Björgúlfur Gunnarsson fæddist á Eyrarbakka 13. okt. 1924. Hann lést í Tel Aviv 1. des. sl.

Foreldrar Björgúlfs voru hjónin Björg Björgólfsdóttir f. 12.5. 1899, d. 9.3. 1964, og Gunnar Ingibergur Hjörleifsson, f. 7.8. 1892. Gunnar var sjómaður og fórst með togaranum Sviða hinn 2.12. 1941. Systkini Björgúlfs eru: Elín Björg, f. 1.10. 1920, d. 19.10. 1941, Hjörleifur, f. 19.9. 1921, d. 17.11. 2004, Magnús, f. 16.8. 1923, Guðbjörg, f. 18.6. 1927, d. 13.7. 2004, Þorbjörn, f. 6.12. 1928, d. 25.4. 1936, Geir, f. 12.4. 1930, og Hjörtur, f. 4.4. 1932.

Björgúlfur ólst upp í Akbraut á Eyrarbakka hjá ömmu sinni og afa, Andreu Elínu Pálsdóttur og Þorbirni Hjartarsyni. Hann fluttist aftur til foreldra sinna í Hafnarfirði þegar hann hóf nám í Flensborg og lauk þaðan gagnfræðaprófi. Björgúlfur lauk loftskeytaprófi 1948 og starfaði síðan í Fjarskiptastöðinni í Gufunesi og hjá Upplýsingaþjónustu Bandaríkjanna. Stærstan hluta starfsævi sinnar starfaði hann hjá Sameinuðu þjóðunum í Ísrael og hjá flugfélaginu El Al. Björgúlfur kvæntist í Ísrael árið 1961 og er nafn eftirlifandi eiginkonu hans Ada Litvak. Þau bjuggu í Tel Aviv.

Útför Björgúlfs fór fram í Tel Aviv 3. desember sl.

Látinn er í Tel Aviv í Ísrael fornvinur minn Björgúlfur Gunnarsson loftskeytamaður. Við kynntumst fyrst þegar við hófum nám í Loftskeytaskólanum í Reykjavík og urðum við fljótt hinir mestu mátar enda Björgúlfur mikill sómamaður, skemmtilegur og léttlyndur. Eftir útskrift okkar vorið 1948 hófum við báðir störf í Fjarskiptastöðinni í Gufunesi við fjarskipti við flugvélar í Norður-Atlantshafsfluginu og erlendar landstöðvar því tengdar.

Við ungu mennirnir vorum fullir eftirvæntingar að fá að starfa á þeim vettvangi fjarskiptanna sem hugurinn stóð til eða við flugfjarskiptin. Þá var Gufunesstöðin full af ungu fólki sem nýlega var komið til starfa og við hlökkuðum til hverrar vaktar. Á frívöktum hittumst við Björgúlfur iðulega og fórum við í okkar fyrstu utanlandsferð til Skotlands og Englands með vinahópi okkar árið 1951. Í Fjarskiptastöðinni í Gufunesi starfaði Björgúlfur til ársins 1956 er hann tók við starfi hjá Upplýsingaþjónustu Bandaríkjanna í Reykjavík við móttöku fréttasendinga á morsi. Björgúlfur var afar fær loftskeytamaður. Þegar hann sendi mors þá var „music in the air“ eins og við loftskeytamenn segjum stundum þegar fallega er sent. Mér er til efs að nokkur loftskeytamaður hérlendis hafi náð að taka á móti jafn hröðum skeytasendingum eins og Björgúlfur gerði en stundum var hraðinn svo mikill að vart varð greint á milli tóna.

Vorið 1958 sótti Björgúlfur um starf hjá Sameinuðu þjóðunum. Gekkst hann undir afar strangt próf sem hann stóðst með miklum sóma. Honum var valinn starfsvettvangur fyrir botni Miðjarðarhafs og haustið 1958 hélt Björgúlfur svo til Ísraels þar sem hann starfaði við fjarskiptaþjónustu SÞ sem þar hafði friðargæslusveitir vegna hins ótrygga ástands á svæðinu. Þá var honum einnig falið það verkefni að setja upp fjarskiptastöð í Kongó í Afríku. Snemma á starfsárum sínum í Ísrael kynntist Björgúlfur ungri konu af frönskum gyðingaættum, Ödu Litvak, og gengu þau í hjónaband. Varð Björgúlfur því að segja upp starfi sínu hjá SÞ vegna hlutleysisreglna. Dóttur Ödu, Rachel, gekk Björgúlfur í föðurstað. Árið 1964 fékk hann starf sem loftskeytamaður hjá ísraelska flugfélaginu El Al á Lodflugvelli (heitir nú Ben Gurionflugvöllur) og starfaði hann þar í fjölda ára þar til hann fór á eftirlaun. Seinustu árin glímdi Björgúlfur við erfið veikindi og lést hann í Tel Aviv hinn 1. desember síðastliðinn og fór útför hans þar fram. Ferðir Björgúlfs hingað til lands voru ekki margar eftir að hann fluttist út og hittumst við því of sjaldan. Bréfaskipti voru okkur ekki lagin og símtöl okkar voru of fá en fjölskyldurnar skiptust þó á jólakortum öll þessi ár. Í gamni má segja að sennilega hefðu samskiptin verið meiri hefðum við haldið okkur við morsið!

Ég vil hér að leiðarlokum þakka vináttu góðvinar míns Björgúlfs Gunnarssonar með morskveðju: 73 OM. Um leið sendi ég fjölskyldu hans í Ísrael, systkinum hans og tengdafólki hér á landi samúðarkveðjur mínar.

Bolli Ólason.