Helga Möller Hefur komið víða við á sínum tónlistarferli en gefur nú út sína fyrstu sólóplötu, jólaplötuna Hátíðarskap, sem hún vann ásamt einvalaliði.
Helga Möller Hefur komið víða við á sínum tónlistarferli en gefur nú út sína fyrstu sólóplötu, jólaplötuna Hátíðarskap, sem hún vann ásamt einvalaliði.
Eftir Ingveldi Geirsdóttur ingveldur@mbl.
Eftir Ingveldi Geirsdóttur

ingveldur@mbl.is

„ÉG ER búin að syngja inn á sólóplötur með öðrum en þetta er fyrsta platan undir mínu nafni og það fer vel á því að það skuli vera jólaplata,“ segir Helga Möller um jólaplötuna Hátíðarskap sem kemur í verslanir eftir helgi.

Helga hefur sungið mörg jólalögin í gegnum árin og fyrir mörgum er hún hin eina sanna jólarödd Íslands. Því sætir nokkurri furðu að hún skuli ekki fyrir löngu vera búin að gefa út sólóplötu. „Þessi jóladiskur hefur verið á döfinni í mörg ár, hann kom fyrst upp í huga okkar Magnúsar Kjartanssonar fyrir um tíu árum. En hann átti bara ekkert að koma út fyrr, fyrir mér er þetta hárréttur tími.“

Dóttirin syngur bakraddir

Hátíðarskap er jóladiskur á rólegu nótunum. „Okkur langaði til að gera sérstakan jóladisk á lífrænum nótum eins og við köllum það. Það er enginn jólaæsingur, fólk á að geta sett diskinn í græjurnar þegar það vill slaka á.“

Með Helgu á diskinum leikur úrvalslið íslenskra tónlistarmanna, þeir Magnús Kjartansson, Björn Thoroddsen, Jón Rafnsson, Einar Valur Scheving, Samúel Jón Samúelsson og Kjartan Hákonarson. Fjórtán ára dóttir Helgu, Elísabet Ormslev, syngur svo bakraddir hjá mömmu sinni en hún stundar söngnám í FÍH. „Við fórum öll saman í jólaskapi í upptökuver á þrettándanum á þessu ári og tókum upp grunnana en síðan kláruðum við hana í haust. Við unnum þetta á gamaldags hátt; það voru allir inni í sama rýminu og svo var bara spilað eins og á tónleikum. Það var ekkert tekið upp hvað í sínu lagi. Þegar maður vinnur disk svona eru allir að skapa sitt og út koma þessar frábæru útsetningar,“ segir Helga og bætir við að vegna þessara vinnubragða sé mjög skemmtilegur hljómur á diskinum.

Á Hátíðarskapi má finna klassísk jólalög eins og „Í hátíðarskapi“, „Aðfangadagskvöld“ og „Hátíð í bæ“ en Helga lét einnig gera íslenska texta við erlend lög. „Það er t.d. eitt lag eftir Amy Grant með íslenskum jólatexta eftir Ómar Ragnarsson þar sem Ómar fer alveg á kostum.“

Rétt að byrja

Helga segir sína fyrstu sólóplötu vera nákvæmlega eins og hún vildi hafa hana. „Upplifunin af þessu öllu saman er stórkostleg, þetta er mín plata og ég stend og fell með henni.“

Spurð hvort von sé á fleiru frá henni segist Helga bara vera rétt að byrja. „Nú er ég farin að semja lög sjálf og mun halda áfram að semja á næstu sólóplötu. Ég get þetta alveg.“

Í hnotskurn
Helga í tíma og rúmi
» Fæddist í Reykjavík 12. maí 1957.
» Kom í fyrsta sinn opinberlega fram í Laugalækjaskóla 14 ára.
» Stúdent af hagfræðideild Verslunarskóla Íslands og með diplómagráðu í söng frá Danmörku.
» Helga fór í Evróvision árið 1986 með „Gleðibankann“ en hefur ekki farið síðan þó hún hafi oft tekið þátt í undankeppnum hér heima.
» Var 14 ára í hljómsveitinni Melchior ásamt Hilmari Oddssyni og gáfu þau út eina litla fjögurra laga plötu með frumsömdum lögum. Síðan hefur hún verið í: Selsíus, Moldroki, Þú og ég, Snörunum, Hljómsveit Gunnars Þórðarsonar og Hljómsveit Magnúsar Kjartanssonar.
» Starfar í dag sem tónlistarmaður og flugfreyja hjá Icelandair.