Tryggvi M. Baldvinsson: Stúlkan í turninum (frumfl.). J. Haydn: Píanókonsert í D Hob.XVIII:11. Schumann: Sinfónía nr. 4 í d Op. 120. Edda Erlendsdóttir píanó og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Stjórnandi: Kurt Kopecky. Fimmtudaginn 15. nóvember kl. 19:30.

BÓKMENNTAARFUR Íslendinga myndi án efa þykja tónskáldum nágrannaþjóða öfundsverður, með öllum sínum auðuga kveðskap á ómenguðu móðurmáli allt frá víkingaöld – og megnið af honum enn ótónsett! En gæti hins vegar verið að hann skorti bitastætt efni við hæfi barna og unglinga? Alltjent kvað sagnadansagreinin fátækleg hér miðað við önnur Norðurlönd, og þjóðsögur og ævintýr sömuleiðis, a.m.k. hjá fjársjóði á við sagnabálk H.C. Andersens sem fleiri en dönsk tónskáld ausa enn úr af kappi.

Þetta kom ósjálfrátt upp í hugann þegar maður las orð Tryggva M. Baldvinssonar í tónleikaskrá um að hann hefði leitað fanga í þegar tvisvar tónsettri sögu Jónasar Hallgrímssonar um „Stúlkuna í turninum“ – jafnvel þótt tilefni stórafmælis listaskáldsins góða hafi sett Tryggva þrengri skorður í textavali en ella.

Hvað sem því líður þá er ekki annað hægt að segja en að tónskáldinu hafi tekizt vel upp með verki sínu ætluðu SÍ til flutnings í skólum. Inntakið var í samræmi við það, enda markmiðið augljóslega hvorki að vera frumlegur né framsækinn.

Aðalstefið kinkaði m.a.s. ofurlitlum kolli til Péturs og úlfsins Prokofjevs og tónmálið spannaði brezk-þýzk-rússneska rómantík og nýklassík. Mismikið kryddað hljómferlið náði reyndar allt fram í ævintýramyndir Hollywood, með Hringadróttinssögu og Harry Potter í fersku minni, án þess þó að bæri neins staðar á beinni lántöku. Þótt varla sæti neitt stefjanna beinlínis eftir í mér við fyrstu heyrn, og lengdin (29 mín.) virtist fullvel útilátin, þá var litrík hljómsveitarmeðferð Tryggva afar kunnáttusamleg og útkoman oftast bráðhress, þökk sé ekki sízt eitilsnörpum lúðrablæstri. Tónskáldið fór sjálft með hlutverk sögumanns og tókst allvel upp, utan hvað uppmögnunin reyndist of veik á sterkari brass-stöðum.

Einleikari kvöldsins, Edda Erlendsdóttir, hefur í mörg ár gert garðinn frægan jafnt í dvalarlandi sínu Frakklandi sem víðar. Viðfangsefnið var sá vinsælasti af annars tiltölulega lítt kunnum píanókonsertum Haydns í D-dúr (1784). Af einhverjum ástæðum virtist henni stundum fatast flugið í I. þætti. En í svífandi fallega hæga miðþættinum, er stóð samsvarandi tónsmíðum Mozarts í engu að baki, komst uppsöfnuð músíkölsk reynslan á fegursta skrið, og þótt vottað gæti fyrir úthaldsleysi í „ungverska“ lokaþættinum þá small hann í heild vel fyrir horn.

Kurt Kopecky sýndi þetta kvöld að stjórnendahæfileikar hans ná út fyrir sérsvið óperunnar. M.a.s. í 4. og síðustu hljómkviðu Schumanns (1841/51), er vafðist að formgerð jafnt fyrir höfundi sem samtíðarhlustendum. Ekkert er auðveldara en að gera hjakkandi óskapnað úr þessu verki, en þó að Kopecky hefði stundum mátt teygja ögn markvissara úr rúbatóum á kaflaskilum hélt sveitin yfirleitt vel samstilltum dampi undir skýrri stjórn hans.

Tónleikaskráin bryddaði upp á þeirri athyglisverðu nýjung að rifja upp fyrri flutning dagskrárliða með SÍ neðanmáls, auk þess að geta tilurðarára verka í efnisskrá. Verður vonandi framhald á því.

Ríkarður Ö. Pálsson