Vill svör Guðfríður Lilja vildi svör frá ríkisstjórninni varðandi Þjórsá.
Vill svör Guðfríður Lilja vildi svör frá ríkisstjórninni varðandi Þjórsá.
Eftir Höllu Gunnarsdóttur halla@mbl.is FRÉTTIR af því að sveitarstjórn Flóahrepps hafi samþykkt að setja Urriðafossvirkjun á aðalskipulag eru nöturlegar og ríkisstjórnin öll ber ábyrgð á málinu.

Eftir Höllu Gunnarsdóttur

halla@mbl.is

FRÉTTIR af því að sveitarstjórn Flóahrepps hafi samþykkt að setja Urriðafossvirkjun á aðalskipulag eru nöturlegar og ríkisstjórnin öll ber ábyrgð á málinu. Þetta kom fram í máli Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, á Alþingi í gær. „Hreppsnefnd hafði áður hafnað virkjun en lætur nú undan linnulausum þrýstingi Landsvirkjunar þannig að hinir lýðræðislega kjörnu fulltrúar hafa bakkað með sitt nei og sína sannfæringu, þau þora ekki annað undan ægivaldinu sem við blasir,“ sagði Guðfríður Lilja og vildi svör við hvað ríkisstjórnin hygðist fyrir og þá allra helst Samfylkingin sem áður hefði heitið því að frelsa sveitarfélögin undan ágangi orkufyrirtækjanna.

Aðalspurningin í Reykjavík

Helgi Hjörvar, formaður umhverfisnefndar Alþingis, sagði margt jákvætt hafa gerst á síðustu mánuðum varðandi virkjanir og stóriðju og tók m.a. sem dæmi nýlega ákvörðun Landsvirkjunar að selja ekki orku til álvera á Suð- og Vesturlandi. „Sá mikli þrýstingur um stórfellda uppbyggingu álvera sem var fyrir ekki mjög löngu síðan hefur mjög minnkað og er full ástæða til að lýsa ánægju með það,“ sagði Helgi en bætti við að aðalspurningarnar í virkjana- og stóriðjumálum væru ekki í Flóanum heldur einmitt í Reykjavík.

Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokks, hnýtti líka í Samfylkinguna og sagði auðvelt að halda því fram í kosningabaráttu að stöðva ætti virkjanaáform í neðrihluta Þjórsár tafarlaust. Framkvæmdin hefði hins vegar farið í gegnum umhverfismat athugasemdalaust. „Það er mjög erfitt fyrir hreppsnefnd Flóahrepps að stöðva þetta mál á umhverfisverndarforsendum eingöngu,“ sagði Bjarni en mótmælti því jafnframt að sveitarstjórnin hefði tekið þessa ákvörðun af annarlegum ástæðum. „Hér er enginn til andsvara fyrir þá góðu hreppsnefnd,“ sagði Bjarni og Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði þetta vera nöturleg skilaboð sem kjörnum fulltrúum sveitarstjórnar eru send. „Að halda því fram að sveitarstjórnir hér um landið gefist upp fyrir fyrirtækjum, finnst mér ekki rétt,“ sagði Ólöf.

Með byssuna í annarri

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, sagði hins vegar að það væri ekki verið að tala niður til sveitarstjórna með því að rekja staðreyndir í málinu. „Landsvirkjun mætti á staðinn degi eftir að sveitarstjórn hafnaði virkjunaráformunum með seðlabúntið í annarri hendinni og byssuna í hinni,“ sagði Steingrímur og áréttaði að virkjanir með lónum væru ekki heimilar í Þjórsá. „Það er engin ástæða til að ráðast í þessar virkjanir, það er engin þjóðhagsleg nauðsyn sem knýr á um það.“

Í hnotskurn
» Sveitarstjórn Flóahrepps hefur samþykkt að setja Urriðafossvirkjun á aðalskipulag.
» Sveitarstjórnin hafði áður samþykkt að gera ekki ráð fyrir Urriðafossvirkjun.