Vel klæddur Minnisvarði við Nonnahús
Vel klæddur Minnisvarði við Nonnahús
Ég er nýbúin að koma stóru og ævagömlu útvarpi fyrir í eldhúsinu mínu, en þessi kostagripur af gerðinni Nordmende hékk áratugum saman uppi á vegg í eldhúsi ömmu minnar á Gunnlaugsstöðum á Völlum.

Ég er nýbúin að koma stóru og ævagömlu útvarpi fyrir í eldhúsinu mínu, en þessi kostagripur af gerðinni Nordmende hékk áratugum saman uppi á vegg í eldhúsi ömmu minnar á Gunnlaugsstöðum á Völlum. Það er eiginlega ekki hægt að hlusta á annað en gömlu gufuna í þessu tæki, ekki bara af virðingu fyrir smekk fyrri eiganda, heldur er útvarpið sjálft íhaldsamt og neitar yfirleitt að taka á móti útsendingum annarra stöðva. Það er líka notalegt að hlusta á Rás 1 á meðan maður vaskar upp og hitar te í skammdeginu og skúraveðrinu þessa dagana.

Á þriðjudaginn hlustaði ég á Ættland í norðri yfir uppvaskinu. Sá þáttur var tileinkaður rithöfundinum Jóni Sveinssyni, sem er betur þekktur sem Nonni. Þó að Jónas Hallgrímsson sé í sviðsljósinu í dag, á degi íslenskrar tungu, má nefna að það eru líka 150 ár síðan Nonni litli fæddist á Möðruvöllum í Hörgártungu.

Í þættinum var rætt við konu úr Zontaklúbbi Akureyrar, en meðlimir hans hafa haldið minningu Nonna á lofti, meðal annars með þrotlausu sjálfboðaliðastarfi við að gera upp hús hans á Akureyri og opna þar safn til heiðurs honum.

Hún lýsti því hversu iðinn Nonni var við að ferðast um Evrópu og lesa upp og kynna bækurnar sínar. Hann mun því hafa verið frumkvöðull í þeirri list sem nú er kölluð að plögga, en hann var svo laginn við það að hann á víða ennþá trygga aðdáendur.

Gunnhildur Finnsdóttir