Gönguför Jónas (Steinn Ármann Magnússon) og Steenstrup á göngu, Valdimar fylgir á hæla þeirra.
Gönguför Jónas (Steinn Ármann Magnússon) og Steenstrup á göngu, Valdimar fylgir á hæla þeirra.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í tilefni af því að í ár eru 200 ár liðin frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar sýnir Sjónvarpið leikna heimildamynd um skáldið á jóladag. Bryndís Kristjánsdóttir fylgdist með gerð myndarinnar Hver var Jónas?

Í hlýrri rigningu, í júnímánuði árið 2007, stendur maður á handriði Stormbrúar, í miðri hringiðu Kaupmannahafnar. Hann er í 19. aldar fötum, síðum jakka og með pípuhatt á höfði, og horfir niður í síkið. Allt í einu stekkur hann og hverfur á bólakaf í vatnið – straumurinn grípur pípuhattinn og hann flýtur niður eftir síkinu. Rúta, full af japönskum ferðamönnum, fer nærri á hliðina þegar allir þjóta yfir í aðra hlið hennar til að sjá út um gluggann hvað hafi orðið af manninum. Fólk sem var á ferli á brúnni teygir sig yfir breitt handriðið í sömu erindagjörðum.

Maðurinn skýtur loks upp kollinum og syndir að áttina að bakkanum en þar taka á móti honum hjálpsamar hendur og draga í land. Hann er síðan færður út fötunum og rétt handklæði. Þetta var sem sagt ekki tilraun til sjálfsvígs eftir allt saman heldur sviðsetning þess sem talið er að hafi komið fyrir Skafta Tímóteus, vin Jónasar Hallgrímssonar, en hann fannst drukknaður eftir næturslark og útistöður við laganna verði. Vinir hans töldu að skömmin hefði orðið honum ofviða. En hvers vegna þessi sviðsetning núna?

Jú, verið var að kvikmynda atriði í leikna heimildamynd um Jónas Hallgrímsson í tilefni af því að hinn 16. nóvember sl. voru 200 ár liðin frá fæðingu hans, eins og vart hefur farið framhjá nokkrum landsmanni. Mjög margt hefur verið gert í tilefni af þessum tímamótum – en margir söknuðu þess að sjá enga kvikmynd um skáldið góða. Myndin var þó tilbúin á afmælisdaginn en svo margt var þá um að vera að ákveðið var að hafa hana heldur sem hluta af hátíðardagskrá Sjónvarpsins um jólin. Hver var Jónas? heitir myndin og hún verður sýnd á jóladag.

Kvikmyndagerðarmaður með langan feril að baki

Það er Valdimar Leifsson kvikmyndagerðarmaður sem gerir myndina en hann hefur, frá því hann lauk námi í kvikmyndagerð í Bandaríkjunum, framleitt firnin öll af sjónvarpsefni, s.s. Tónlistin er lífið, sjónvarpsþáttaröð um tónlistarlífið á Íslandi, Vísindi í verki, ásamt Ara Trausta Guðmundssyni, um vísindi og vísindamenn í landinu, en þeir hafa um árabil unnið saman að margs konar sjónvarpsþáttum. Nína – listakonan sem Ísland hafnaði, var leikin heimildamynd um Nínu Sæmundsson, fyrstu höggmyndalistakonu Íslands, og Maður eigi einhamur, um Guðmund frá Miðdal. Náttúrulífsmyndir eru þó hans uppáhald og hann var fimm ár að gera mynd um Þingvallavatn, sem hlaut viðurkenningu umhverfisráðuneytisins, og hafði áður gert mynd um Mývatn. Myndirnar og sjónvarpsþættirnir skipta tugum og hafa langflest verka hans verið sýnd á íslensku sjónvarpsstöðvunum, auk sjónvarpsstöðva annars staðar á Norðurlöndunum og víðar um heim.

Skugga ber á

Myndin um Jónas hefur verið lengi í smíðum. Handritið er vanalega upphafið, á eftir hugmyndinni, og Valdimar leitaði þar til vinar síns, rithöfundarins Þorsteins Marelssonar, um að gera handritð með sér en þeir Þorsteinn gerðu fyrir margt löngu handrit að tveimur sjónvarpsþáttaröðum fyrir börn sem hétu Á fálkaslóðum og Þrír á ferð, um skrítinn frænda með tvo unga frændur sína á ferð um landið þar sem þeir lenda í ýmsum ævintýrum, s.s. þjófnaði á fálkaeggjum. Áður hafði Valdimar leitað til Páls Valssonar, sem nýverið hafði gefið út afar yfirgripsmikla og vandaða bók um líf og störf Jónasar, um að fá að styðjast við skrif hans og fá hjá honum ráð.

Handritsgerð tekur langan tíma og vanalega tekur handritið miklum breytingum áður en það telst endanlegt. Þeir Valdimar og Þorsteinn unnu vikum og mánuðum saman, og voru orðnir nokkuð sáttir við árangurinn, en svo bar skugga á. Þorsteinn hafði veikst af krabbameini og háð við það langa baráttu en varð að lokum að lúta í lægra haldi. Hann lést vorið 2007 og sá því aldrei orðin sín lifna við á tjaldinu.

Velgjörðarmenn

Ekkert þarf að fjölyrða um hversu fjárfrek kvikmyndagerð er, né hversu illa getur gengið að ná saman nógu fé til að takist að gera myndina. Og hér á landi þurfa kvikmyndagerðarmennirnir sjálfir oftar en ekki að sjá um alla þætti, allt frá handriti til fjármögnunar. Kvikmyndamiðstöð Íslands var að sjálfsögðu fyrsti viðkomustaðurinn. En þar gerðist það skrítna að umsókninni var næstum hafnað af því Valdimar þótti of hógvær í kostnaðaráætlun sinni – en þar bjargaði orðsporið honum. Of langt mál yrði að telja allar bréfaskriftirnar og ferðirnar sem á eftir fylgdu en til að myndin yrði að veruleika hlaut Valdimar styrk frá Afmælissjóði Jónasar Hallgrímssonar, Ágústi Einarssyni, rektor við Háskólann á Bifröst, Flugleiðum, með farseðlum til Kaupmannahafnar, og Sjónvarpið keypti sýningarréttinn.

En að vera framleiðandi og leikstjóri eigin myndar getur verið erfitt því „listamaðurinn“ vill oft taka völdin af fjármálamanninum. Í Jónasarmyndinni var allt fé uppurið þegar tökum var lokið og öll eftirvinnslan eftir – nú voru góð ráð dýr! Valdimar leitaði þá til Jóhannesar Jónssonar og sú ferð varð til þess að Menningarsjóður Baugur Group veitti styrk svo ljúka mætti gerð myndarinnar eins og upphaflega handritið hafði gert ráð fyrir.

Hver á að leika Jónas?

Þegar upp var staðið komu um 200 manns að gerð myndarinnar, þar af margir leikarar og aukaleikarar. En auðvitað var aðalhöfuðverkurinn að finna leikarann sem átti að leika Jónas. Landsmenn eru með ákveðna mynd af honum í huga sér og það hefði bara pirrað þá að fara alltof langt frá henni. Og svo var þetta nú þjóðskáldið okkar! Hver leikaranna okkar hæfði hlutverkinu best? Menn lágu ekki á skoðunum sínum en Valdimar var nokkuð snemma með ákveðinn leikara í huga, leikara sem var ekki svo ólíkur Jónasi í útliti – og kannski áttu þeir ýmislegt fleira sameiginlegt? Lesendur verða svo að meta sjálfir hvernig honum tekst til en leikarinn sem varð fyrir valinu er Steinn Ármann Magnússon.

Buxur, vesti, brók og skó...

Síðan tók við mikil vinna að finna alla aðra sem hlutverk áttu í myndinni og Valdimar réð sér sína „hægri hönd“ til hjálpar, Örnu Kristjánsdóttur. Hennar hlutverk var m.a. að hafa samband við fólk út og suður, utan lands sem innan. En það er hægara sagt en gert að finna fjölda manns til starfa um mitt sumar. Ekki var það minna mál að finna búninga frá 19. öld á allt þetta fólk; konur og karla, börn og fullorðna. Það var Helga Rún Pálsdóttir sem sá um það og fór hún meðal annars á búningadeild Danmarks Radio. Þar hafði hún unnið áður en henni brá nú í brún því búið er að flytja mestalla starfsemi DR í nýtt húsnæði en búningadeildin, sem hafði verið vegleg og öflug, kúldraðist ennþá í gamla, hálfrifna húsnæðinu. En henni var tekið opnum örmum og til baka kom hún með kjóla, jakkaföt, skó og stafi, hatta og sólhlífar. Helga bjó líka til ýmislegt af því sem átti að nota, m.a. pípuhattinn góða sem flaut niður síkið. En það þarf fleira til svo „gervið“ sé rétt. Gréta Boða sá um að hárgreiðsla og skegg fólksins væri við hæfi. Henni varð ekki skotaskuld úr að breyta nauðrökuðum karlmanni í annan með mikið skegg og barta, flétta langar fléttur í stutthærðar konur og síðast en ekki síst að breyta leikaranum góða í Jónas Hallgrímsson.

Náttúran og skrítnar uppákomur

Flest gekk ótrúlega vel á tökustöðum og tökur stundum á undan áætlun – sem er yfirleitt fáheyrt í kvikmyndaheiminum. Gantast var með það í hópnum að Jónas sjálfur væri með þeim og gerði sitt til að auðvelda verkið. Valdimar hafði orð á þessu í blaðaviðtali um sumarið og því var slegið upp á forsíðu. En auðvitað kom eitt og annað upp á. Einn þeirra sem koma fram í myndinni er „vaktari“ frá Kaupmannahöfn. Vaktarar höfðu þann starfa að kveikja ljósin í borginni þegar skyggja tók og nota til þess sérstakan krókstaf. Þeir fylgdust líka með því að lögum og reglum væri hlýtt. Ennþá er slíka menn að sjá á götum Kaupmannahafnar – en nú til að gefa ferðamönnum innsýn í gamla tíma. Vaktarinn í myndinni um Jónas heitir Michael Michaelson og hann kom gagngert til landsins til að fara með sína rullu. En í tollinum var krókstafurinn tekinn – hann þótti líkjast vopni of mikið. Nú voru góð ráð dýr. Taka átti upp atriðið með Michael strax um hádegið en án krókstafsins var það ekki hægt! Að lokum, með góðra manna hjálp, tókst að sannfæra menn tollgæslunnar og krókstafurinn fékkst afgreiddur rétt í tæka tíð.

Eins og alþjóð veit ferðaðist Jónas um fjöll og firnindi við náttúrurannsóknir sínar, meðal annars reið hann yfir vatnsmiklar og kröftugar jökulár. Til að leggja áherslu á náttúruunnandann og náttúruvísindamanninn Jónas leikur náttúra Íslands stórt hlutverk í myndinni. Atriði sem sýnir Jónas sundríða yfir jökulár var tekið við Gígjökul, á leiðinni inn í Þórsmörk, og þeir sem þangað hafa komið geta ímyndað sér hversu köld sú sundferð hefur verið – enda þurfti heilmikið til að ná hrollinum úr manni og hesti eftir volkið.

Nýi og gamli tíminn

Óendanlega margt er hægt að segja um Jónas, líf hans og störf – en kvikmynd leyfir ekki langlokur. Velja þurfti því vandlega frá hverju væri sagt úr lífi Jónasar – bæði það helsta og líka það sem ekki allir vissu. Áhorfendur áttu að geta séð „manninn“ Jónas eftir að hafa horft á myndina – kosti hans og galla, ef einhverjir væru. Og Valdimar langaði til að líta mætti á myndina sem ljóð sem ort hefði verið til Jónasar. Til þess notaði hann íslenskt landslag, sýn sína og annarra á skáldið og góðan skammt af „Fjölnismannafyndni“ í bland við sorgina og erfiðleikana. Þáttum úr lífi Jónasar í Kaupmannahöfn voru gerð skil með sviðsetningum og frásögnum en að stórum hluta á þann hátt að Guðlaugur Arason, rithöfundur og leiðsögumaður í Kaupmannahöfn, fór með hóp íslenskra „ferðamanna“ um slóðir Jónasar og sagði frá. „Ferðamennirnir“ þurftu því að flækjast víða og gera aftur og aftur það sama, eins og gengur í kvikmyndagerð, sem auðvitað er ekki hægt að bjóða venjulegum ferðamönnum. Það voru því ýmsir, sem á einn og annan hátt koma að gerð myndarinnar, sem brugðu sér í hlutverk ferðamannanna. Og jafnvel Jónas sjálfur lætur á sér kræla á meðal þeirra, t.d. þegar þeir slökkva þorsta sinn á Hviids vinstue – einum uppáhaldsstaða Jónasar.

„Green Screen“

Mörg atriðanna sem gerast áttu á tímum Jónasar í Kaupmannahöfn voru gerð á þann hátt að þau voru tekin upp í stúdíói í Reykjavík og síðan staðsett í samtíma Jónasar með aðstoð nýrrar tölvutækni sem á ensku kallast „green screen“. Jón Axel Egilsson er galdrameistarinn á bak við þessa tækni en hann og Valdimar höfðu áður en tökur hófust ferðast vítt og breitt um Danmörku og tekið myndir af húsum og fleiru frá tímum Jónasar. Þessar myndir og stúdíóatriðin eru síðan sett saman og það er svo áhorfenda að meta hvernig til hefur tekist þegar þeir sjá myndina á jóladag. Þess skal getið að helstu aðstandendur myndarinnar og Valdimars fengu að sjá hana á frumsýningu í Háskólabíói og höfðu á orði að árangurinn væri miklu betri en þeir höfðu átt von á.

Með rauðan skúf í peysu

Hljóð og tónlist í kvikmyndum skiptir miklu máli og hljóðmeistari Jónasarmyndarinnar var Jón Kjartansson og Guðni Franzson sá um tónlistina en meðal tónlistarinnar í myndinni er nýtt lag við ljóðið hans Jónasar „Ég bið að heilsa“. Alltaf er erfitt að breyta því sem allir eru orðnir vanir og mjög sáttir við, þannig að gaman verður að heyra viðbrögð landsmanna þegar þeir heyra Eivöru Pálsdóttur syngja nýja lagið.

Einnig viðbrögðin við þeirri mynd sem kvikmyndagerðarmaðurinn vildi gefa af Jónasi. Myndinni sem hann vonar að gefi nýja og forvitnilega sýn á manninn á bak við ljóðin og fögru orðin sem allir landsmenn þekkja en ekki síður vísindamanninn og náttúruunnandann Jónas Hallgrímsson.

Höfundur er blaðamaður og hefur starfað á einn eða annan hátt við kvikmyndagerð um árabil.