Magnús Erlendsson
Magnús Erlendsson
Magnús Erlendsson fjallar um banamein Jónasar Hallgrímssonar: "Hugsið ykkur ef sá andans jöfur sem orti þessi dýrðarljóð, og fjölmörg fleiri, hugsið ykkur ef hann hefði fengið að lifa nokkrum árum lengur."

SAGT hefur verið að á Íslandi finnist aðeins tveir flokkar ljóðskálda. Annars vegar yfirburða snillingurinn Jónas Hallgrímsson, og síðan allir hinir! Ekki verður hér reynt að leggja dóm á sannleiksgildi þessarar fullyrðingar. Hins vegar kemur í hugann minning af fundi, sem sá er hér heldur á penna, sat í nóvember fyrir 34 árum. Undirritaður var þá formaður í sínum gamla, góða Lionsklúbbi. Dag einn nefndu tveir félagar hvort ég væri ekki reiðubúinn að fá sem ræðumann á klúbbfund þekktan geðlækni – mann sem á þeim tíma hafði – hér á landi – hvað mesta sérþekkingu á áfengissýki og tíðum skelfilegum afleiðingum sjúkdómsins. Greinarhöfundi þótti efnið einkar áhugavert og hafði samband við læknirinn. Hann brást ljúfmannlega við. Flutti snjalla ræðu – talaði blaðalaust – og hóf mál sitt á að fara með hendingu úr ljóði þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar: „Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur.“ Síðan þagði læknirinn smástund, leit yfir fundarsalinn og sagði: „Þessar ljóðlínur sem ég las úr ljóðinu „Vísur Íslendinga“ kunna allir landsmenn“. – Hann hélt áfram ræðu sinni og fór næst með hendingu úr sama ljóði: „Látum því vinir, vínið andann hressa“ – Nú þagði læknirinn dágóða stund, sagði síðan með þunga í röddinni: „Hugsið ykkur ef sá andans jöfur sem orti þessi dýrðarljóð, og fjölmörg fleiri, hugsið ykkur ef hann hefði fengið að lifa nokkrum árum lengur. Tíu ár – fimmtán ár. Hvílíkan ótrúlegan fjölda ljóðaperlna ætti þá íslenska þjóðin eftir hann í dag. Þessi mikli snillingur náði aðeins að verða 38 ára. Sem unglingum var okkur öllum kennt að Jónas hefði fótbrotnað, blóðeitrun komið í fótinn, síðan fengið lungnabólgu og verið allur.“ – „En“ – sagði ræðumaður – „þetta var aðeins hálf sagan. Samkvæmt sjúkraskýrslu Friðriksspítala í Kaupmannahöfn er þess getið að tveimur sólarhringum eftir innlögn hafi Jónas fengið Delirium tremens – áfengisæði – og síðan segir orðrétt: „Hvor han under tilf. Af delir. trem, og gangræn incipiens I den afficerede ekstrem, döde d. 26. maj“ þ.e. „byrjandi rotnun í sýktu líffæri, andaðist hinn 26. maí“ Í krufningarskýrslu mátti síðan lesa: „Lifrin var stór og gulleit“. – Var þetta byrjun á skorpulifur? – Læknirinn hélt síðan áfram að lýsa afleiðingum alkóhólismans. Það ríkti dauðakyrrð í salnum. Menn sátu hljóðir og hugsandi. Á æviskeiði Jónasar átti Ísland farsælda frón hvorki – því miður – samtök áhugafólks um áfengisvarnir né sjúkrahúsið Vog.

Hvers vegna að rifja upp sorgleg skapadægur ástmagar Íslands? – Fyrr á árum voru mál sem þessi höfð í þagnargildi. Menn hvísluðu aðeins. Blessunarlega er íslenskt þjóðfélag í dag opnara fyrir umræðum um ýmis þau vandamál sem áður ríkti bannhelgi yfir. (Nauðganir, kynferðisafbrot o.s.frv.)

Það er hins vegar einkar dapurlegt að á sama tíma og minnst er 200 ára fæðingardags ljúflingsins Jónasar, skuli 17 þingmenn þjóðarinnar, leggja fram frumvarp til laga um aukið aðgengi að áfengi í stórmörkuðum og matvöruverslunum. Á sama tíma sýna nýjar skýrslur að áfengisdrykkja þjóðarinnar hefur aukist um hvorki meira né minna en 68% á rúmum tveimur áratugum. Spyrja má með orðum skáldsins „Höfum við gengið til góðs, götuna frameftir veg?“

Í lok fundarins sem hér hefur verið gerður að umræðuefni, stóðu allir félagar klúbbsins á fætur og sungu kröftuglega: „Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur.“ Þeir létu hins vegar ógert að kyrja „Látum því vinir, vínið andann hressa.“ Sársaukaþrungin frásögnin af banalegu unga snillingsins frá Hrauni í Öxnadal hafði meitlast þennan drungalega nóvemberdag fyrir 34 árum, djúpt í hugarfylgsni fundarmanna.

Höfundur er fv. forseti bæjarstjórnar Seltjarnarness.