Fornlegur tónn „Þýðandinn virðist hafa leitað fanga í 19. aldar dönsku, við það verður hljómur kvæðanna stundum svolítið fornlegur.“
Fornlegur tónn „Þýðandinn virðist hafa leitað fanga í 19. aldar dönsku, við það verður hljómur kvæðanna stundum svolítið fornlegur.“
Ýmsir hafa spreytt sig á að þýða verk Jónasar. Nú er komið út lítið kver með dönskum þýðingum Sørens Sørensens á ljóðum Jónasar en formála ritar Matthías Johannessen. Greinarhöfundi þykir ýmislegt orka tvímælis í þýðingunum.

Eftir Pál Valsson

pall@forlagid.is

Þótt við Íslendingar lítum á Jónas Hallgrímsson sem stórskáld er hann tiltölulega óþekktur hjá nágrannaþjóðum okkar. Ástæðan er vitaskuld augljós; fá skáld er erfiðara að þýða þannig að hið einfalda, tæra ljóðmál Jónasar skili sér í öllum sínum blæbrigðum. Ýmsir hafa þó spreytt sig á að þýða Jónas, sérstaklega á dönsku og ensku, og margt hefur þar verið vel gert, þótt oft þyki manni talsvert tapast á leiðinni af eiginleikum kvæðanna á móðurmáli skáldsins. Það breytir þó ekki því að það ágæta fólk sem glímir við að þýða íslenskan skáldskap á skilið alla okkar virðingu og hlýjan hug.

Nú er komið út fallegt kver, Landet var fagert , með 20 þýðingum á kvæðum Jónasar eftir Søren Sørensen og allítarlegum formála eftir Matthías Johannessen. Þar eru þýdd mörg af helstu kvæðum Jónasar, t.d. Ísland, Ég bið að heilsa, Gunnarshólmi, Ferðalok og Til herra Páls Gaimard, svo nokkur séu nefnd. Hið eina í valinu sem vekur undrun er kvæði sem Jónas kallar Óskaráð, um vinnukonuraunir, sem verður seint talið í hópi betri kvæða.

Hér skal strax sleginn sá varnagli að ég get að sjálfsögðu ekki fellt neinn vitrænan dóm um málsnið kvæðanna né hvort danskur búningur þeirra er sannfærandi. Stundum virkar danskan svolítið gamaldags, og ekki á því einfalda, gagnsæja máli sem einkennir kvæði Jónasar. Þýðandinn virðist hafa leitað fanga í 19. aldar dönsku, við það verður hljómur kvæðanna stundum svolítið fornlegur og gefur því dönskum nútímalesanda heldur takmarkaða mynd af Jónasi.

Það er gríðarlega erfitt að þýða ljóð bæði bókstafslega nákvæmt og miðla um leið anda þeirra og áhrifum, og oft verða þýðendur að velja á milli þessara aðferða; annaðhvort halla sér meira að bókstafnum eða taka sér aukið frelsi til þess að úr verði skáldskapur á málinu sem þýtt er á. Søren Sørensen virðist reyna eftir fremsta megni að fylgja bókstafnum, sem er skiljanlegt. Þetta veldur því að stundum finnst manni merking kvæðanna þrengjast, og fyrir vikið tapast talsvert af seiðmagni þeirra og skáldskap. Dæmi um þetta eru línurnar úr Sáuð þið hana systur mína, þar sem Jónas segir: „Fyrrum átti ég falleg gull;/ nú er ég búinn að brjóta og týna“ og Halldór Laxness sagði að tjáðu „alla sína harmsögu“. Í þýðingu Sørens eru línurnar svona: „Før var legetøjskassen fuld/ borte alt nu, alt lagt øde.“ „Legetøjskassen“ er vissulega bókstafsþýðing á „barnagullum“, en línur Jónasar búa yfir miklu víðari skírskotun sem með þessu sýnist að miklu leyti horfin í dönskunni. Það má líka velta fyrir sér þýðingunni á hinni frægu ljóðlínu úr kvæðinu Svo rís um aldir...: „því tíminn vill ei tengja sig við mig“, sem á dönskunni hljómar svona: „for fælles har min tid og jeg kun lidt.“ Hér er líka merkingin miklu víðtækari hjá Jónasi, tilvistarleg í hæsta máta, en danskan virðist frekar segja að við tíminn eigum lítið sameiginlegt. Á þessu tvennu er mikill munur.

Sem dæmi um skáldfrelsi má hins vegar taka hið harmræna niðurlag Heylóarvísu, sem reyndar virkar vel á mann á dönskunni og „smellur víða í munni“, eins og Jónas hefði sagt. Lóa Jónasar flýgur aftur heim í hreiðrið „til að annast unga smá/ – alla étið hafði þá/ hrafn fyrir hálfri stundu!“. Hjá Søren er niðurlagið svona: „ned til sine unger små./ Dem holdt ravnen måltid på,/ Det tog den ikke længe.“ Í stað þess að hjá Jónasi er ekki liðinn langur tími frá hreiðurráninu við heimkomu lóunnar, hreiðrið hálfvolgt af yl hinna dánu, sem eykur auðvitað á harm lóunnar og gerir hann áþreifanlegri, þá er tíminn í dönsku útgáfunni miðaður við að máltíð hrafnsins hafi tekið fljótt af. Munurinn blasir við, en á hinn bóginn styðst Søren að líkindum við bragleg rök og lausn hans má vel teljast lukkuð.

Eins og sjá má af þessum fáu dæmum er að mörgu að hyggja í þessum þýðingum og má skemmta sér við slíkan samanburð, og draga af ýmsa lærdóma. Einn er sá að flest orkar tvímælis þá þýtt er.

Ég bið að heilsa

Nú andar suðrið sæla vindum þíðum.

Á sjónum allar bárur smáar rísa

og flykkjast heim að fögru landi ísa,

að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.

Ó, heilsið öllum heima rómi blíðum

um hæð og sund í drottins ást og friði.

Kyssið þið, bárur, bát á fiskimiði.

Blásið þið, vindar, hlýtt á kinnum fríðum.

Vorboðinn ljúfi, fuglinn trúr, sem fer

með fjaðrabliki háa vegaleysu

í sumardal að kveða kvæðin þín,

heilsaðu einkum, ef að fyrir ber

engil með húfu og rauðan skúf, – í peysu.

Þröstur minn góður, það er stúlkan mín.

Jeg beder hilse

Nu ånder saligt blide vinde.

Småbølger, alle rejser sig på søen

og følges hjem til Islands ynde, øen,

min fosterjord med strand og li og tinde.

O, hils ved sund og høje dem I finder,

og ønsk dem blidt Guds fred og gode tanke.

Kys, bølger, ømt hver båd på fiskebanke.

Blæs, vinde, blidt på fagre pigekinder.

Forårsbebuder trofast, fugl som spædt

la'r vingen glide vejløst i det høje

til somrens dal og slipper sangen løs,

hils du en engel som går trøjeklædt,

rød kvast har huen, og om du får øje

dér på min drossel, da er det min tø.