23. nóvember 2007 | Leiðarar | 423 orð

Fólksflótti frá höfuðborgarsvæðinu?

Eins og staðan er nú í húsnæðismálum og ef hún breytist ekki má búast við fólksflótta frá höfuðborgarsvæðinu og út á land á næstu misserum og jafnvel er hægt að halda því fram að sjá megi fyrstu merki um slíka búferlaflutninga. Skýringin er augljós.
Eins og staðan er nú í húsnæðismálum og ef hún breytist ekki má búast við fólksflótta frá höfuðborgarsvæðinu og út á land á næstu misserum og jafnvel er hægt að halda því fram að sjá megi fyrstu merki um slíka búferlaflutninga. Skýringin er augljós.

Það er orðið of dýrt fyrir fólk á venjulegum launum að búa á höfuðborgarsvæðinu. Einu gildir, hvort fólk stefnir á kaup á húsnæði eða að leigja húsnæði. Í báðum tilvikum er kostnaðurinn orðinn svo yfirgengilegur að annað eins hefur ekki sést hér í nokkra áratugi.

Hvernig bregzt fólk við? Með því að flytja til nágrannabyggða höfuðborgarsvæðisins þar sem húsnæðiskostnaður er mun lægri. Sumir flytja austur fyrir fjall til Hveragerðis eða á Árborgarsvæðið. Aðrir flytja á Suðurnes og enn aðrir upp í Borgarfjörð. Margir sækja eftir sem áður vinnu til Reykjavíkur eða nágrannasveitarfélaga.

Þá eru dæmi um að fólk flytji enn lengra, jafnvel til Ísafjarðar. Í mörgum tilvikum er fólk ekki bara að leita að ódýru húsnæði heldur einnig meiri friði og ró. Í minni byggðarlögum er t.d. ekki nauðsynlegt að eyða stórum hluta dagsins í að keyra börn til og frá skóla, í sérnám eða til íþróttaiðkunar. Í minni byggðarlögum er hægt að komast ferða sinna án mikilla ökuferða. Við það losnar mikill tími í lífi fólks sem hægt er að nota til annars en að keyra um í bíl í erfiðri umferð.

Það er auðvitað bara ánægjulegt að fólk flytji frá Reykjavík og nágrenni til annarra byggðarlaga og styrki þar með og efli byggðarlögin utan höfuðborgarsvæðisins. Og ekkert nema gott við það að fólk geti notið lífsgæða, sem tilheyra ekki lengur lífinu á höfuðborgarsvæðinu, annars staðar.

En auðvitað er það alvarlegt umhugsunarefni að staða húsnæðismála skuli vera orðin með þeim hætti að fólk flýi háan húsnæðiskostnað á höfuðborgarsvæðinu. Að sumu leyti bendir margt til þess að staðan í húsnæðismálum sé að verða svipuð og hún var fyrir þremur til fjórum áratugum.

Það er t.d. augljóst að húsnæðismál efnaminnsta hópsins í samfélaginu eru komin í öngstræti. Fyrir 42 árum var það lykilþáttur í kjarasamningum að samið var um byggingu 1.250 íbúða fyrir láglaunafólk í Breiðholti. Getur það verið að tæpri hálfri öld síðar séum við komin í heilan hring og nú sé aftur nauðsynlegt að grípa til slíkra ráðstafana til þess að tryggja efnaminnstu þjóðfélagsþegnunum þak yfir höfuðið?

Það væri skammarlegt ef svo væri en því miður hljótum við að spyrja þeirra spurninga.

Það er ekki hægt að sitja auðum höndum og fylgjast með því sem er að gerast án aðgerða. Í þessum efnum er horft til Jóhönnu Sigurðardóttur.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.