Snorri Sigfús Birgisson
Snorri Sigfús Birgisson
Snorri Sigfús Birgisson leikur íslensk þjóðlög í eigin útsetningum á píanó. Hljóðritun: Pétur Grétarsson. Stafræn úrvinnsla: Snorri Sigfús Birgisson. Eftirvinnsla: Sveinn Kjartansson. Hljóðritað í Von, Efstaleiti 7, Reykjavík (2006).
Snorri Sigfús Birgisson leikur íslensk þjóðlög í eigin útsetningum á píanó. Hljóðritun: Pétur Grétarsson. Stafræn úrvinnsla: Snorri Sigfús Birgisson. Eftirvinnsla: Sveinn Kjartansson. Hljóðritað í Von, Efstaleiti 7, Reykjavík (2006). Mynd á forsíðu: Kristinn Guðbrandur Harðarson. Grafísk hönnun: Magnús Valur Pálsson. Steinabær gefur út. Sólarfilma dreifir.

SNORRI Sigfús Birgisson hefur um árabil starfað í Reykjavík sem tónskáld, píanóleikari, kennari og stjórnandi. Tónverk hans spanna breitt svið, allt frá raftónlist til sinfónískra verka. Á geislaplötunni Hear Now My Heart leikur Snorri útsetningar sínar af 23 íslenskum þjóðlögum á píanó, sem hann gerði á árunum 2005-2006. Útsetningarnar eru mjög margbreytilegar, sumar sáraeinfaldar, aðrar þyngri, sumar ómblíðari, aðrar stríðari. Þó eiga þær það allar sameiginlegt að vera gullfallegar. Snorri er yndislega frjáls í nálgun sinni og virðist ekki vera bundinn neinum takmörkunum um að útsetja frekar á einn veg eða annan. Hann leyfir sér að vera framúrstefnulegur, rómantískur, naívur, flókinn, innhverfur eða úthverfur og svo mætti lengi telja, allt eftir því hvað lagstúfurinn kallar á í honum. Samt sem áður er ljúfur heildarsvipur á disknum, sem felst að sjálfsögðu í þjóðlögunum sjálfum en einnig að miklu leyti í flutningi Snorra, sem er mjög innilegur og yfirvegaður í senn, svo maður skynjar alltumvefjandi návist tónskáldsins í tónlistinni. Hear Now My Heart er sérlega vandaður hljómdiskur að efni og umgjörð og er það von mín að hann nái til sem flestra.

Ólöf Helga Einarsdóttir