„BÓKIN er ekki andsvar við Tíu litlum negrastrákum .

„BÓKIN er ekki andsvar við Tíu litlum negrastrákum . Frekar mætti kalla þetta jákvætt innlegg í umræðuna, við erum ekki að lýsa yfir neinum skoðunum á hinni bókinni,“ segir Sigrún Eldjárn um barnaljóðabókina Tíu litlir kenjakrakkar sem var að koma út. Sigrún teiknaði myndirnar í bókinni og bróðir hennar Þórarinn samdi vísurnar. Í bókinni segir frá tíu krökkum sem vegna kenja og hrekkja fækkar smám saman í einn. En á síðustu stundu tekst þeim að snúa við blaðinu og sameinast að nýju. „Bókin er byggð upp eins og negrastrákabókin og hægt að syngja vísurnar við sama lag og vísurnar í þeirri bók. Þessar eru reyndar, að mínu mati, mun betur ortar.

Þetta er bók sem allir ættu að hafa gaman af og enginn ætti að þurfa að æsa sig yfir, bara gleðjast. Krakkarnir eru pínulítið óþekk og koma sér í vandræði en svo lagast þetta allt saman í lokin og enginn deyr. Þetta er bók sem allir mega lesa.“

Aðeins eru tæplega þrjár vikur síðan Sigrún og Þórarinn fengu hugmyndina að þessum niðurtalningarvísum. „Þegar allt var logandi í umræðunni um negrastrákana datt mér í hug að gera jákvæða bók sem krakkar mættu örugglega fá í hendurnar. Þórarinn ruddi út úr sér vísunum, ég hamaðist við myndirnar og hún fór á hraðferð í gegnum prentsmiðjuna. Þetta er hægt!“ segir Sigrún en allt bendir til þess að hér hafi verið slegið hraðamet í bókaútgáfu sem erfitt verður að bæta.