jonf@rhi.hi.is: "Það sem helst nú varast vann ... Í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar stendur: *þetta sem helst nú varast vann / varð þó að koma yfir hann. Í 112. pistli fjallaði ég um orðatiltækið e-ð er e-m albatrosi um háls."

Það sem helst nú varast vann ...

Í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar stendur: *þetta sem helst nú varast vann / varð þó að koma yfir hann. Í 112. pistli fjallaði ég um orðatiltækið e-ð er e-m albatrosi um háls. Ég taldi ekki ástæðu til að ‘innleiða þann asna í herbúðirnar' en játaði að ég vissi ekki hvað lægi að baki, giskaði á það það væri einhvers konar bastarður myndaður af enskri samsvörun biblíuorðatiltækisins e-ð er eins og myllusteinn um háls e-s. Nú hefur komið í ljós að ágiskun mín var alröng og ég ‘skildi ekki tilvísun í eitt helsta ljóð enskrar bókmenntasögu' eins og ónafngreindur maður komst að orði. Mér hafa borist fjölmörg tölvuskeyti og í mig hefur verið hringt og í öllum tilvikum hefur mér verið bent á að orðatiltækið eigi rætur sínar í kvæðabálkinum The Rime of the Ancient Mariner eftir Samuel Taylor Coleridge (1772-1834).

Ég er sjálfum mér gramur fyrir að hafa ekki kannað málið betur áður en ég skrifaði pistilinn því að upplýsingar um orðatiltækið eru auðfundnar á netinu. Mér til afsökunar bendi ég á að ég er málfræðingur en ekki bókmenntafræðingur og er sannast sagna ekki vel að mér í enskum bókmenntum. Ég hef oft fundið til þess hve vandasamt það er að skrifa pistla um íslenskt mál því að lesendur eru sem betur fer afar kröfuharðir. Mér þykir illt að hafa varpað fram rangri tilgátu en jafnframt gleðst ég af því hve viðbrögðin voru skjót og mikil.

Yfirhalning

Bergsteinn Sigurðsson skrifar (1.10.07) og furðar sig á því að í orðabókum skuli aðeins merkingin ‘lúskrun, refsing; ádrepa, skammir' tilgreind undir uppflettiorðinu yfirhalning , kvk. Hann telur sig einnig þekkja merkinguna ‘klössun, lagfæring' og tilgreinir dæmi: Range Rover fær létta yfirhalningu (27.7.07); Egill upplýsir að grunnurinn verði yfirhalning eða ‘make-over' (8.3.06); Skemmtistaðurinn 22 fær langþráða yfirhalningu (17.6.06) og hressa upp á eldhúsið með allsherjar yfirhalningu (31.8.07). Umsjónarmaður þakkar Bergsteini kærlega fyrir ábendinguna og telur einsýnt að hann hafi rétt fyrir sér.

Orðið yfir eldra en frá síðari hluta síðustu aldar. Danska sögnin overhale merkir ‘fara fram úr' og hliðstæður er að finna í ýmsum Evrópumálum, t.d. þýsku. Í danskri orðsifjabók las umsjónarmaður að overhale ætti rætur sínar í hollensku, máli sjómanna. Grunnmerking sagnarinnar overhalen er þar ‘fara fram úr skipi (með framhlið þess) til að geta kannað það og lagfært' og þá er yfirfærð merking ‘lagfæra e-ð' auðskilin. – Það er rétt hjá Bergsteini að óbeinu merkinguna ‘lagfæra; lagfæring' vantar í íslenskar orðabækur, því þyrfti að kippa í liðinn.

Endalaus peningur

Nafnorðið peningur er nokkuð margbrotið að merkingu. Það merkir einkum þrennt: (1) ‘kvikfé' ( búpeningur ). (2) ‘einstakt myntstykki, mynt' ( einnar krónu peningur ).

(3) ‘fjármunir' ( raka saman peningum; greiða e-ð í peningum; mannlífið tollir saman á peningum (Halldór Laxness)). – Í nútímamáli (talmáli) er eintalan peningur einnig notuð í merkingunni ‘fé, peningar', t.d. áttu pening; fá e-ð fyrir lítinn pening og koma e-u í pening.

Umsjónarmaður hefur efasemdir um eftirfarandi dæmi: Það er ekki hægt að láta endalausan pening flæða út [úr ríkiskassanum í Grímseyjarferjuna] (23.8.07). Skárra væri að nota hér atviksorðið endalaust.

Úr handraðanum

Orðasambandið carpe diem á rætur sínar í kveðskap Hórasar (65-8 f.Kr.) og vísar það til þess að menn eigi að njóta líðandi stundar. Í Oxford Dictionary of Quotation eru orð skáldsins carpe diem, quam minimum credula postero þýdd þannig: ‘pick todays fruits, not relying on the future in the slightest'. Svipaðan boðskap er reyndar að finna í fjölmörgum myndum, t.d. í klisjunum Lifðu lífinu lifandi og Lifðu í dag því að á morgun kann það að vera of seint.

Símafyrirtæki hér í borg hefur nú komið sér upp slagorði sem umsjónarmanni virðist svolítið gróf eða ónákvæm þýðing á latneska orðskviðnum : Gríptu augnablikið og lifðu núna. Öllu eðlilegra væri að skrifa Njóttu augnabliksins.

jonf@rhi.hi.is