FJALLAÐ var um það á degi íslenskrar tungu sl. föstudag þegar Jónas Hallgrímsson var grafinn á Þingvöllum.

FJALLAÐ var um það á degi íslenskrar tungu sl. föstudag þegar Jónas Hallgrímsson var grafinn á Þingvöllum. Þar er vitnað í bókina Ferðalok eftir Jón Karl Helgason og kemur fram að bein Jónasar hafi verið grafin upp aftur og send út til Danmerkur til DNA-greiningar. Heimildin var sótt í alfræðiritið Wikipediu, sem er á netinu, en þess var ekki gætt að um skáldskap var að ræða af hálfu Jóns Karls.

„Þessi saga kennir okkur í fyrsta lagi að maður á aldrei að vera íronískur í rituðum texta, og í öðru lagi að blaðamenn eiga aldrei að nota Wikipediu sem heimild,“ segir Jón Karl. „Bókin Ferðalok kom út hjá Bjarti í ritröð sem nefndist Svarta línan. Í þeim bókum sem komu út í ritröðinni til að byrja með léku höfundar sér meðvitað með mörk raunveruleika og ímyndunar, veruleika og skáldskapar. Ferðalok voru engin undantekning en þar er fjallað um hvernig beinamál Jónasar hefur verið túlkað, endurtúlkað og mistúlkað í fræðitextum og skáldskap.“

Þegar Jón Karl skrifaði bókina einsetti hann sér að skrifa hana þannig að hún gæti verið lesin hvort sem er af Íslendingum eða útlendingum. „Af þeim ástæðum og öðrum rammaði ég inn frásögnina með skálduðu bréfi, þar sem segir að textinn sem þarna fari á eftir sé skýrsla skrifuð fyrir konunglegu dönsku vísindaakademíuna EN HENNI hafi verið falið að rannsaka hvort leifarnar í kistu Jónasar á Þingvöllum séu í raun og veru af honum og kistu hans. Um það leyti sem ég skrifaði bókina höfðu hugmyndir um slíka rannsókn verið viðraðar af fullri alvöru á opinberum vettvangi, meðal annars í Fréttablaðinu.

Bréfið í upphafi Ferðaloka var raunar dagsett fram í tímann, bókin kom út vorið 2003 en bréfið er dagsett 9. nóvember 2003. „En það var hluti af húmornum að ímynda sér aðstæður þar sem Jónas yrði sendur aftur til Danmerkur – á vit gömlu herraþjóðarinnar – mér fannst að það væri hámark íroníunnar í ljósi þess sem á undan var gengið. En þetta bréf er að mestu leyti uppspuni, leikur sem ég treysti á að lesendur bókarinnar myndu átta sig á. En það hefur ekki gengið fyllilega eftir.“

Jón Karl viðurkennir að önnur lygi sé í bók hans. „Framarlega í Ferðalokum er vitnað í blaðagrein eftir belgískan fræðimann, Arendt Tisch, sem er ekki til. Ég gef það til kynna með því að dagsetja blaðagreinina 31. júní árið 2000, en sá dagur finnst ekki á neinu almanaki. Ég skapaði þennan fræðimann til að segja eitt og annað sem ég var að hluta til sammála en vildi samt geta andmælt eða rökrætt. Bókin fjallar að einhverju leyti um það hvernig margskonar skáldskapur, þar á meðal Atómstöðin eftir Halldór Laxness, hefur mótað sýn okkar á þann sögulega veruleika sem beinamálið er hluti af. Samþætting skáldskapar og sagnfræði er í raun eitt af meginviðfangsefnum Ferðaloka.“

Jón Karl segist hafa séð umrædda færslu á Wikipediu fyrir nokkru síðan og sett inn athugasemd um að það væri ekki rétt að bein Jónasar hefðu verið send til Danmerkur til rannsókna. Sú athugasemd sé hinsvegar horfin núna án þess að textinn hafi verið leiðréttur. „Ég hefði líklega betur leiðrétt þetta beint,“ segir hann. „En ég viðurkenni að ég hef lúmskt gaman af þessu öllu saman; bókin mín var að einhverju leyti skrifuð til að fækka vitleysunum í kringum umfjöllun um beinamálið, en ég virðist hafa fjölgað þeim frekar en hitt. Það kemur vel á vondan, ekki satt?“

Þess má geta að einn kafli Ferðaloka er birtur í bókinni Undir hraundranga, nýútkomnu úrvali skrifa ýmissa höfunda um Jónas Hallgrímsson og verk hans. Í aftanmálsgreinum með kafla sínum þar tekur Jón skýrt fram hvað í umfjöllun hans er ábyggilegt og hvað skáldað.