[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það fór vel á því, að Sigurbjörn Einarsson biskup skyldi fá Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar nú á degi íslenskrar tungu. Hann átti þau svo sannarlega skilið og enginn fremur en hann, þegar minnst var 200 ára afmælis listaskáldsins góða.

Það fór vel á því, að Sigurbjörn Einarsson biskup skyldi fá Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar nú á degi íslenskrar tungu. Hann átti þau svo sannarlega skilið og enginn fremur en hann, þegar minnst var 200 ára afmælis listaskáldsins góða. Öldungurinn ungi hefur lifað nær helming þessa tímabils, orðinn 96 ára. Þess gætti þó ekki, þegar hann tók til máls, þakkaði fyrir sig og sagði, hvað honum bjó í brjósti. Máltilfinninguna þáði hann af almúgafólki, sem fyrst annaðist hann og hafði ótrúlega mikinn orðaforða, sem tengdist daglegum skiptum við náttúruna og fjölþættum vinnubrögðum þess tíma. Og hann nefndi húslestrana og Passíusálmana. Síðan sagði Sigurbjörn: „En lindirnar voru fleiri, sem þetta fólk jós af, og ég leyfi mér að nefna rímurnar með ofurlitlum glettnisglampa upp á Jónas okkar blessaðan Hallgrímsson. Hann er orðinn sáttur við rímurnar núna og þeir vafalaust orðnir sáttir vel Sigurður Breiðfjörð og hann og við samgleðjumst þeim. Þeir skála með gleði hvor við annan á degi íslenskrar tungu í eilífðinni.“

Hér er ekki rúm til að rekja efni ræðu hans frekar né varnaðarorð nema minna á skylduna, sem á okkur hvílir, að skila tungunni, þessum ómetanlega arfi óspilltum áfram til næstu kynslóðar. Og þar sem biskupinn stóð í ræðustólnum, svipaði honum til Gríms gamla á Bessastöðum, þegar Elli kerling sótti hann heim og skáldið bar henni full staup stór af Boðnar bjór: Kraftur handa heilli öld!

Það var vel að listamenn og Háskólinn skyldu minnast Jónasar á fæðingardegi hans og efna til blysfarar frá Háskólanum að styttunni í Hljómskálagarðinum. Hana gerði Einar Jónsson og var hún afhjúpuð á aldarafmæli skáldsins á grasblettinum fyrir framan hús Guðmundar Björnssonar landlæknis við Lækjargötu, þar sem nú er stytta séra Friðriks Friðrikssonar, og var þar mikið fjölmenni. Síðar var stytta Jónasar flutt í Hljómskálagarðinn, ég veit ekki af hverju, og vitaskuld ekki afhjúpuð þar. Einar Laxness hefur bent mér á, að rangt hafi verið með þetta farið í fjölmiðlum og er mér ljúft að leiðrétta það, um leið og ég tek undir með honum, að styttan sómdi sér betur í miðbænum, þar sem fólkið er, fremur en á afviknum stað, þar sem fáir koma.

Í Lesbók Morgunblaðsins var birt fyrir viku skoðanakönnun um Jónas Hallgrímsson, sem gerð hafði verið meðal nemenda í þrem framhaldsskólum. Niðurstöður koma vissulega á óvart. Einungis 30% gátu bent á eitthvað sem eftir hann lægi. Ég hygg, að ekki megi taka þessar niðurstöður of bókstaflega. Auðvitað kunna nemendurnir ljóð eftir Jónas og kannast við önnur, en voru óviðbúnir. Eftir sem áður hlýtur þessi niðurstaða að stugga við kennurum, líka á grunnskólastigi. Ljóð eru barngóð og barnelsk og það á ekki að taka þá ánægju af börnunum að kynnast þeim og læra utanbókar.

Undir ræðu Sigurbjarnar biskups kviknaði hugmynd að limru:

Yngismær er vor tunga,

einatt með nýjan þunga;

orð hennar jóð,

mín íslenska þjóð,

- og brosir við biskupnum unga.

HLJÓÐVARP mbl.is
Hljóðpistlar Morgunblaðsins
Halldór Blöndal les pistilinn