Leitað Samkeppniseftirlitið gerði húsleit hjá Bónus og Kaupás í gær vegna ásakana um meint samráð.
Leitað Samkeppniseftirlitið gerði húsleit hjá Bónus og Kaupás í gær vegna ásakana um meint samráð.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Hjálmar Jónsson hjalmar@mbl.is SAMKEPPNISEFTIRLITIÐ gerði í gær húsleit hjá verslanakeðjunum Högum, þ.ám. Bónus og Kaupási, sem rekur m.a. Krónuna, og einnig hjá þremur innflytjendum og heildsölum á matvörumarkaði, Innesi, Íslensk-ameríska og O.

Eftir Hjálmar Jónsson

hjalmar@mbl.is

SAMKEPPNISEFTIRLITIÐ gerði í gær húsleit hjá verslanakeðjunum Högum, þ.ám. Bónus og Kaupási, sem rekur m.a. Krónuna, og einnig hjá þremur innflytjendum og heildsölum á matvörumarkaði, Innesi, Íslensk-ameríska og O. Johnson & Kaaber. Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir að til grundvallar aðgerðunum liggi upplýsingar sem borist hafi og aflað hafi verið hjá einstaklingum og fyrirtækjum í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um matvörumarkaðinn að undanförnu. Talsmenn Bónuss og Krónunnar fagna athuguninni og vonast til þess að niðurstöður liggi sem fyrst fyrir, þannig að þeir megi verða hreinsaðir af áburði um samráð.

Í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins segir að í fréttatilkynningu 1. nóvember sl. hafi það hvatt þá sem teldu sig búa yfir upplýsingum um brot á samkeppnislögum að koma þeim á framfæri við Samkeppniseftirlitið og hefðu allmargir brugðist við þeirri hvatningu. „Rannsókn sú sem nú er hafin beinist einkum að ætluðum brotum á 10. gr. samkeppnislaga, þ.e. hugsanlegu ólögmætu samráði smásöluaðila og birgja. Kemur rannsóknin til viðbótar við aðrar athuganir sem nú standa yfir og áður hafa verið kynntar opinberlega,“ segir einnig.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkveldi að einstaklingar og fyrirtæki hefðu síðustu dagana veitt Samkeppniseftirlitinu upplýsingar sem gerðu það að verkum að nauðsynlegt hefði verið að fara í þessa aðgerð. Rannsóknin beindist bæði að hugsanlegu samráði smásölu og birgja og hins vegar milli smásöluverslana.

Ekki forsendur fyrr en nú

Aðspurður af hverju ekki hefði verið ráðist í þessar aðgerðir fyrr í ljósi umfjöllunar um samráð á matvörumarkaði að undanförnu. sagði Páll Gunnar að forsendur hefðu ekki verið fyrir húsleitinni fyrr en nú. „Við höfðum ekki nægileg gögn og upplýsingar úr fjölmiðlaumfjölluninni einni saman, en einstaklingar og fyrirtæki urðu við hvatningu um að veita okkur upplýsingar sem urðu okkur að liði og gerðu það að verkum að það var nauðsynlegt að fara í þessa húsleit. Það þarf að undirbúa húsleit vel og hún þarf að vera studd ríkum forsendum,“ sagði Páll.

Í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins er athygli vakin á að það hafi þýðingu fyrir skjóta úrlausn málsins hvort fyrirtæki eða einstaklingar ákveði að liðsinna eftirlitinu við rannsókn þess. „Ef um brot er að ræða getur Samkeppniseftirlitið samkvæmt lögum fallið frá sektarákvörðun hafi fyrirtæki verið fyrst til að láta því í té upplýsingar eða gögn vegna ólögmæts samráðs sem geta leitt til sönnunar á broti. Einnig er heimilt að lækka sektir ef fyrirtæki liðsinna eftirlitinu með því að veita mikilvæg sönnunargögn. Þá getur Samkeppniseftirlitið ákveðið að kæra ekki til lögreglu hugsanleg brot einstaklinga sem upplýsa um þau og liðsinna við rannsókn.“

Páll Gunnar sagði að þeir myndu hraða rannsókninni eftir því sem kostur væri. „Það er ljóst að það tekur nokkurn tíma að greina þessi gögn sem hefur verið aflað. Það veltur svo á ýmsum atriðum hversu hratt svona rannsókn getur gengið,“ sagði hann.

Fagna rannsókn

Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, sagði að þeir fögnuðu því að þessar ásakanir um samaráð yrðu rannsakaðar ofan í kjölinn og málið til lykta leitt eins fljótt og mögulegt væri.

Guðmundur sagði að Bónus hefði alla tíð, frá stofnun verslunarinnar fyrir átján árum, verið með lægsta verðið á markaðnum. Það væri sú stefna sem fyrirtækinu hefði verið mörkuð í upphafi og á því yrði engin breyting. Viðskiptavinir Bónuss gætu treyst því. Það væri ástæðan fyrir velgengni verslunarinnar og það væri ekkert langt síðan að Bónus hefði verið lítill aðili á þessum markaði. „Hverjir gerðu Bónus að því sem það er í dag? Það eru auðvitað bara neytendur. Þeir hafa greitt okkur atkvæði með fótunum og við höfum fagnað því og lagt okkur alla fram við það að bjóða sem lægst verð,“ sagði Guðmundur.

Í fréttatilkynningu frá Bónus segir ennfremur að Bónus fagni því að Samkeppniseftirlitið hafi hafið rannsókn á þeim alvarlegu ásökunum um verðsamráð sem hafi komið fram. „Er það í samræmi við þá ósk sem Hagar hf., rekstraraðili Bónuss, setti fram í bréfi til Samkeppniseftirlitsins dagsett hinn 1. nóvember s.l.

Bónus fullvissar viðskiptavini sína um að þessi leit muni hrekja þær dylgjur um samráð sem hafa átt sér stað á liðnum vikum og hafa einkum átt rætur sínar að rekja til rakalauss fréttaflutnings ríkisfjölmiðlanna.“

Rannsóknin í samræmi við óskir

Eysteinn Helgason, forstjóri Kaupáss, sem m.a. rekur Krónuverslanirnar, sagði að þeir fögnuðu þessari athugun. Hún væri í samræmi við það sem þeir hefðu farið fram á gagnvart opinberum aðilum „að þeir rannsökuðu þær dylgjur og órökstuddu fullyrðingar sem settar hafa verið fram um samráð og við vonumst bara til þess að rannsókn ljúki sem fyrst þannig að hið sanna megi koma í ljós“. Eysteinn sagði að fyrirtækið hefði ekkert að óttast í rannsókninni og það væri fagnaðarefni að hún væri hafin.

Í fréttatilkynningu Kaupáss segir einnig að „starfsfólk Kaupáss og Krónunnar mun opna allar sínar bækur og verða Samkeppniseftirlitinu til aðstoðar á allan þann hátt sem óskað verður eftir og látin er í ljós von um að rannsókninni verði hraðað eins og frekast er unnt. Jafnframt er minnt á að á undanförnum misserum hefur Samkeppniseftirlitið verið með víðtæka rannsókn á matvælamarkaðnum í gangi. Vonast er til að þeirri rannsókn verði hraðað og niðurstöður birtar við fyrsta tækifæri.“