Barist Stjörnumaðurinn Fannar Helgason í baráttu um boltann við Sigurð Þorsteinsson, leikmann Keflavíkur.
Barist Stjörnumaðurinn Fannar Helgason í baráttu um boltann við Sigurð Þorsteinsson, leikmann Keflavíkur. — Morgunblaðið/Golli
KEFLVÍKINGAR halda sínu striki í Iceland Express deild karla í körfu og lögðu Stjörnuna næsta auðveldlega í gær, 101:80 í Garðabænum. Á Sauðárkróki gerði Þór frá Akureyri sér lítið fyrir og vann heimamenn með einu stigi, 106:107.

Eftir Skúla Unnar Sveinsson og

Björn Björnsson

„Það er kostur að byrja vel, en einhvern veginn náðum við ekki að fylgja byrjuninni eftir, en gerðum samt nóg til að vinna og það er fyrir öllu,“ sagði Einar Einarsson, annar þjálfari Keflvíkinga eftir sigurinn á Stjörnunni í gær.

Keflvíkingar léku gríðarlega hratt í upphafi leiks og algjör óþarfi að setja skotklukkuna af stað þá, því þar var alltaf tveggja stafa tala þegar þeir skutu að körfu heimamanna. B.A. Walker fór fremstur í flokki og raðaði niður stigunum. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 18:32 fyrir Keflavík og hafði Walker gert 20 stig, einu stigi meira en allt Stjörnuliðið. „Það er okkar leikur að hlaupa og ef lið telja sig geta hlaupið með okkur er það gott og blessað, en það hefur sýnt sig að það eru ekki mörg lið sem geta gert það allan leikinn,“ sagði Einar og sagði að það stæði ekki annað til en halda áfram að vinna.

Dimitar Kardzovski byrjaði vel hjá Stjörnunni en þeir Jón Nordal og Gunnar Einarsson léku mjög góða vörn gegn honum þannig að minna fór fyrir honum er á leið. Gunnar var gríðarlega sprækur.

Þegar staðan var 33:50 í öðrum leikhluta hafði Walker gert helming stiga Keflvíkinga, 25 talsins og þar af voru fimm þriggja stiga körfur en Keflvíkingar gerðu 13 slíkar í gær. Garðbæingar reyndu að halda í við hraða Keflvíkinga en þar á bæ virðist vera ærið verkefni að koma hinum hávaxna Maurice Ingrem í nægilega góða æfingu, en í gær náði hann sjaldnast að leika bæði í sókn og vörn enda hraðinn hreinlega of mikill fyrir hann. En hann kann samt ýmislegt fyrir sér í íþróttinni.

Vörn Stjörnunnar, sem hefur verið góð í vetur, náði engan veginn að stöðva spræka Keflvíkinga, og í raun vandséð að mörg lið geri það ef þeir ná sér á strik í sókninni. Walker, Johnson, Gunnar og Magnús Gunnarsson geta allir skorað lengst utan af velli og síðan eru þeir Jón Nordal og Anthony Susjnara öflugir inni í teignum og halda mótherjanum við efnið.

Dimitar átti góðan leik fyrir Stjörnuna sem og Fannar Helgason sem gafst aldrei upp inni í teignum. Kjartan Kjartansson hitti vel úr þriggja stiga skotunum í öðrum leikhluta og gerði öll sín níu stig þá og Sigurjón Lárusson kom sterkur til leiks undir lok leiksins og skoraði grimmt. Annars áttu flestir Stjörnumenn ágæta kafla í leiknum en hurfu gjörsamlega þess á milli.

Háspenna í leik Tindastóls og Þórs

Hrafn Kristjánsson þjálfari Þórsara var að vonum ánægður með leik sinna manna sem skoruðu sigurstigið þegar 0,2 sekúndur lifðu af leiknum. „Þetta var sætur sigur enda höfum við ekki unnið hér í alvöru keppni síðan 2002 svo það var alveg kominn tími á þetta. Við vissum að þeir leika á fáum mönnum og ákváðum að keyra upp hraðann og spila á fullu allan tímann og vita hvort við næðum að brjóta þá niður. Það gekk ekki og þeir komu okkur eiginlega í opna skjöldu, við vorum lengst af undir en svo gekk þetta í lokin og þess vegna er sigurinn ennþá sætari. Óðinn átti gríðarlega góðan leik og ég hika ekki við að segja að hann sé einn af þremur bestu leikmönnum deildarinnar, og bestur á svona hröðu tempói,“ sagði Hrafn.

Leikurinn byrjaði með miklum hraða og náðu heimamenn fljótlega frumkvæðinu sem þeir héldu allt til miðs síðasta leikhluta, en þá náðu gestirnir að jafna og komast yfir.

Aldrei náðu Tindastólsmenn þó afgerandi forystu, munurinn var lengstum fjögur til átta stig.

Í fyrri hálfleik voru það þriggja stiga körfur Samirs sem sköpuðu forskotið, en hjá Þór voru það Óðinn og Cedric Isom sem voru yfirburðamenn. Í síðari hálfleik hélt baráttan áfram en nú komu þeir sterkir inn Ísak Einarsson og Svavar Birgisson í liði Tindastóls og einnig Donald Brown, en í liði gestanna voru það sem fyrr Óðinn og Isom sem börðust vel og gáfust aldrei upp. Einnig skoraði Magnús Helgason þrjár þriggja stiga körfur á hárréttum tíma.

Þegar fimmtíu sekúndur voru eftir var staðan 100:102 og tók þá Kristinn Friðriksson þjálfari Tindastóls leikhlé, en Þórsarar áttu tvö vítaskot. Þegar fjórtán sekúndur voru til leiksloka var staðan 103:105 og heimamenn skoruðu enn eina þriggja stiga körfuna og komust yfir 106:105, Þórsarar brunuðu í sóknina, en brotið var klaufalega á Isom og þegar klukkan var stöðvuð voru 0,2 sek til leiksloka. Isom fór ískaldur á vítalínuna og setti bæði vítin niður og tryggði Þór sigurinn, við gífurlegan fögnuð sinna manna og nokkurra fylgdarmanna liðsins.