— Morgunblaðið/Sverrir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Öldu Björk Valdimarsdóttur alda@hi.is Í grein sinni „Er hægt að skrifa ævisögur þjóðskálda?

Eftir Öldu Björk Valdimarsdóttur

alda@hi.is

Í grein sinni „Er hægt að skrifa ævisögur þjóðskálda?“ varpar Páll Valsson fram þeirri spurningu hvort mesti vandi hvers ævisagnaritara sé hneigðin til að ofmeta söguhetjur sínar: „Þegar menn taka sér fyrir hendur að skrifa um skáld, þá gera þeir það yfirleitt vegna þess að þeim finnst skáldið gott, þeir finna einhvern samhljóm með verkum þess eða lífskoðun. Líf og starf tiltekins skálds hlýtur að tala sterkt til þess sem skrifar ævisögu viðkomandi; fáir leggja út í margra ára vinnu við að skrifa ævisögu persónu sem þeim líkar illa við, nema þá í mjög einbeittu afhjúpunarskyni og þá er ekki síður ástæða til tortryggni.“ 1 Ævisagnaskrif eru samkvæmt þessu í einhverjum skilningi sjálfstjáning, eða sýna að minnsta kosti djúpstæða þörf á að miðla einhverju mikilsverðu sem líf skáldsins er talið standa fyrir.

Er þá svo mikill munur á því að skrifa ævisögu þjóðskálds og að yrkja um það ljóð, þó svo að tíminn sem fer í ritun stórra ævisagna sé ólíkt meiri? Skáldin sem gera sér líf Jónasar að yrkisefni eru um leið að hefja upp lífsstarf skáldsins, stöðu ljóðlistarinnar í landinu og birta á sama tíma þær myndir af honum sem flestir kannast við, þar sem fyrirferðarmestar eru tengsl skáldsins við náttúruna, tungumálið og þjóðina, og gæfulaust lífshlaup skáldsins á Íslandi og í Kaupmannahöfn.

Náttúran og skáldið

Í frægri ritgerð um Jónas sem birtist í Alþýðubókinni 1929 ræðir Halldór Laxness um náttúruskoðarann Jónas Hallgrímsson sem „talar um fyrirbrigði náttúrunnar af sömu ástúð og blíðu og unnusta strýkur fíngurgómum sínum um andlitsdrætti elskhugans.“ 2 Halldór segir vötn Jónasar fiskisæl og ár hans silungsár. Fjöll Jónasar horfa ofan á heyjavöllinn og fénaðurinn „dreifir sér um græna haga“. Hin innilega náttúrusýn Jónasar verður mörgu skáldinu að yrkisefni, t.d. Davíð Stefánssyni sem hefur ljóð sitt um Jónas Hallgrímsson með orðunum: „Í blárri móðu, fagurt eins og fyr,/rís fjallalandið mitt úr draumasænum,/og vorið gefur vinum sínum byr,/og vængir fljúga létt í sunnanblænum./Svo hrynjið, veggir; hrökkvið opnar, dyr./Kom, hreina loft, með ilm frá skógum grænum.“ 3 Svipaða mynd af Jónasi má finna í ljóði Tómasar Guðmundssonar um skáldið þar sem náttúran, þjóðin og tungan eru meginyrkisefnið. Tómas segir vorið hafa leitað lesendur uppi í ljóðum Jónasar: „Síðan er/hver brekkusóley bernskusystir okkar/og leikbróðir hver lítill foss í gili./Þú tengdir okkur móðurmold og sól/og gerðir okkur skyggn á örlög okkar.“ 4 Fyrir Matthíasi Johannessen er Jónas einnig skáld sólar og sumarblíðu, en andi hans bregður birtu yfir allt í 14. hluta kvæðabálksins „Hrunadansinn“: „Og þar kom Jónas eins og óvænt sýn/ og allt var baðað sól í nútíðinni/ og huldan fylgir honum enn til þín/ með himin guðs í bjartri vitund sinni“. 5

Hálfri öld fyrr hafði fæðingarstaður Jónasar Hallgrímssonar, Hraun í Öxnadal, verið Hannesi Hafstein hugleikinn, staður sveipaður sumarbirtu og þeim blíðleika sem menn tengja jafnan náttúrumyndum Jónasar Hallgrímssonar:

„Þar sem háir hólar

hálfan dalinn fylla“

lék í ljósi sólar,

lærði hörpu' að stilla,

hann, sem kveða kunni

kvæðin ljúfu, þýðu,

skáld í mun' og munni,

mögur sveitablíðu. 6

Halldór Laxness gerir sér tíðrætt um þá djúpu og heiðu gleði sem ríkir í ljóðum Jónasar, en segir þau hljóta mótvægi sitt „í hinum þúnga íslenska lífstrega. Hann leikur þannig naumast svo léttúðugt lag á kvintstreing að ekki heyri um leið þúngan kontrapúnkt lángt niðri til vinstri handar, og þarf ekki að taka fram að einmitt treginn að baki ljær brosi hans áhrifamesta töfra.“ 7

Í ljóði Snorra Hjartarsonar „Jónas Hallgrímsson“ er einmitt dreginn fram sá harmur sem býr undir einfaldri náttúrumyndinni og lesinn í samhengi við dapurlegt hlutskipti skáldsins:

Döggfall á vorgrænum víðum

veglausum heiðum,

sólroð í svölum og góðum

suðrænum blæ.

Stjarnan við bergtindinn bliknar,

brosir og slokknar,

óttuljós víðáttan vaknar

vonfrjó og ný.

Sól rís úr steinrunnum straumum,

stráum og blómum

hjörðum og söngþrastasveimum

samfögnuð býr.

Ein gengur léttfætt að leita:

lauffalin gjóta

geymir nú gimbilinn hvíta,

gulan á brár.

Hrynja í húmdimmum skúta

hljóðlát og glitrandi tár. 8

Stjarnan við bergtindinn blikar í mörgum minningarljóðum um Jónas. Hún er táknið um óhöndlanlegu ástina í lífi Jónasar, sá skapadómur sem hann var dæmdur til að hlíta. Matthías Jochumsson vísar til stjörnunnar í ljóði frá 1905 og það gera Tómas Guðmundsson og Steinn Steinarr líka í ljóðum um skáldið í Fljótinu helga (1950) og Sporum í sandi (1940). Sagan segir að ferðalag Jónasar og Þóru Gunnarsdóttur í júlí 1828 norður í land hafi löngu síðar orðið uppspretta ástarljóðsins „Ferðaloka“ sem Jónas samdi að öllum líkindum skömmu fyrir andlát sitt 1845.

Stundirnar sem Jónas og Þóra vörðu saman má skoða sem skurðpunkt í skáldmyndinni sem við gerum okkur af lífi Jónasar, þeim er ætlað að standa sem lykilsena í harmrænu lífi skáldsins. Jafnvel náttúran ber ekki sitt barr eftir skilnað elskendanna í ljóði Ólafs Jóhanns Sigurðssonar „Hlógu þau á heiði“:

Kyrrlátur blær á heiði hrærir

hrímsilfurstrá og fífu dána,

hvíslar í víði, bliknuð bærir

blómin við ána.

Flókar á himni, hljótt á jörðu,

haustleg úr vestri nálgast gríma.

Leikur þó skin um lága vörðu

liðinna tíma.

Blásköruð áin, blærinn stillti,

blómin og stráin hug vorn túlka:

Eitt sinn gekk hér með ungum pilti

örlagastúlka. 9

Jónas: Einnar aldar minning

Nokkur af þekktustu skáldum Íslendinga við upphaf 20. aldar minntust Jónasar á aldarafmæli hans 1907 í dæmigerðum minningarljóðum. Þorsteinn Erlingsson yrkir um hann í ljóðinu „Jónas Hallgrímsson“. Hann lofar máltöfrana sem búa í ljóðum Jónasar og sólskinið og blómin sem Jónas söng inn í dalina sína. Í ljóði Þorsteins kemur einnig fram sú gráglettni örlaganna að ættjarðarskáldið Jónas skuli hafa dáið „ástvana sjálfur og einmana“. Þorsteinn telur frama Íslands ekki mikinn nú 62 árum eftir andlát Jónasar en ljóð skáldsins geta enn verið okkur innblástur og hvatt okkur til nýrra dáða:

Og gaktu' honum aldrei í gáleysi hjá:

hann gleymdi' ekki landi njé túngu,

og ævinni sleit hann við ómana þá,

sem yfir þig vorhimin súngu.

Hjer bíður hann dagsins sem ljósvættur lands

og lítur til blómanna sinna:

þess fegursta' í ættjarðarhlíðunum hans

og hjörtunum barnanna þinna. 1 0

Í samsæti Stúdentafélagsins í Reykjavík á hundrað ára afmæli Jónasar 16. nóvember 1907 flutti Þorsteinn Gíslason ljóð sitt „Jónas Hallgrímsson“. Áherslurnar í ljóði Þorsteins eru nokkurn veginn þær sömu og í ljóði nafna hans Erlingssonar. Íslenskt mál er honum ofarlega í huga, sólskinsljóð skáldsins, blómin, blærinn, lindin, fossinn og bjartar sumartíðir. Þorsteinn lýkur ljóði sínu á þeim orðum að Ísland geymi ekki margt ef það gleymir minningu skáldsins: „Sje því, Jónas, sífellt bjart/ sólskin yfir minning þinni.“ 1 1

Guðmundur Guðmundsson skólaskáld orti einnig ljóð um Jónas í tilefni af aldarafmælinu, en yrkisefnið er málsnilld skáldsins og ást Íslendinga á þjóðskáldi sínu sem liggur núna grafinn í moldu fjarri fósturjörðinni:

Enginn þekkir leiðið lágt,

þar sem kærri fósturfoldu

fjarri varst þú hulinn moldu, –

en við sérhvern andardrátt

heyrum við þinn hjartaslátt

hlýjan gegnum strengjakliðinn,

ljúflingsmál og lækjarniðinn,

lóukvak og sumarfriðinn, –

hjartans skáld, sem hjörtun átt! 1 2

Tveimur árum áður hafði Matthías Jochumsson einnig gert gröf Jónasar að yrkisefni í ljóði sínu „Jónas Hallgrímsson“:

Á Sjálandsströnd þú sefur undir leiði.

Ó, svanur Íslands, hvíldu vært og rótt!

Vor góði engill báðar hendur breiði

um beðinn þinn og stytti helga nótt!“ 1 3

Matthías horfir heim til Hrauns í Öxnadal, heim til héraðsins þar sem hjarta drengsins sló sem átti eftir að verða þjóð- og frelsisskáld Íslendinga. Matthísar spáir því að vegur Jónasar verði jafn mikill í upphafi 21. aldarinnar: „Hugljúfa skáld, í munar mildum tárum/vér minnumst þín að liðnum hundrað árum“. Í ljóðum Guðmundar og Matthíasar má sjá hugmynd sem átti eftir að reynast lífseig í umræðunni um Jónas framan af síðustu öld, um skáldið í útlegð sem ber beinin fjarri ströndum heimalandsins, en áður hafði Benedikt Gröndal gert það að yrkisefni í minningarljóði sínu um skáldið: „hnípin nú eyjan grætur góða/ geyma þitt lík hún ekki má“. 1 4 Gröf Jónasar í útlöndum verður að táknmynd fyrir lánleysi ævi hans.

Sú ákvörðun íslenskra stjórnvalda að flytja bein Jónasar heim og grafa þau á Þingvöllum átti sér því langan aðdraganda.

Utangarðsmaðurinn

„já, hræið af Jónasi er sannarlega sjórekið/ sjórekið uppá fjörur gullstrandlengjunnar“ söng Megas í laginu „Um skáldið Jónas“ af fyrstu plötu sinni Megasi frá árinu 1972. Í laginu gerir Megas sér mat úr drykkfelldni Jónasar og ögrar þeirri upphöfnu ímynd þjóðskáldsins sem finna má í hjörtum íslenskra broddborgara:

sauðdrukkinn úti í hrauni lá Hallgrímsson Jónas

og hraut eins og sögunarverksmiðja í Brasilíu

mamma komdu ekki nálægt með nefið þitt fína

það er nálykt af honum þú gætir fengið klígju.

Hann orti um fallega hluti, það er hlálegt

og hellti svo bjór yfir pappírinn og yfir orðið

gættu þín mamma maðurinn hann er með sýfilis

mundu að þegar hann fer skaltu dekka borðið.

Og Jónas er Megasi enn hugleikinn því að á kápu nýjustu plötu hans Hold og mold sem kom út í þessum mánuði stilla þrjár fáklæddar konur sér upp á legsteini þjóðskáldsins rétt eins og þær séu að auglýsa glæsivagn á bílasýningu. Kápan er gerð eftir myndverki Ragnars Kjartanssonar og heitir „Morgunn á Þingvöllum“.

Páll Valsson ber saman stöðu Jónasar og Megasar og segir þá eiga margt sameiginlegt í grein sinni „Byltingarmenn í bundnu formi. Jónas og Megas“: „trúlega var hrollurinn þeim mun meiri eftir því sem ofar var komið í svokölluðum þjóðfélagsstiga. Jónas og Megas urðu báðir í upphafi ferils síns eins konar „enfant terrible“ í þjóðlífinu.“ 1 5 Í kvæði Megasar um Jónas er vísað í mýtuna um drykkfellda, lánlausa skáldið, utangarðsmanninn sem snilling en sú ímynd er nokkuð rótgróin í íslenskri umfjöllun um þjóðskáldið og hugsanlega er Megas sjálfur með þessu að rekja tengslin milli sín og þjóðskáldsins, herða á þeirri hugmynd að Jónas hafi verið trúbador sinna tíma. Halldór Laxness átti nokkurn þátt í að skapa myndina að utangarðssnillingnum í ritgerðinni um Jónas: „Nú eru bráðum liðin hundrað ár síðan þessi útigángsmaður var á stjáki, um flórhellurnar í Kaupinhöfn stúrinn og þrjóskulegur, einsog títt er um flibbalausa menn á biluðum skóm. Glóðin sem brann í augum hans lýsti fremur söknuði en von, enda týndist hann einn góðan veðurdag oní danskan herrans urtagarð og hefur ekki fundist síðan.“ 1 6

En ræturnar liggja lengra aftur, því ímyndin af hinum lánlausa Jónasi er samfléttuð minningarljóðunum sem skrifuð voru eftir andlát hans tæpri öld fyrr, í kvæðum Gríms Thomsen og Konráðs Gíslasonar sem birtust fyrst á prenti 1846, ekki síður en í kveðskap Jónasar sjálfs.

Enginn grætur Íslending

Á skemmsta degi ársins, 21. desember 1844, rúmum fimm mánuðum fyrir andlátið yrkir Jónas Hallgrímsson þær stökur sem líklega hafa átt ríkastan þátt í að halda á lofti ímyndinni um lánlausa skáldið í útlöndum:

Enginn grætur Íslending

einan sér og dáinn.

Þegar allt er komið í kring,

kyssir torfan náinn.

Mér er þetta mátulegt,

mátti vel til haga,

hefði ég betur hana þekkt,

sem harma ég alla daga.

Lifðu sæl við glaum og glys,

gangi þér allt í haginn.

Í öngum mínum erlendis

yrki ég skemmsta daginn.

Sólin heim úr suðri snýr,

sumri lofar hlýju.

Ó, að ég væri orðinn nýr

og ynni þér að nýju! 1 7

Það er þessi ímynd af skáldinu sem er ráðandi í fyrstu ljóðunum sem ort voru um hann af samferðamönnum hans, Benedikt Gröndal, Grími Thomsen og Konráð Gíslasyni. Benedikt harmar að Jónas skuli ekki hvíla á Íslandi og segir önd hans sem lifði með „líkamsfjötrum/í fögrum geislum/frelsissólar“ nú gengna „um grafar dyr/frá vonsku heims/og vanþakklæti“. 1 8 Annað minningarljóð birtist um Jónas án höfundarnafns í sama hefti Fjölnis (9. árg. 1846) en Páll Valsson, ævisöguritari Jónasar Hallgrímssonar, segir alveg öruggt að Konráð Gíslason hafi komið að þessu kvæði: „Fingraför hans á því eru svo skýr að þeim verður ekki á móti mælt.“ 1 9 Konráð hefur ljóð sitt með þeim ummælum að:

Því, sem að Ísland ekki meta kunni,

er Ísland svipt; því skáldið hné og dó,

skáldið, sem því af öllu hjarta unni,

og elskaði þess fjöll og dali og sjó

og vakti fornan vætt í hverjum runni.

Frægast þeirra ljóða sem ort var um Jónas nýlátinn er þó kvæði Gríms Thomsen „Jónas Hallgrímsson“. Grímur gerir sér að yrkisefni galdurinn í skáldskap Jónasar sem gat „látið lækjarnið“, „sjávarrót og svanaklið“ og bárur á sandi heyrast í ljóðum sínum. Jónas kunni mál náttúrunnar og tungur fjallanna svo vel að hann gat „stein og stál/í stuðla látið falla“. Lokalínur ljóðsins eru eflaust þær þekktustu:

Íslands varstu óskabarn,

úr þess faðmi tekinn

og út á lífsins eyðihjarn

örlaga svipum rekinn.

Langt frá þinna feðrafold,

fóstru þinna ljóða,

ertu nú lagður lágt í mold,

listaskáldið góða. 2 0

Óskabarn ógæfunnar

Feigð skáldsins er yrkisefni skáldanna Snorra Hjartarsonar, Gerðar Kristnýjar og Þorsteins frá Hamri. Snorri, sem um margt var arftaki Jónasar í ljóðagerð tuttugustu aldar, yrkir um Hviids Vinstue, sem er elsta krá Kaupmannahafnar (frá 1723), en hún stendur við Nýjatorg Konungsins og var lengi vinsæll samkomustaður Íslendinga fyrr á öldum. Sagan segir að Jónas hafi verið á heimleið af kránni þegar hann hrasaði í stiganum heima hjá sér og hlaut svo vont brot að hann lést skömmu síðar. 2 1 Í ljóðinu heyrir Snorri fótatök skáldsins á kránni áður en hann heldur á braut leiðina heim rúmri öld fyrr. En nærveru Jónasar er ekki síður að finna í ljóðum Snorra sjálfs sem er þakklátur fylgdinni:

Brenna augun þín brúnu

frá borðinu þarna í köldum

skugga þíns skapadags

Heyri ég hikandi þung

hinztu fótatök þín

hverfa í ysinn að utan

Heyri þau heyri þau óma

í hugar míns djúpi sem fyr

á langferðum lífs míns og brags 2 2

Gerður Kristný fylgir líkt og Snorri skáldinu eftir um stræti Kaupmannahafnar síðustu gönguferðina í ljóðinu „Jónas“ sem birtist í nýjustu bók hennar Höggstað nú í haust. Hikandi og þung fótatök skáldsins í ljóði Snorra verða í ljóði Gerðar þung og reikul sem gefur til kynna að skáldið sé drukkið, og senn mun því skrika fótur í tunglskininu í stiganum heima. Lokamynd ljóðsins dregur skýrt fram feigð skáldsins, en hrafnarnir á þakinu sem „teygja sig/ eins og tindar upp í himininn“ kallast á við fjallamyndina í Öxnadal, með hinn svarta Hraundranga. Það er komið að leiðarlokum:

Útidyrnar opnast inn í hús

þar sem þoka leikur um þrepin

og tunglskinið strengist milli veggja

Nóttin er þungstíg

í þessu húsi

reikul í spori

en ratar samt heim

Bara að nú verði ekki sungið,

hugsar fólkið í húsinu

og festir aftur blund

Í dögun hrekkur það upp

við hrafna á þaki

þeir teygja sig

eins og tindar upp í himininn 2 3

Feigð Jónasar er einnig meginviðfangsefni Þorsteins frá Hamri í ljóðabókinni Spjótalögum af spegli (1982) en þar varpar Þorsteinn fram þessari gátu í ljóðinu „Jónas“:

Jónas,

þú sem ortir um hinn eilífa snjó,

varð þér hugsað til spora hindarinnar

frá Assembléen...? 2 4

Þorsteinn vísar hér til tveggja ljóða sem Jónas orti í Sórey, ljóðs á dönsku sem finna má í bréfi til Konráðs Gíslasonar frá mars 1844, þar sem ljóðmælandinn eltir hvíta hind í gegnum skóg á meðan stjörnurnar blika yfir honum og hann áttar sig skyndilega á því að hann sjálfur er feigur, eltur af hundum skógardísarinnar, 2 5 og ljóðsins „Alsnjóa“ þar sem dauðinn er sagður „hreinn og hvítur snjór“, 2 6 en samkvæmt túlkun Páls Valssonar „fjallar kvæðið um hlutskipti mannsins í heiminum“ sem gengur til móts við dauða sinn, einn og óstuddur út á endalausa hjarnbreiðuna. 2 7

Feigðin liggur sem hjúpur yfir ímynd Jónasar. Hin sjúka og lánlausa ævi skáldsins, hefur þó líklega aldrei verið dregin jafn skýrum og fögrum dráttum og í ljóði Jóhanns Sigurjónssonar um frænda sinn og skáldbróður:

Dregnar eru litmjúkar

dauðarósir

á hrungjörn lauf

í haustskógi.

Svo voru þínir dagar

sjúkir en fagrir,

þú óskabarn

ógæfunnar. 2 8

Feður og synir

Það sem er kannski óvenjulegast við sterka stöðu Jónasar Hallgrímssonar í íslenskri ljóðagerð er að skáldin sem yrkja til hans virðast ekki finna til vanmáttarkenndar frammi fyrir þessum mikilvæga forvera sínum í ljóðagerðinni. Hann er ekki greindur sem lamandi kraftur, rétt eins og lengi hefur verið hlutskipti Halldórs Laxness í íslenskri sagnagerð. Það er helst að hugmyndarinnar megi finna merki í ljóði Steins Steinarrs „Í Öxnadal“ þar sem nærveran við Jónas virðist fylla Stein óvenjulegum andans þrengslum:

Skáld er ég ei, og innblástrunum fækkar,

andagift minni er löngum þungt um vik.

Mun ég þó yrkja, meðan krónan lækkar

og mæddur bóndi nær sér ögn á strik.

Öxnadalssólin sér til gamans hækkar,

suðar í hlíð og slakka spræna kvik.

Blágresið hlær og hrútaberið stækkar.

Hérna gekk Jónas um með mal og prik. 2 9

Þegar ljóð Steins er skoðað mætti hafa í huga kenningu bandaríska bókmenntafræðingsins Harolds Bloom um áhrifafælni (anxiety of influence) en samkvæmt henni eiga höfundar í sálarkreppu andspænis mikilvægum fyrirrennurum sínum á sviðinu og eiga erfitt með að koma á eftir þeim, því allt sem skiptir máli virðist þegar hafa verið skrifað. Áhrifamáttur höfundanna sem á undan koma heftir sköpunargáfu ungskáldanna.

Ekkert íslenskt ljóðskáld hefur unnið jafn markvisst með stöðu Jónasar í nútímanum og Hallgrímur Helgason sem hefur sjálfur lýst sambandi þeirra með orðunum: „Jónas er afi minn“. 3 0 Hallgrímur teiknaði mynd af Jónasi fyrir kápuna á ævisögu Páls Valssonar um skáldið og sagði í viðtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur: „Jónas er ágætur. Ætli Jónas sé ekki svo hugstæður okkur vegna þess að það náðist aldrei ljósmynd af honum.“ 3 1 Hallgrímur sat jafnframt í ritnefnd tímaritsins Fjölnis en heiti þess er vitaskuld dregið af Fjölni Jónasar og félaga sem kom fyrst út 1835. Í fyrsta hefti seinni tíma Fjölnis frá 1997 skrifar Hallgrímur harðorða grein „Ljóðið er halt og gengur með hæku“ þar sem hann boðar byltingu í íslenskri ljóðagerð, rétt eins og Jónas þegar hann gagnrýndi Tistransrímur Sigurðar Breiðfjörðs í samnefndu tímariti meira en einni og hálfri öld fyrr. 3 2

Þennan útgangspunkt, að yrkja þvert á það sem er að gerast í samtímaljóðlistinni, má finna í Ljóðmælum sem komu út 1998 en þar leitast Hallgrímur við að tengja sig ljóðhefð 19. aldar, bæði í nafni bókarinnar og lengd (en hún er tæpar 400 síður), auk þess sem þar má finna ferða-, ættjarðar- og erfiljóð, afmælisvísur, stökur og lengri söguljóð. Af lestri Ljóðmæla má sjá hversu mikil áhrif Jónas hefur haft á Hallgrím. Hann endurskrifar t.d. ljóðin „Ferðalok“ og „Ísland“ og færir til nútímans, en eitt erinda „Ferðaloka“ hljómar þannig:

Leiddi ég þig á Mokka

svo lítið bar á,

vöfðum vindlinga.

Brosa blómvarir,

blikna poppstjörnur,

ást í brjósti býr. 3 3

Í stað rómantískra náttúrumynda gerist ástarsagan nú inni á diskóteki og kaffihúsi með tilheyrandi sígarettureyk. Hallgrímur krefst þess að íslensk skáld yrki um íslenskan veruleika eins og hann er nú á dögum, en liður í því er að taka tungumálið til endurskoðunar. Í pistli sínum „Enskan er þjóðlegri“ bendir Hallgrímur á að enskan sé orðin hluti af þjóðerni Íslendinga og birtist sú hugsun meðal annars í ljóðinu „Ísland“ þar sem Hallgrímur rappar um Bandaríkin, sjónvarpið, fótbolta og popptónlist, en Ísland virðist vera orðinn vinsæll áfangastaður hjá frægu fólki úti í heimi sem koma hingað til lands m.a. til að skoða fallegar íslenskar konur. Ljóðið er í þremur útgáfum og er ein þeirra á ensku. Önnur útgáfan ber undirtitilinn Love-Hate Remix en sú þriðja American Agent Mix. Þannig eru kvæðin „mixuð“ á ólíkan máta eins og tíðkast um popptónlist eða rapp:

„Iceland is on the phone“ andvarpar alheims-móðir.

„Asking for Fortune and Fame, to find it's place in the west.“

Allt er í heiminum horfið um leið og litið er augum.

Leikur sem lýst er í nótt er að morgni frá annarri öld.

Landið er nýjasta nýtt og notað í töku myndar,

himinninn heitur skjár og hafið svo skínandi smart.

Nú koma fljúgandi frægar fegurðarhetjurnar góðu

vestan um hyldýpis haf, hingað í sælunnar reit;

lengja sér lim undir súð í ljóðshærðu meyjanna skauti;

sér aka í eigin frægð, og andvarpa this is it!

Hátt í eldhúsi upp, þar sem ennþá Öxará rennur

ef að skrúfað er frá, um rettur er rakin glóð.

Þar stendur Sting á þingi og Trudy vel tekið af liði.

Þar koma Bowie og Blur, BB- og ABC. 3 4

En tengslin milli Hallgríms og Jónasar enda ekki hérna. Kvæðið „Fyrir utan og inni á Bíóbarnum eða leitin að Jónasi Hallgrímssyni“, segir frá því þegar höfundurinn leitar að Jónasi Hallgrímssyni úti á næturlífinu. Barþjónninn segist hafa séð Jónas og er hann í lýsingunni um margt eins og utangarðsmaðurinn í ritgerð Halldórs Laxness; lánlaus og illa klæddur, en hann drekkur: „Brennivín/ blandað í Fanta og appelsín./ Fötin voru, ja ... furðuleg/og frekar svona ógeðsleg.“ 3 5 Stúlka með rauðan skúf segir að sama skapi að Jónas sé: „Fullur karl/í framan eins og drullumall?/ Róni sem var að reyna við mig/ en ruglaði mest um sjálfan sig“. 3 6 Jónas er andfúll, hann er með húð eins og „á blettóttum banana/ og bringu ... sem minnti á ... grashana“. 3 7 Þannig má sjá hvernig Hallgrímur leggur áherslu á veikindi Jónasar, drykkjuskap og fátækt. Höfundur kvæðisins finnur ekki Jónas, hann sést „hverfa í leigubíl“ 3 8 en Hallgrímur heldur áfram leitinni að skáldinu í leikriti sínu Skáldanótt sem sækir í sömu hugmynd og áðurnefnt kvæði Ljóðmæla .

Verkið gerist á svonefndri skáldanótt sem er sú nótt ár hvert er þjóðskáldin vakna til lífsins og er leikritið er að mestu skrifað í bundnu máli. Unga fólkið í verkinu, sem hefur mikinn áhuga á skáldskap, talar í rími þessa nótt. Það reynir að sýna skáldunum ljóðin sín, tekur af þeim myndir, falast eftir viðtölum eða vill upplifa viðburðinn. Á meðal þjóðskáldanna eru Jónas Hallgrímsson, Einar Benediktsson, Benedikt Gröndal og Steinn Steinarr, en þeir tala í óbundnu máli og hafa lítinn áhuga á skáldskap unga fólksins en meiri áhuga á pólitík samtímans, slúðri og því að komast á séns. Undir lok verksins hefst skáldaslagur þar sem ungu skáldin keppa um það hvert þeirra sé fræknasta skáldið. Slagsmál, söngvar, drykkja og makaleit tilheyra skáldanóttinni. Glösin eru fyllt af skáldamiði og heimur unga fólksins er útópískur og minnir um margt á söngleiki. Skáldin kýta og metast, þau ræða forna frægð, stæra sig af sínum gömlu afrekum, gera lítið úr frama skáldbræðra sinna eða væla yfir því að hafa ekki fengið næga viðurkenningu. Jónas montar sig af því að hafa fengið grimmilegri dauðdaga en tíðkast hjá yngri kynslóðinni: „Já, þið ungu mennirnir deyjið orðið svo snyrtilega. Annað en við sem dóum úr þremur, fjórum sjúkdómum minnst“. 3 9 Drunginn sem hvílir yfir gömlu skáldunum er í andstöðu við lífskraft unga fólksins.

Jónas er hin mikla fyrirmynd ungskáldsins Hermanns í Skáldanótt sem þreytist ekki á að lýsa hversu mikilvægur Jónas er fyrir þjóðina og ljóðlistina, þrátt fyrir að tilheyra horfinni öld. Hermann dreymir um að verða mikið skáld sem muni rísa úr gröf sinni á komandi árum, en veit að hann á ennþá langt í land, þar sem hvert orð hans sé komið frá Jónasi, hinum mikla meistara íslenskrar tungu:

Hér stendur hann á stalli, mennskur varði,

og styður hönd á minnar þjóðar hjarta

en ber í hinni sönginn sólarbjarta.

Hve sumarið var stutt í skáldsins garði.

Þó látinn sért þú lifir mér í huga.

Lífið er meira en ártöl tvö á steini.

Veslings öld þér varð að banameini

en velferð okkar seint þig nær að buga.

Ég er sá sem dauðan anda dregur

og dreymir um að lifna við að deyja.

Jónas, þú ert sá eini sem úr því sker.

En milli okkar liggur langur vegur.

Þér leiðist allt sem hef ég þér að segja

því hvert mitt orð, það komið er frá þér. 4 0

.

1 Páll Valsson: „Er hægt að skrifa ævisögur þjóðskálda?“ Skorrdæla. Ritstj. Bergljót Soffía Kristjánsdóttir og Matthías Viðar Sæmundsson. Reykjavík: Háskólaútgáfan 2003, bls. 142-43. | 2 Halldór Laxness: „Um Jónas Hallgrímsson“. Af skáldum. Reykjavík: Bókaútgáfa menningarsjóðs, 1972, bls. 26. | 3 Davíð Stefánsson: „Jónas Hallgrímsson“. Að norðan II [Ný kvæðabók, 1947]. Reykjavík: Helgafell, 1952, bls. 463. | 4 Tómas Guðmundsson: „Jónas Hallgrímsson“. Ljóð Tómasar Guðmundssonar [Fljótið helga, 1950]. Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1992, bls. 428. | 5 Matthías Johannessen: „Hrunadansinn“. Hrunadans og heimaslóð. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2006, bls. 17. | 6 Hannes Hafstein: „Hraun í Öxnadal“. Ljóð og laust mál. Reykjavík: Helgafell, 1968, bls. 48. | 7 Halldór Laxness: „Um Jónas Hallgrímsson“, bls. 24. | 8 Snorri Hjartarson: „Jónas Hallgrímsson“. Kvæðasafn [Kvæði, 1944]. Reykjavík: Mál og menning, 1992, bls. 8-9. | 9 Ólafur Jóhann Sigurðsson: „Hlógu þau á heiði.“ Kvæði [Að laufferjum, 1972]. Reykjavík: Mál og menning, 1995, bls. 74. | 10 Þorsteinn Erlingsson: „Jónas Hallgrímsson“. Rit II. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja h.f., 1958, bls. 57. | 11 Þorsteinn Gíslason: „Jónas Hallgrímsson“. Ljóðmæli. Reykjavík: Fjelagsprentsmiðjan, 1920, bls. 6. | 12 Guðmundur Guðmundsson: „Jónas Hallgrímsson“. Ljóðasafn. Síðara bindi. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja h.f., 1954, bls. 125. | 13 Matthías Jochumsson: „Jónas Hallgrímsson“. Ljóðmæli. Fyrri hluti, frumort ljóð. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja h.f., 1956, bls. 117. | 14 Benedikt Gröndal: „Jónas Hallgrímsson“. Ljóðmæli. Úrval. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands og Menningarsjóður, 1985, bls. 115. | 15 Páll Valsson: „Byltingarmenn í bundnu formi. Jónas og Megas.“ Lesbók Morgunblaðsins, 9. júní, 2007, bls. 12. | 16 Halldór Laxness: „Um Jónas Hallgrímsson“, bls. 19. | 17 Jónas Hallgrímsson: „Stökur“. Ritsafn. Reykjavík: Helgafell, 1971, bls. 101. | 18 Benedikt Gröndal: „Jónas Hallgrímsson“, bls. 115. | 19 Páll Valsson: Jónas Hallgrímsson. Ævisaga. Reykjavík: Mál og menning, 1999, bls. 491. Páll Valsson segir kvæðið einnig hafa verið eignað Gísla Thorarensen. | 20 Grímur Thomsen: Ljóðmæli. Reykjavík: Mál og menning, 1969, bls. 92-93. Ljóðið birtist fyrst í Nýjum félagsritum (6. árg.). Kaupmannahöfn, 1846. | 21 Páll Valsson segir ekki vitað hvaðan Jónas var að koma nóttina sem hann fótbrotnaði. Sjá: Jónas Hallgrímsson. Ævisaga, bls. 485. | 22 Snorri Hjartarson: „Hviids Vinstue“. Kvæðasafn [Lauf og stjörnur, 1966]. Reykjavík: Mál og menning, 1992, bls. 147. | 23 Gerður Kristný: „Jónas“. Höggstaður. Reykjavík: Mál og menning, 2007, bls. 25. Ljóðið birtist upphaflega í örlítið breyttu formi í fyrsta hefti Tímarits Máls og menningar, 2007 (68. árg.), bls. 3. | 24 Þorsteinn frá Hamri: „Jónas“. Ritsafn. Reykjavík: Iðunn, 1988, bls. 405. | 25 Jónas Hallgrímsson: „Til Konráðs Gíslasonar“. Ritsafn. Reykjavík: Helgafell, 1971, bls. 498. | 26 Jónas Hallgrímsson: „Alsjóa“. Ritsafn. Reykjavík: Helgafell, 1971, bls. 165. | 27 Páll Valsson: Jónas Hallgrímsson. Ævisaga, bls. 443. | 28 Jóhann Sigurjónsson: „Jónas Hallgrímsson“. Ritsafn III. Reykjavík: Mál og menning, 1980, bls. 109. | 29 Steinn Steinarr: „Í Öxnadal“. Kvæðasafn og greinar. Reykjavík: Vaka-Helgafell, 1988, bls. 101. | 30 Óskar Hafnfjörð Auðunsson: „Launavinna er dauði listamannsins“. Viðtal við Hallgrím Helgason. Birt í Skinfaxa, skólablaði MR, 2000. Tekið af heimasíðu Hallgríms (http://hallgrimu.mm.is/) [sótt 29. ágúst 2004]. | 31 Kolbrún Bergþórsdóttir: „Andinn er óður hundur“. Viðtal við Hallgrím Helgason. Dagur, 27. maí, 2000, bls. 22. | 32 Jónas Hallgrímsson: „Um rímur af Tistrani og Indíönu, orktar af Sigurdi Breidfjörd“ (prentaðar í Kaupmannahöfn, 1831)“ [1837]. Ritverk Jónasar Hallgrímssonar, I. bindi. Ljóð og lausamál. Ritstj. Haukur Hannesson, Páll Valsson og Sveinn Yngvi Egilsson. Reykjavík: Svart á hvítu, 1989, bls. 356-366. | 33 Hallgrímur Helgason: Ljóðmæli 1978-1998, Reykjavík: Mál og menning, 1998, bls. 14. | 34 Hallgrímur Helgason: „Ísland“. Ljóðmæli 1978-1998, bls. 274. | 35 Hallgrímur Helgason: „Fyrir utan og inni á Bíóbarnum eða leitin að Jónasi Hallgrímssyni“. Ljóðmæli 1978-1998, bls. 181 og 1. | 36 Sama, bls. 183. | 37 Sama, bls. 184 | 38 Sama, bls. 197. | 39 Hallgrímur Helgason: Skáldanótt. Reykjavík: Mál og menning, 2000, bls. 88. | 40 Sama, bls. 138.

Höfundur leggur stund á doktorsnám í bókmenntum við Háskóla Íslands.