Þórarinn Leifsson
Þórarinn Leifsson
Eftir Þórarin Leifsson. Mál og menning 2007, 120 bls.

LEYNDARMÁLIÐ hans pabba hefur undirtitilinn: „Bók handa börnum með foreldravandamál“ og svo sannarlega eiga systkinin, sem eru aðalpersónur bókarinnar, við alvarlegt foreldravandamál að stríða og gildar það raunar einnig um marga skólafélaga þeirra. Bókin hefst þannig: „Flestar fjölskyldur eiga sér leyndarmál. Hluti sem enginn má vita um þær. Ég veit til dæmis að stóri bróðir hans Davíðs í mínum bekk er í fangelsi þó hann haldi að enginn viti það. [...] Ég veit líka að mamma hennar Hönnu drekkur svo mikið af brennivíni að enginn má koma heim til hennar eftir klukkan átta á kvöldin nema óeirðalögreglan.“ Af þessu mætti ætla að á sé að bresta barnabók í anda félagslegs raunsæis sem vinsælar voru á áttunda áratugnum, ekki síst á Norðurlöndum. Því fer þó fjarri, hér er um að ræða ærslasögu þar sem ýkjur, fáránleiki og gróteskur húmor ræður ríkjum. Vandamálið sem systkinin eiga við að stríða er heldur ekki neitt venjulegt vandamál því það er fólgið í því að faðir þeirra er mannæta!

Frásögnin í lögð í munn tólf ára drengs en hann og systir hans eru orðin langþreytt á þessum ósið föður síns og steininn tekur úr þegar hann er næstum búinn að éta besta vin þeirra, Bjössa börger. Faðirinn er reyndar með lögguna Viðar Hrafnsson (sem heitir reyndar Viðar Hreinsson á bls. 77), betur þekktan sem Vidda nikótín, á hælunum eftir að hafa gleypt kennaraófétið Magnús Marteins með húð og hári. Systkinin grípa því til örþrifaráða til að reyna fá föður sinn til að hætta þessu leiða athæfi og upphefst þá mikið sprell sem helst allt til bókarloka.

Margir þekkja teikningar Þórarins Leifssonar en hann hefur myndskreytt bækur, hannað bókakápur og teiknað fyrir Morgunblaðið. Árið 2001 gaf hann út bókina Algjört frelsi, ásamt Auði Jónsdóttur, en Leyndarmálið hans pabba er fyrsta frumsamda bókin hans. Bókin er að sjálfsögðu ríkulega prýdd myndum eftir Þórarin og óhætt er að segja að myndir og texti gegni jafnveigamiklu hlutverki í bókinni. Myndirnar, sem allar eru í lit, prýða hverja opnu bókarinnar og munu vera á sjöunda tug talsins.

Margt gott má segja um þessa bók; sú blanda af ýkjum og hryllingi sem ræður ferðinni ætti að höfða til flestra krakka sem hafa náð þeim þroska að skilja tvíræðni og sprell. Hins vegar gæti verið dálítið erfitt fyrir unga lesendur að greina á milli alvöru og skops í bókinni því í bland við ærslasöguna er í texta Þórarins einnig að finna vísanir til alvarlegra vandamála á borð við alkóhólisma, heimilisofbeldi og einelti í skólum. Hér gefst foreldrum tækifæri til að lesa með börnum sínum og ræða muninn á gríni og alvöru og hvenær nauðsynlegt er fyrir börn að leysa frá skjóðunni þegar kemur að leyndarmálum hinna fullorðnu. Fullorðnum ætti ekki að leiðast lesturinn því persónulýsingar Þórarins eru víða bráðskemmtilegar og tilvísanagrunnur bæði texta og mynda þéttur.

Soffía Auður Birgisdóttir