Sigurviss Kevin Rudd er í góðum málum.
Sigurviss Kevin Rudd er í góðum málum.
Sydney. AFP. | Flest bendir til að valdatíð Johns Howards sé senn á enda runnin í Ástralíu en kosningar fara fram í landinu eftir rúma viku, laugardaginn 24. nóvember.

Sydney. AFP. | Flest bendir til að valdatíð Johns Howards sé senn á enda runnin í Ástralíu en kosningar fara fram í landinu eftir rúma viku, laugardaginn 24. nóvember. Skoðanakannanir sýna næstum allar að Verkamannaflokkurinn, undir forystu Kevins Rudds, muni sigra örugglega í kosningunum.

John Howard hefur verið forsætisráðherra Ástralíu í ellefu ár, þ.e. frá því að íhaldsmenn báru sigur úr býtum í þingkosningum í mars 1996. Howard segist að vísu bjartsýnn á að hann geti tryggt sér sitt fimmta kjörtímabil á valdastóli en nýleg könnun sýndi hins vegar að Verkamannaflokkurinn hefur 55% fylgi en bandalag Howards 45%. Og persónulegt fylgi Rudds er einnig mun meira en Howards, 48% kjósenda vilja Rudd sem forsætisráðherra en 40% að Howard verði áfram.

Rudd kynnti helstu kosningamál sín á miðvikudag og lofaði því þá að ríkisstjórn hans myndi iðka sjálfstæða utanríkisstefnu og að ástralskir hermenn yrðu kallaðir heim frá Írak, jafnframt því sem hann hét því að í hönd færi „menntamálabylting“. Rudd hét því einnig að grípa til aðgerða í loftslagsmálum. Loks sagði hann að Verkamannaflokkurinn myndi uppfylla sín kosningaloforð án þess að efna til þess „óábyrga eyðslufyllerís“ sem kosningaloforð Howards myndu hafa í för með sér.

Rudd sagði að ríkisstjórn Howards væri að þrotum komin eftir ellefu ár við völd. Hann byði Áströlum að kjósa til valda nýja stjórnmálaleiðtoga sem hefðu skýr áform um framtíðarverkefni. Howard væri hins vegar ekki að bjóða Áströlum neitt annað en þá fullvissu, að hann myndi sjálfur víkja sem forsætisráðherra á kjörtímabilinu fyrir Peter Costello fjármálaráðherra. Howard lagði hins vegar áherslu á það, er hann kynnti áherslur sínar í byrjun vikunnar, að öllu skipti að þeim sem færu með völdin væri treystandi til að ástunda ábyrga efnahagsstjórnun.

Í hnotskurn
» Ástralar ganga að kjörborðinu 24. nóvember.
» Kevin Rudd er fimmtugur og starfaði áður í utanríkisþjónustunni, m.a. í sendiráðum Ástralíu í Svíþjóð og Kína.
» John Howard er 68 ára gamall. Hann komst til valda 1996 og hélt síðan völdum í þrennum kosningum: 1998, 2001 og 2004.