ÁTTATÍU og sjö af 192 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna hafa lagt fram tillögu fyrir allsherjarþing SÞ þess efnis að bann verði lagt við dauðarefsingum en síðar meir verði þær formlega aflagðar.

ÁTTATÍU og sjö af 192 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna hafa lagt fram tillögu fyrir allsherjarþing SÞ þess efnis að bann verði lagt við dauðarefsingum en síðar meir verði þær formlega aflagðar. Um er að ræða Evrópusambandsríkin og nokkur lönd annars vegar í Rómönsku Ameríku og í Afríku. Ríki sem beita dauðarefsingum eru hins vegar allt annað en ánægð með tillöguna og fastafulltrúi Singapúr hjá SÞ – en í Singapúr fylgir dauðadómur sjálfkrafa flestum fíkniefnaglæpum – sagði hana geta „eitrað andrúmsloftið“ milli aðildarríkjanna.

Tillagan liggur sem stendur fyrir mannréttindanefnd allsherjarþingsins. Tvívegis á síðasta áratug voru lagðar fyrir allsherjarþingið – ályktanir þess eru ekki bindandi en hafa „mórölsk áhrif“ – en runnu út í sandinn. Að þessu sinni gengur tillagan þó skemur því að þess er ekki krafist að dauðarefsingar verði formlega aflagðar þegar í stað. Tillagan gerir hins vegar ráð fyrir „banni við framkvæmd dauðarefsinga með það fyrir augum að afnema þær“. Kemur fram í greinargerð að dauðarefsingar grafi undan mannlegri reisn og að engin sannfærandi gögn sýni fram á að dauðarefsingar hafi fyrirbyggjandi áhrif. Þá sé ljóst að réttarfarsleg mistök séu óafturkræf.

Ríki ákveði sjálf refsingar

Andstæðingar tillögunnar koma úr ýmsum áttum og benda þeir á að dauðarefsingar séu til í refsirétti meira en 100 aðildarríkja SÞ og að sjálfsákvörðunarréttur þjóða kveði skýrt úr um að aðildarríkin sjálf ákveði hvernig refsingum þau beiti við alvarlegustu glæpum.

Fulltrúi Singapúr, Kevin Cheok, sagði ESB vera að reyna að þröngva gildismati sínu upp á aðrar þjóðir. „Við þekkjum þá tilhneigingu frá gamalli tíð,“ sagði hann og vísaði til nýlendutímans. „Sú var tíðin að sjónarmið okkar fengu enga áheyrn. Flest okkar hér börðumst árum saman til að losna undan því oki. Það er því kaldhæðni fólgin í því að nú sé okkur sagt enn á ný að aðeins eitt sjónarmið sé réttlætanlegt og að öll önnur séu röng.“