Titli ofaukið, lokið 2007 Verk eftir Megas sem sýnt var á Jónasarsýningu í Ketilhúsinu í haust.
Titli ofaukið, lokið 2007 Verk eftir Megas sem sýnt var á Jónasarsýningu í Ketilhúsinu í haust.
Eftir Eirík Guðmundsson eirikurg@ruv.is Þótt ljóð séu búin til úr orðum virðast sum ljóð vera handan orða. Söknuður eftir Jónas Hallgrímsson er eitt þeirra.

Eftir Eirík Guðmundsson

eirikurg@ruv.is

Þótt ljóð séu búin til úr orðum virðast sum ljóð vera handan orða. Söknuður eftir Jónas Hallgrímsson er eitt þeirra. Maður leggur ekki til atlögu við það með þekkingu að vopni, þetta er ekki ljóð sem þarf að rannsaka og komast að niðurstöðu um. Enginn getur komið og sagt: Þetta ljóð þarf að rannsaka miklu betur, jafnvel þótt það kunni að enduróma ljóð eftir Goethe og tvær konur komi til greina. Það er vegna þess að það talar til okkar innan úr hugarheimi rómantíkur sem slær öll síðari tíma vopn úr höndum okkar. Andspænis þessu ljóði hljótum við að leggja niður öll vopn. Þótt ljóðið sé rómantískt og bundið tíma rómantíkur virðist það engu að síður vera tímalaust vegna þess að það lýsir tilfinningu og harmi sem leiðir til dauða. Þannig orðar Jónas hlutskipti okkar á öllum tímum um leið og ljóðið setur tilfinningalífið í uppnám í hvert sinn sem það er lesið. Þetta er ljóð sem styttir líf okkar, það er í vissum skilningi banvænt. Í raun og veru les maður það ekki með augunum heldur tilfinningunum og sé það lesið of oft er hættan sú að það flýti fyrir ótímabærum dauða þess sem les. Þess vegna lætur maður það dvelja óljóst í huga sér fremur en að maður lesi það aftur og aftur eða leggi á minnið frá orði til orðs til að hafa á hraðbergi þegar réttu aðstæðurnar koma upp. Íslensk ástarljóð eftir tíma rómantíkur – þau sem á annað borð standa undir nafni - eru endurómur af þessu kvæði, þau lýsa í vissum skilningi söknuði eftir þessu ljóði. Og vegna þess að tímarnir hafa liðið eins og þeir hafa liðið, þá horfum við sorgaraugum til þessa ljóðs, söknum þess, öllum stundum.

Söknuður (brot)

Man ég þig, mey!

er hin mæra sól

hátt í heiði blikar;

Man ég þig, er máni

að mararskauti

sígur silfurblár.

Heyri' ég himinblæ

heiti þitt

anda ástarrómi;

fjallbuna þylur

hið fagra nafn

glöð í grænum rinda.

Lít ég það margt

er þér líkjast vill

guðs í góðum heimi:

brosi dagroða,

blástjörnur augum,

liljur ljósri hendi.

Íslands minni

Eftir Jón Kalman Stefánsson

kalman@bjartur.is

Þið þekkið fold með blíðri brá

og bláum tindi fjalla,

og svanahljómi, silungsá,

og sælu blómi valla,

og bröttum fossi, björtum sjá

og breiðum jökulskalla –

drjúpi' hana blessun drottins á

um daga heimsins alla.

Góð ljóð vaxa frá höfundi sínum, þetta á auðvitað við um allan skáldskap, og öðlast sjálfstætt líf um leið og einhver annar en skáldið sjálft les þau, verða algjörlega óháð skapara sínum, bein hans og hold visna smám saman í tímanum en ljóðið bara dafnar, styrkist með aldrinum. Tíminn er besti vinur ljóðsins en hann eyðir manneskjunni af hirðuleysi. Íslands minni er einfalt ljóð, það felur ekki merkingu sína, það er tært vatn og maður sér umsvifalaust til botns, ef Mozart hefði verið skáld, þá hefði hann ort svona kvæði. Einfalt en hægt að lesa það endalaust, það seytlar kliðmjúkt innra með manni, næstum sárt í einlægni sinni. En góður skáldskapur getur hæglega öðlast nýja merkingu á nýjum tímum. Íslands minni er kannski einfalt og auðskilið, en það er jafnframt svo merkingaþrungið að tímarnir gefa því sífellt nýjar víddir, og oft óvæntar; fegurð þess og söknuður getur orðið að djúpri, sárri ádeilu. Þannig hefur Íslands minni leitað á mig síðustu misserin, leitað mig uppi hvar sem ég er staddur, og stundum í fylgd með angurværu en hárbeittu smáljóði Guðmundar Böðvarssonar sem heitir Völuvísa, þið hljótið að kannast við það:

Eitt verð ég að segja þér áður en ég dey,

enda skalt þú börnum þínum kenna fræði mín,

sögðu mér það álfarnir í Suðurey,

sögðu mér það dvergarnir í Norðurey,

sögðu mér það gullinmura og gleymmérei

og gleymdu því ei:

að hefnist þeim er svíkur sína huldumey,

honum verður erfiður dauðinn.

Ættjarðarástin, sem getur bæði verið falleg og hættuleg, er einlæg og angurvær í báðum ljóðunum, og líka ógnandi hjá Guðmundi næstum sigrihrósandi. Þessi tvö kvæði vakna innra með mér þegar fólk fer illa með umhverfið sitt, tætir upp viðkvæman fjalla- og öræfagróður á jeppum eða mótórhjóli, og þau sungu í blóði mínu þegar stórvirkjunarofsinn stóð sem hæst og ríkjandi öfl, stjórnvöld og Landsvirkjun, létu náttúruna aldrei njóta vafans, þegar rödd peninga og gróða þrumaði yfir landinu, frá bláum tindi fjalla og niður í silungsá. Og þau leituðu mig aftur uppi síðastliðið sumar, ásamt þriðja ljóðinu, þegar hagsmunaöflum virtust ætla að takast að keyra olíuhreinsunarstöð í gegn á Vestfjörðum, slengja mengandi skrímsli niður í Arnarfjörðinn, eyðileggja hann gersamlega, og aftur átti rödd og rök peningana að þagga snarlega niður í okkur; þeir sem voru á móti verksmiðjunni voru á móti Vestfjörðum og íbúum þeirra. Það var ekkert rúm fyrir svanahljóm og því síður bláu lofti, björtum sjá. Svanahljómur og silungsá eru ómarktæk tilfinningarök. Tilfinningarök virðast skammaryrði á okkar tímum..

En þarna sjáið þið bara lífið í Jónasi, það eru ljóðin hans sem koma til okkar þegar silungsánni og bláu lofti er ógnað, og ljóð annarra skálda fylgja á eftir. Ljóð sem spyrja; eigum við skilið, í ljósi alls þess sem við höfum gert, tært og kalt árvatnið á heiðalöndunum grónu? Jónas orti sitt Ísland minni í Kaupmannahöfn, og það kom upp í huga minn þegar ég las kvæðið Áttum við skilið í reynd í nýjustu bók Hannesar Péturssonar Fyrir kvölddyrum. Er hér komið, hugsaði ég, Íslands minni okkar tíma, ekki mettað sakleysi og óspilltum söknuði nítjándu aldarinnar, heldur sakbitið og talar fyrir okkur sem lifum í upphafi tuttugustu og fyrstu aldarinnar, höfum sýnt umhverfinu hirðuleysi – og kannski svikið okkar huldumey?

Áttum við skilið í reynd

árvatnið kalt, tært sem rann

um hendur okkar á heiðalöndunum grónu?

Vorum við sjálfir

samboðnir því?

Öðru nær.

Og upp frá þeim stundum kliðar

einmanaleg, innan hörundsins

íshrein birta, næstum því með grátstaf.

Dirrindí

Eftir Gerði Kristnýju

gkristny@simnet.is

Heiðlóarkvæði“ er eitt af þekktustu ljóðum Jónasar Hallgrímssonar. Ástæðan er einföld, þetta er vel samið ljóð sem hverfist utan um einfalda atburðarás. Það fjallar um eitt af því sem Jónasi var hvað hugleiknast, náttúruna og átökin þar, en sama yrkisefni leitar til dæmis á hann í öðru þekktu ljóði, „Óhræsinu“. Ekki má síðan gleyma því að til er fallegt íslenskt þjóðlag við „Heiðlóarkvæði“ sem aukið hefur vinsældir þess.

Í fyrra erindinu af tveimur heldur lóan af stað að sækja mat fyrir ungana sína. Í fyrstu talar hún bara fuglamál – lætur eitt ,,dirrindí“ falla – en síðan tekur ljóðmælandi til við að ímynda sér hvað þessum litla fugli lægi nú á hjarta hefði hann mál. Og þó, kannski er þetta engin ímyndun. Ljóðmælandi gæti hafa farið eftir því sem þeim, sem vilja skilja fuglamál, er ráðlagt í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Þeim er bent á að verða sér úti um smyrilstungu, sem fæst örugglega í hvaða kjötborði sem er, og láta hana liggja í hunangi tvo daga og þrjár nætur. Síðan er hún lögð undir tungurætur og þá er ekki að sökum að spyrja, fuglamál lýkst upp fyrir fólki.

Ljóðmælandi gerir því skóna að lóan sé alin upp í guðsótta og góðum siðum því í einræðunni sem lögð er í gogg hennar lofar hún Drottin og fegurð sköpunarverksins áður en hún tekur til við að tíunda dagleg störf sín. Minnir hún þar á stolta húsmóður í viðtali við eitthvert vikuritið þegar hún segir frá því að hún eigi afkvæmi sem hún þurfi að gefa að borða. Tilfinningar hennar í garð afkvæmanna eru afar mannlegar því henni finnst þeim best lýst með orðinu ,,móðurtryggð“ og ungana kallar hún ,,börn“.

Í seinna erindinu talar ljóðmælandi frá eigin brjósti og beinir nú lóunni heim í hreiðrið með svolitlum útúrdúr þar sem tekið er fram að sól hafi skinið og blóm gróið. Þegar svo björt mynd hefur verið dregin upp verður myrkrið í þeim næstu, sjálfum lokalínunum, þéttara en ella. Þar er skýrt frá því að hrafn hafi étið ungana.

Bæði í upphafi og enda ljóðsins er tiltekinn tími því það hefst á orðinu ,,snemma“ en þá heldur lóan af stað að verða sér út um vistir en í lokalínunum er tekið fram að hrafninn hafi étið ungana ,,fyrir hálfri stundu“. Í fyrstu virðist frekar smámunasamt af ljóðmælanda að taka fram að hálftími sé liðinn frá atburðinum. Manni dettur helst í hug réttarmeinafræðingur úr bandarískum sjónvarpsþætti sem horfir íbygginn á hálfmelta ungana og kveður upp þann úrskurð að af áverkunum að dæma hljóti morðið að hafa verið framið fyrir ,,tja ... svona hálftíma varla meira“. Þegar nánar er að gáð auka lokaorðin á hryllinginn. Þau sýna að á meðan lóan baksaði við að afla ungunum sínum matar voru þeir sjálfir orðnir að hrafnsfæðu.

Það er ekki oft sem dýr fá mál í íslenskum bókmenntum en þó hefur það hent. Hrafnar tala til dæmis í þjóðsögunum og þar spjalla kýr líka saman á þrettándanótt. Í ljóðinu „Snati og Óli“ eftir Þorstein Erlingsson fær hundurinn síðan mál. Hann lofar drengnum að leika sér að hálsólinni en spyr jafnframt hvenær hann fái kökuna sem honum var lofað á móti. Enginn hirðir þó um að svara hvutta. Hestar virðast því miður vera þagmælskir sem er synd því þeir eru örugglega víðförlastir íslenskra húsdýra og gætu því eflaust haft frá einhverju krassandi að segja.

Jónas kýs að gefa heiðlóunni, smávöxnum vaðfugli, mál í „Heiðlóarkvæði“ og hefur það vafalítið haft áhrif á það hvaða augum þjóðin lítur þennan fugl. Okkur finnst að minnsta kosti enn merkilegt þegar til hans sést fyrst á vorin, árlegt undur sem endar jafnan á forsíðum blaðanna. Alltaf hefur okkur líka hryllt við því að Bretar skuli skjóta lóuna og leggja sér hana til munns. Ekki tókst Jónasi að gera það sama fyrir rjúpuna með ljóðinu „Óhræsinu“ sem minnst var á hér í upphafi. Okkur þykir að minnsta kosti alveg sjálfsagt hún sé skotin og snædd. Munurinn á viðhorfi Íslendinga til þessara tveggja fugla liggur í því að Jónas gaf lóunni mál á meðan rjúpan er þögult fórnarlamb. Það er, jú, erfiðara að myrða dýr sem getur beðið sér vægðar en þau sem aldrei ybba gogg.

Heiðlóarkvæði

Snemma lóan litla í

lofti bláu,,dirrindí

undir sólu syngur:

,,Lofið gæsku gjafarans,

grænar eru sveitir lands,

fagur himinhringur.

Eg á bú í berjamó.

Börnin smá í kyrrð og ró

heima í hreiðri bíða.

Mata ég þau af móðurtryggð,

maðkinn tíni þrátt um byggð

eða flugu fríða.

Lóan heim úr lofti flaug

( ljómaði sól um himinbaug,

blómi grær á grundu)

til að annast unga smá.

Alla étið hafði þá

hrafn fyrir hálfri stundu.

Undirbúningsljóð um dauðann

Eftir Steinunni Sigurðardóttur

steinunn@mac.com

Varla hafa nokkur áþreifanleg merki boðað það, þegar Jónas Hallgrímsson orti Alsnjóa í Sorö, líklega í upphafi árs 1844, að hann ætti aðeins tæpt hálft annað ár ólifað, þrjátíu og sex ára maðurinn. Ljóðið er þó greinilega ort af þeim sem finnur að hann á ekki langt eftir. Hreinn og hvítur snjórinn eins langt og augað eygir, sama sem dauðinn – staðreyndin, atburðurinn, ástandið sem skáldið býr sig undir sem einstaklingur – um leið og hann samsamar sig öllu sem er, og kennir meira í brjósti um „aumingja jörð með þungan kross“ en sjálfan sig.

Ljóðið með heitinu undurfallega og viðeigandi – Alsnjóa – hefur vafist fyrir mönnum frá upphafi. Það eitt víst að ljóðið er um dauðann og það að deyja. Fjölnisritstjórum þótti það svo skrýtið, þótt það væri „mikið skáldlegt“ að þeir birtu það ekki þegar Jónas sendi þeim, ásamt fleiri ljóðum.

Ein af ástæðunum fyrir því að Alsnjóa virkar ruglandi á höfuð lesandans um leið og það ratar beint að hjartanu, er sú að það er blanda af myndljóði um árstíð dauðans og heimspekilegu æðruleysis- og hvatningarljóði. Þetta kristallast í fyrsta versi, þar sem snjórinn er eilífur og allsráðandi eins og dauðinn, í fyrstu þremur línum að segja – en fjórða línan hin óvænta hvatningargusa um að standa keikur gagnvart dauðanum: Einstaklingur, vertu nú hraustur!

Eitt af því sem ljær Alsnjóa óræða töfra er orðið hjartavörður. Mér vitanlega hefur ekki fengist óyggjandi niðurstaða um hvaða persónu Jónas átti við, þótt veiðivörður mundi að sönnu passa vel inn í landslag ljóðsins. Það skiptir heldur ekki máli hver þetta er á blæjunni breiðu, hvort það er jafnvel sálin sjálf, myndgerð, heldur það að orðið heillar og að það á algjörlega við. Svo vill til að í öðru eilífðarljóði (en orðið eilífð kemur fyrir í upphafi beggja ljóðanna), sem er ort um það bil ári á eftir Alsnjóa, kemur fyrir þessi samsetning: ... „hugur mín sjálfs í hjarta þoli vörðu“ (Á nýársdag 1845). Hjarta-vörður allt að því afturgenginn í þessum orðum, sem eru óljós eins og hjartavörðurinn sjálfur. En hljóta þó að tengjast hreinleika hugans og hjartans. Enda fjalla bæði ljóðin, hvort á sinn hátt, um það efni. Hvað getur verið hreinna en hvítur snjórinn sem allt hylur? Og hreinleikinn mun ríkja einn þegar dauðinn tekur við, samkvæmt orðanna hljóðan: Dauðinn er hreinn og hvítur snjór.

Við lestur Alsnjóa hvarflar hugurinn að dauðdaga skáldsins, en frásagnir af aðdraganda hans hafa varðveist. Erfitt er að hugsa sér hvernig hægt væri að bregðast við dauðanum af meira æðruleysi og karlmennsku en Jónas Hallgrímsson gerði. Eftir að hafa fótbrotnað í stiganum heima hjá sér að kvöldi kom hann sér í rúmið og beið til morguns með að ónáða fólk, því hann taldi sig vita, eftir því sem hann sagði, að hann gæti ekki lifað.

Þegar gert var að opnu beinbrotinu á spítalanum brá Jónas sér hvergi, heldur las í bók. Hann var hress í tali dagana fyrir dauðann – fékk að hafa ljós síðustu nóttina og las skemmtisögu. Sú stilling hugans og rósemd sem ríkir í Alsnjóa fylgir skáldinu alla leið. Einstaklingnum hrausta, sem er undirbúinn undir það sem erfiðast er, samkvæmt gamalli íslenskri sögu, „en það er að deyja“.

Alsnjóa

Eilífur snjór í augu mín

út og suður og vestur skín,

samur og samur inn og austur,

einstaklingur! vertu nú hraustur.

Dauðinn er hreinn og hvítur er snjór,

hjartavörðurinn gengur rór

og stendur sig á blæju breiðri,

býr þar nú undir jörð í heiðri.

Víst er þér, móðir! annt um oss;

aumingja jörð með þungan kross

ber sig það allt í ljósi lita,

lífið og dauðann, kulda' og hita.

Óhræsið

Eftir Ingunni Kristjönu Snædal

iks1@hi.is

Hjá ömmu og afa á neðri hæðinni lærðum við systkinin marga nauðsynlega hluti. Til dæmis að spila kasínu. Borða kakósúpu með krömdum tvíbökum útí. Og svo lærðum við ljóð. Í þessari barnæsku gátu glóhærð systkini orðið skelfingu lostin af óhugnaði í ljóðum. Þegar amma fór með Ókindina svaf ég illa í viku á eftir. ,,Það var barn í dalnum sem datt ofanum gat...“ Ég var barn í dalnum, hvar var þetta gat? Drulluskurðir voru í framhaldinu litnir óvenjumiklu hornauga, horft gaumgæfilega niður við hvert fótmál út grænkandi túnin, allur var varinn góður.

Hitt ó æsku minnar var Óhræsi Jónasar Hallgrímssonar. Vetrarkvæðið um táloðna rjúpu sem fleygist ógnarhratt úr fjalli á flótta undan ránfugli, en veðjar á rangan hest. Í fyrstu tveimur erindunum er stillt upp samhliða þöglu sviði kulda og vetrarauðnar, af rjúpu og kind að krafsa í snjóinn í leit að næringu og hinu víðara sjónarhorni sem sýnir leitandi varginn hátt í lofti sem sveipar augunum yfir bjargarlaust dýrið á jörðu niðri. Þetta eru einar þær sterkustu myndir sem ég veit í íslenskum kveðskap. Kvæðið rennur síðan áfram eins og rússíbanareið, uppbyggingin hröð og myndræn, hver vísa er sena sem lesandinn sér fyrir sér í smáatriðum, æsispennandi eltingarleikur, óvænt flétta í endann, kjaftshögg.

Jónas kann þá list flestum betur að segja nákvæmlega nóg og láta lesandanum eftir að fylla í eyðurnar. Engu orði er ofaukið. Önnur skáld hafa notað langar málsgreinar og heilu kaflana um einsemd þess sem á sér hvergi skjól að vetrarlagi, og Jónas lýsti með þremur orðum: ,,yli húsa fjær“. Rjúpur eiga sér að öllu jöfnu ekki skjól í húsum og því er þessum orðum beint til lesandans, minna hann á hina hörðu veröld dýranna að vetrarlagi og hversu fjarlæg hún er þeim sem situr í hlýrri stofu með bók. Orðin eru hárrétt á réttum stað og vekja nákvæmlega réttu tilfinninguna hjá þeim sem les.

Minningarnar renna allar saman. Á yrjóttum gólfdúki í brúnu og grænu eldhúsi, gráhærð stuttklippt kona í sírósóttum kjól að svíða flatbrauð og fara með vísur um ,,gæðakonuna góðu“, horaða svikakvendið sem snýr rjúpuna úr hálsliðnum. Barnið var miður sín. Hvílík norn! hvers lags ógeðsleg kerling gerir svona lagað?! Alveg gleymdar rjúpurnar sem við sjálf gæddum okkur á hver jól, hugsaði ekki út í að kannski ætti þessi fátæka kona svöng börn, hið eina sem komst að var spennan, vonlaus flóttinn, óhugnaðurinn, óréttlætið. Slíkir eru töfrar ljóða Jónasar. Yfir þeim geta börn grátið.

Rjúpunni reynist afdrifaríkt að fljúga á ,,manna bezta miskunn“, manneskjan hugsar um sjálfa sig og á enga miskunn til. Læsir beinaberum fingrum utan um mjúkan og snjóhvítan hálsinn og kreistir lífið úr litlu verunni sem kastaði sér í fang hennar í leit að hjálp.

Amma fór aldrei svo með Óhræsið að hún hnussaði ekki þegar kom að síðasta versinu og orðunum ,,Gæðakonan góða“. Barnið var aldrei alveg visst um hvor væri óhræsið, valurinn sem hremma vildi rjúpuna eða konan sem fékk hana svo óvænt upp í hendurnar. Núna er ég hinsvegar alveg viss.

Óhræsið (brot)

Ein er upp til fjalla,

yli húsa fjær,

út um hamrahjalla,

hvít með loðnar tær.

Brýst í bjargarleysi,

ber því hyggju gljúpa,

á sér ekkert hreysi

útibarin rjúpa.

Valur er á veiðum,

vargur í fugla hjörð,

veifar vængjum breiðum,

vofir yfir jörð.

Otar augum skjótum

yfir hlíð og lítur

kind sem köldum fótum

krafsar snjó og bítur.

Rjúpa ræður að lyngi

raun er létt um sinn ?

skýst í skafrenningi

skjót í krafsturinn,

tínir, mjöllu mærri,

mola sem af borði

hrjóta kind hjá kærri,

kvakar þakkarorði.

Jónas og Jesús

Eftir Pétur Gunnarsson

peturgun@centrum.is

Með jafn eðlilegum hætti og Hallgrímur Pétursson ávarpar Jesú, á Jónas Hallgrímsson Guð að málvini. Og kannski birtist aldarfarsmunurinn gleggst í því að á meðan Hallgrímur baðar sig í blóði Krists, sólar Jónas sig í ljósi alheimsaugans. Hallgrímur lifir sig inn í píslargöngu Krists, en Jónas samsamar sig sköpunarverkinu.

Sjálfsagt má rekja sálfræðilegar forsendur fyrir þessu „kompaníi Jónasar við allífið“. Faðir hans, séra Hallgrímur Þorsteinsson, var jú staðgengill Guðs í mannheimum og föðurmissirinn í bernsku hefur eðlilega beint sjónum drengsins til upphæða þar sem endurfundir föður og sonar hafa orðið í miklu sólskini.

Ekki er laust við að lokalínur ljóðsins minni á senuna frægu á Olíufjallinu þegar Jesús ákallar föður sinn og biður sér griða: þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt (Matt 26:39). Samsömunin er fullkomin, Jónas er sonur Guðs.

Á sumardagsmorguninn fyrsta 1842

Þökk sé þér, guð, fyrir þennan blund,

er þá eg um síðstu vetrarstund;

hann hressti mig, og huga minn

huggaði fyrir máttinn þinn.

Nú hefir sumarsólin skær

sofnaðan þínum fótum nær

vakið mig, svo að vakni þín

vegsemdin upp á tungu mín.

Höfundur, faðir alls, sem er

um alheimsgeiminn, hvar sem fer,

þú, sem að skapar ljós og líf,

landinu vertu sverð og hlíf;

myrkur og villu og lygalið

láttu nú ekki standa við,

sumarsins góða svo að vér

sannlega njótum rétt sem ber.

Vorblómin, sem þú vekur öll,

vonfögur, nú um dali og fjöll,

og hafblá alda og himinskin

hafa mig lengi átt að vin.

Leyfðu nú, drottinn, enn að una

eitt sumar mér við náttúruna;

kallirðu þá, eg glaður get

gengið til þín hið dimma fet.