sérkennilegt að enginn bankinn skyldi taka hann upp á arma sína. En bankamenn eru auðvitað ekki fullkomnari en aðrir menn. Stundum hringdi hann í mig mjög upprifinn af góðum hugmyndum, sem líklegar voru til fjárafla, og ég spurði, eins og jafnan við slíkar aðstæður: „Erum við á leiðinni í karabíska?“ Þeirri för er nú slegið á frest, ótímabundið. Oft undraðist ég eljusemina sem í honum bjó, þrátt fyrir alvarleg veikindi, sem sífellt gerðu honum lífið erfiðara eftir því sem á leið.

Einhverjar skemmtilegustu stundir okkar Árna hin síðari ár voru er hann heimsótti okkur Bergþóru og við borðuðum saman lambahrygg eða -læri að sígildri íslenskri fyrirmynd og fengum okkur smávegis rauðvín með. Þá var hann í essinu sínu, glaður og ánægður og lagði iðulega heiminn að fótum sér, með glans. Margra slíkra stunda minnist ég nú að leiðarlokum og sakna þess að ekki verða þær fleiri í bili. Dætra hans, Lúcindu og Eyrúnu, og sonar hans ungs, Eyþórs, bið ég góðan guð um að gæta.

Gústaf Níelsson.

Ég kveð þig kæri vinur og þakka þér samfylgdina. Við kynntumst sem ungir menn sem áttum þá hugsjón að berjast fyrir betra mannlífi og standa vörð um lýðræðið gegn þeirri böðulshönd sem þá ógnaði því. Við fylgdumst að í starfi fyrir unga sjálfstæðismenn í Heimdalli og Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Árni Bergur var ákveðinn baráttumaður og fylginn sér. Hann taldi aldrei eftir sér að vinna það sem þurfti að vinna og lagði fram mikið sjálfboðaliðastarf í þágu hugsjónarinnar fyndist honum þess þörf. Árni Bergur kom víða við í starfi Sjálfstæðisflokksins og átti mikinn heiður á sínum tíma fyrir að byggja upp starf í hverfafélagi sjálfstæðismanna í Vogahverfi.

Nokkru eftir að við Árni kynntumst varð honum tíðförult heim til mín og erindið var alltaf það sama. Hann krafðist þess að ég gæfi kost á mér í stjórn Neytendasamtakanna. Honum varð ekki þokað og svo fór að hann gat talið mig á að gera það en það var ekki fyrr en hann hafði sýnt mér fram á það með starfi að málefnum neytenda hvað hér var um mikilvægt mál að ræða sem krefðist krafta þeirra sem í alvöru berjast fyrir frjálsri samkeppni og mannúðlegri markaðshyggju. Við fylgdumst einnig að nokkurt skeið innan Neytendasamtakanna og enn sem fyrr var Árni ódrepandi hugsjónamaður sem bar fram fjölmargar tillögur og var ráðagóður forustumaður Neytendasamtakanna.

Það var gott að vinna með Árna. Hann var jafnan ráðagóður og heiðarlegur í félagsstarfi. Það leyndi sér ekki þegar honum mislíkaði en hann hafði jafnan þann hátt á að lenti hann í andstöðu við þann sem var í forustu hverju sinni þá kom hann sjónarmiðum sínum á framfæri beint við forustumanninn en stóð að öðru leyti með honum jafnvel þótt hann væri ekki sáttur við þá ákvörðun sem tekin var.

Á miðjum aldri í blóma lífsins hallaði undan fæti og þá reyndist Árni því miður sjálfum sér verstur. Alla tíð var hann ráðagóður og miðlaði öðrum ríkulega. Sjálfum sér vildi hann hins vegar ekki hjálpa eða þiggja ráð og aðstoð þeirra sem báru hag hans mest fyrir brjósti. Það var sorglegt að við vinir þínir sem gengum með þér þá vegferð sem ég þekki skyldum ekki geta orðið þér að meira liði en raun varð og þú skyldir svo oft hafna ráðum okkar og góðum óskum.

Ég kveð þig kæri vinur og þakka þér vegferðina. Megi góður Guð geyma þig.

Jón Magnússon,

alþingismaður.

Hinsta kveðja

Hinsta kveðja

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem)

Sverrir Jónsson.