22. nóvember 2007 | Viðskiptablað | 2268 orð | 2 myndir

Hefur undið hratt upp á sig

Kristján Guy Burgess „Ég sótti mér framhaldsmenntun til að geta starfað á alþjóðavísu.“
Kristján Guy Burgess „Ég sótti mér framhaldsmenntun til að geta starfað á alþjóðavísu.“ — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján Guy Burgess tók stökkið og stofnaði Alþjóðaver, eða Global Center, sem sinnir ráðgjöf og verkefnaþróun í alþjóðasamvinnu. Meðal samstarfsaðila hafa verið Actavis og embætti forseta Íslands.
Eftir Davíð Loga Sigurðsson

david@mbl.is

Þegar Kristján Guy Burgess sneri aftur heim til Íslands var hann fullur hugmynda um hvernig hann gæti nýtt sér þá þekkingu og reynslu sem hann öðlaðist í framhaldsnámi sínu erlendis. Hann fann ekki farveg fyrir sín hugðarefni fyrstu misserin heima á Íslandi en svo tók hann stökkið, sagði skilið við fjölmiðlana og stofnaði Alþjóðaver, sem á ensku ber heitið Global Center, með það fyrir augum að veita ráðgjöf og sinna verkefnaþróun í alþjóðasamvinnu.

Hugmyndin hefur gengið rækilega upp, Kristján segist fyrir nokkru vera búinn að sprengja það þriggja ára plan sem hann setti sér í hittiðfyrra og hann segir vonir standa til að innan fárra missera geti á vegum Alþjóðavers verið nokkrir menn sem vinni að verkefnum úti um allan heim.

Kristján er kannski þekktastur fyrir fjölmiðlastörf sín því að hann starfaði hjá Ríkisútvarpinu árin 1999-2002. Hluta þess tíma var hann raunar fréttaritari útvarpsins í London en hann lagði þar stund á nám í alþjóðastjórnmálum og alþjóðalögum og fór svo í framhaldinu og nam við háskóla Sameinuðu þjóðanna á Kosta Ríka.

Þegar heim var komið tók hann fyrst að sér það verkefni fyrir utanríkisráðuneytið að gera úttekt vegna framboðs Íslands til öryggisráðs SÞ. Kristján hafði í framhaldinu ákveðnar hugmyndir á teikniborðinu um verkefni sem tengd voru alþjóðamálum en ekki tókst að fjármagna á þeim tíma. Hann lagði þau því til hliðar um skeið og réð sig sem fréttastjóra á hið endurreista og umdeilda DV, haustið 2003.

Býr að fjölmiðlareynslunni

Kristján segir vistina á DV hafa verið forvitnilega lífsreynslu. Hann hafi fengið innsýn í ýmsar hliðar samfélagsins sem hann þekkti ekki áður. Hann hætti hins vegar störfum á DV fyrri hluta árs 2005 er hann stofnaði Alþjóðaverið, Global Center. Þegar hann er spurður hvort það hafi ekki fullnægt metnaði hans og áhuga að starfa á fjölmiðli svarar Kristján: „Blaða- og fréttamennska getur verið mjög skemmtileg og ég bý vel að því sem ég lærði á þeim tíma, en ég sótti mér framhaldsmenntun til að geta starfað á alþjóðavísu og ég er afar sáttur við að fá að starfa beinlínis að því sem ég menntaði mig til. Svo var það bónus að geta á sama tíma búið á Íslandi. Það var ekkert sjálfsagt.

Þegar ég var að berjast með þessar hugmyndir ræddi ég þær við forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, sem ég mat svo að hefði hvað best sambönd á alþjóðavettvangi. Hann féllst á að greiða götu mína með því móti að liðka fyrir því að ég fengi að heimsækja og kynna mér starfsemi stofnana eins og Carter-stofnunina í Atlanta í Bandaríkjunum [sem kennd er við Jimmy Carter, fv. Bandaríkjaforseta], Clinton Foundation [sem kennd er við Bill Clinton fv. Bandaríkjaforseta], Earth Institute sem Jeffrey Sachs fer fyrir við Columbia-háskóla í New York sem og EastWest Institute sem hefur skrifstofur í New York, Brussel og Moskvu og er meðal virtustu stofnana á sínu sviði.

Ég fór af stað með hugmynd um það hvort það væri hægt að búa til sjálfstæða rannsóknarstofnun í alþjóðamálum á Íslandi sem taka myndi að sér að greina tiltekin viðfangsefni í samvinnu við opinbera aðila, fyrirtæki og háskóla. En svo þróuðust hugmyndirnar yfir í að verða frekar verkefnamiðaðar.“

Fjármagnað til langs tíma

Aðspurður hvernig honum hafi tekist að fjármagna starfsemina segist Kristján hafa rætt hugmyndina við tiltekna fyrirtækjastjórnendur og fjárfesta sem hafi tekið vel í að leggja Alþjóðaveri lið við að þróa verkefni sem þegar voru á teikniborðinu og móta samstarf til lengri tíma.

„Eitt af því fyrsta sem ég gerði var að skrifa skýrslu fyrir Actavis um meðferðarúrræði við alnæmi og hvernig lyfjafyrirtæki beittu sér og gætu beitt sér í þeirri baráttu. Í framhaldinu var búið til verkefni á vegum Actavis sem miðar að því að þróa lyf gegn alnæmi,“ segir Kristján. Actavis hafi mikinn áhuga á að styrkja stöðu sína alþjóðlega, leggja lið samfélagslegum verkefnum á þeim stöðum þar sem fyrirtækið hefur starfsemi og gera það með ábyrgum hætti.

Kristján segist hafa tekið þátt í að koma á samstarfi við Clinton Foundation og fleiri stofnanir en Clinton-stofnunin hefur beitt sér í þá veru að auka skilvirkni við þróun og dreifingu alnæmislyfja til þeirra sem á þeim þurfi að halda í fátækum ríkjum, einkum í Afríku. Kristján segir að Actavis sé að þróa lyf en svo þurfi að skrá þau og allt taki þetta tíma og fyrirtækið sé því ekki komið með lyfin á framleiðslustig. Að því muni þó koma senn og þá sé stefnt að því að útvega lyfin til þeirra sem sárast þurfa á þeim að halda á afmörkuðum svæðum í Afríkuríkjum.

„Alnæmisverkefnið er dæmigert fyrir nýja hugsun á Íslandi og erlendis,“ segir Kristján, „þá að fyrirtæki beiti sér á þeim sviðum þar sem þau eru sterkust, leggi styrk og stuðning til góðgerðarmála þar sem sérfræðiþekking þeirra sjálfra nýtist hvað best og kemur í góðar þarfir.

Það hefur verið sýnt fram á að starfsandi eflist mjög hjá fyrirtækjum þegar þau beita sér markvisst að jákvæðum verkefnum og þegar starfsfólk er ánægt hefur það góð áhrif á afkomu fyrirtækjanna.“

Kristján tekur einnig þátt á vegum Actavis í samstarfsverkefni Evrópuborga um forvarnir gegn fíkniefnum. „Það er verkefni sem upphaflega var búið til hjá Reykjavíkurborg en Reykjavíkurborg er í alþjóðasamstarfi sem heitir Evrópuborgir gegn fíkniefnum. Þegar Reykjavíkurborg gat sýnt fram á það að marktækur árangur hafði náðst í forvarnarstarfi í Reykjavík, sem er byggt á rannsóknum félagsvísindafólks hjá HÍ og HR, vildu Evrópuborgirnar og þessi samtök fá að læra af þessari reynslu. Borgaryfirvöld settu þá af stað verkefni sem forseti Íslands er verndari fyrir og Actavis er aðalstyrktaraðili; þetta byggist á því að rannsaka í Evrópuborgum þá þætti sem annars vegar geta verndað og komið í veg fyrir að ungmenni ánetjist fíkniefnum, og hins vegar þá áhættu sem ungmennin standa frammi fyrir. Í kjölfarið er svo mótuð stefna um árangursríkustu forvarnirnar og hvernig virkja megi samfélagið í þeirri baráttu.“

Kristján segir að á vettvangi þessa verkefnis hafi svo kviknað hugmynd hjá forseta Íslands og forstjóra Actavis um sérstakan Forvarnardag í grunnskólum á Íslandi þar sem koma ætti á framfæri niðurstöðum íslensku rannsóknanna um hvað væru öflugustu forvarnirnar.

Engin þekking innanhúss?

Kristján segir samstarfið við Actavis vera dæmi um hvernig Alþjóðaver vinni en það hafi einnig komið að verkefnum hjá fjármálafyrirtækjum, orkufyrirtækjum, háskólunum og fleirum. Hann er spurður að því hvort ekki sé til staðar þekking innan fyrirtækjanna sjálfra til að skrifa „innanhúss“ skýrslur eins og þá sem hann gerði í upphafi. „Það er náttúrlega bara eins og í allri annarri starfsemi þá vega fyrirtækin og meta hvað borgar sig að gera innanhúss og hvað borgar sig að kaupa að,“ segir Kristján. „Fyrirtæki kaupa alltaf ýmsa þjónustu og ráðgjöf í stað þess að byggja upp innanhúss. Hjá stofnunum eins og Alþjóðaveri verður líka til sérhæfð þekking og ákveðin tengsl sem gagnast fyrirtækjum og opinberum aðilum. Það er kannski það sem ég hef upp á að bjóða, ákveðin tengsl og þekking á því hvernig vinna má tiltekna hluti.“

Sem dæmi um önnur verkefni sem Kristján hefur sinnt má nefna að hann hefur átt samstarf við forsetaembættið um ýmsa þætti er tengjast loftslagsmálum. Hann ritstýrði til að mynda þeirri skýrslu sem Ólafur Ragnar Grímsson forseti lagði fyrir orkunefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings nýverið um möguleika jarðhitans vestra og reynslu Íslendinga að virkja hreinar orkulindir.

Alþjóðaver kom einnig að útgáfu bæklings á ensku, Iceland as laboratory for global solutions, sem farið hefur víða. Þar er fjallað um möguleikana í orkumálum, kolefnisbindingu, hvernig hægt er að nýta reynslu Íslendinga af landgræðslu í 100 ár, og fjallaði um samgöngur, vetnismál, jarðhitamál og fleira.

Kristján segir í þessu sambandi að vissulega nýti margar þjóðir sér jarðhita en flestar eigi langt í land með að nýta möguleikana til fulls. Íslendingar standi framarlega vegna þess að þeir njóti orðspors á alþjóðavettvangi sem þjóð sem hafi breytt orkubúskap sínum úr kolum og olíu í endurnýjanlega orkugjafa á einum mannsaldri. Íslensku orkufyrirtækin hafi náð árangri við að stýra auðlindum sínum og reka arðbær orkuver og verið fremst í flokki í nýsköpun í jarðhitaiðnaðinum. Þessi mál séu mjög í deiglunni einmitt núna, olíuverð sé hátt, aukin krafa sé gerð um hreina orkugjafa. „Þetta er ákveðin hringiða núna sem Íslendingar geta nýtt sér vel ef þeir halda vel á málum.“

Kristján var í sendinefnd sem fór með forsetanum til Kína fyrr í haust og kom að skipulagningu fundar um loftlagsbreytingar sem forsetaembættið og Jeffrey Sachs hjá Earth Institute stóðu fyrir hér heima sumarið 2006. En hann vinnur einnig með mörgum öðrum aðilum og má nefna að hann fór með þáverandi borgarstjóra, Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, til Moskvu í vor en haldið var Umhverfis- og orkuþing í tengslum við þá heimsókn sem Alþjóðaver undirbjó í samvinnu við skrifstofu borgarstjóra, Útflutningsráð og utanríkisráðuneytið. Áðurnefnt forvarnarverkefni Evrópuborga hefur einnig kostað mikil ferðalög af hans hálfu, en starf hans hefur m.a. verið fólgið í því að þræða borgir inn í það samstarf.

Og Kristján hefur sinnt ráðgjöf fyrir Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar sem m.a. snýr að því hvernig eigi að nýta það svæði sem Bandaríkjaher skildi eftir er hann fór af landi brott í fyrra. Jafnframt hefur hann komið að heimsóknum erlendra aðila sem hingað hafa komið til að kynna sér tækifærin.

Vilji til að láta að sér kveða

– Það er algengt viðkvæði að Ísland sé of lítið til að hafa hlutverk á alþjóðavettvangi og Íslendingar hafi lítið fram að færa. Hér rekur þú hins vegar Alþjóðaver sem gengur út á það að við höfum eitthvað fram að færa?

„Einmitt. Ég hef mikla trú á því að Íslendingar hafi fjölmörg tækifæri til að láta að sér kveða. Við höfum séð hvernig viðskiptalífið hefur tekið við sér á síðustu árum. Vísindasamfélagið hefur ýmsa möguleika umfram það sem menn hafa þegar nýtt sér, háskólarnir eru með metnaðarfull markmið og ég held að það sé hægt að lesa það úr yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar sem tók við í vor að það sé ríkur vilji til að láta að sér kveða á alþjóðavettvangi. Ég held að þetta sé til marks um nýja tíma. Okkur hefur hér tekist að þróa samfélag sem margir öfunda okkur af, vilja læra af. Við höfum gert það með því að nýta náttúruauðlindir á ábyrgan hátt – fiskistofnana og fallvötnin og jarðhitann – og erum með langhæst hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í heiminum í okkar orkubúskap. Við getum þróað þetta lengra.“

Kristján segir verkefnið sem allir standi nú andspænis sé það að finna nýjar leiðir til að takast á við loftslagsbreytingar. Þar þurfi að koma til samstarf opinberra aðila, vísindamanna og einkageirans til að raunverulegur árangur náist. Kristján segir að það séu ekki margir staðir í heiminum þar sem menn geti fengið næga orku, ódýra og græna. „Þess vegna er Ísland áhugavert fyrir þá sem vilja gera t.d. tilraunir um orkugjafa framtíðarinnar eða verkefni sem þurfa mikla orku á tilraunaferlinu. Ég nefni sem dæmi að bandarískir vísindamenn hafa uppi hugmyndir um að finna leið til að fanga koltvísýring úr andrúmsloftinu. Hvernig vinnurðu það áfram? Það er flókið að vinna þá tilraun og reikna út hversu miklum koltvísýringi þú nærð úr andrúmsloftinu ef þú ert með tilraun sem nýtir orku frá kolum eða olíu. Það er reikningsmódel sem gengur bara ekki upp.

En fyrir vikið vilja þessir aðilar koma til Íslands, nota hreina orku í sínum tilraunum, búa til sýnisdæmi hér og taka það víðar í samstarfi við Íslendinga.“

„Sýnisdæmahugsunin“

Kristján segir þessa „sýnisdæmahugsun“, að Íslendingar geti sýnt hvernig er hægt að vinna að nýjum lausnum í samvinnu ólíkra aðila, afar áhugaverða og hann nefnir sem dæmi samstarf vísindamanna um kolefnisbindingu í basalti sem fram fer á Hellisheiði og verkefni í Afríkuríkinu Djíbútí sem Orkuveita Reykjavíkur hefur efnt til í samvinnu við þarlend stjórnvöld en Kristján hefur komið að undibúningi þess. Takist verkefnið vel verði það sýnisdæmi um hvernig hægt sé að bylta orkubúskap heils lands, koma sjálfbærri, ódýrri orku til einnar fátækustu þjóðar heims sem hefur þurft að kaupa olíu dýrum dómum sem staðið hefur þróun hennar fyrir þrifum. „Ef þetta er hægt í Djíbútí af hverju þá ekki í Eþíópíu, Kenýa, Úganda eða Tansaníu og stuðlað þannig að efnahagslegum framförum og baráttunni gegn fátækt í Afríku? Möguleikar okkar eru ótvíræðir.“

Kristján tekur fram að Íslendingar hafi vissulega starfað að jarðhitamálum í Austur-Afríku í mörg ár. Verkefnin hafi hins vegar verið föst í skrifræðisbáknum ýmiss konar, ekki haft áheyrn á æðstu stjórnstigum og einkafjármagn hafi ekki haft áhuga á þeim einmitt vegna skrifræðishlutans og stjórnmálaástandsins. „Þannig að mitt verkefni í heimsókn minni til þriggja Austur-Afríkuríkja í fyrra var meðal annars að losa um hnútana.“

Kristján segir að þessi vinna sé oft „rótarí“ en yfirleitt sé um mikilvæga vinnu að ræða á fyrri stigum verkefna. Síðarmeir öðlist þau sitt eigið líf og þá sé hans þætti oftast lokið.

„Það er mjög margt framundan, það eru mörg skemmtileg verkefni á teikniborðinu. Flest byggja á samstarfi íslenskra aðila – fyrirtækja, sérfræðinga, opinberra aðila – við samsvarandi aðila erlendis að félagslega mikilvægum verkefnum. Það er alltaf samnefnarinn, þetta eru verkefni sem eru þjóðfélagslega brýn eða mikilvæg og Alþjóðaverið kemur þá inn í þá mynd til að tengja ólíka aðila saman,“ segir Kristján. Þótt hann sé eini starfsmaðurinn í fullri vinnu hjá Alþjóðaveri segir hann að fleira fólk með ýmis konar sérþekkingu hafi komið að einstökum verkefnum. „En þetta er allt að gerjast núna því að það er greinilega eftirspurn eftir svona batteríi og mér sýnist að verkefnum gæti fjölgað talsvert á næstu misserum.“

Í hnotskurn
» Kristján Guy Burgess er fæddur 1973, hann gekk í Menntaskólann í Reykjavík og nam svo sagnfræði við Háskóla Íslands. Hann hefur framhaldsmenntun í alþjóðastjórnmálum og alþjóðalögum frá London og háskóla SÞ á Kosta Ríka.
» Kristján var um tíma fréttamaður á Ríkisútvarpinu, síðan fréttastjóri á DV en árið 2005 stofnaði hann síðan Alþjóðaverið, Global Center.
» Alþjóðaver sinnir verkefnaþróun, ráðgjöf og skýrslugerð í alþjóðasamvinnu.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.